Guðrún Tinna hóf störf hjá Húsasmiðjunni fyrir rúmum tveimur árum sem framkvæmdastjóri verslanasviðs. Samhliða því starfi situr hún í stjórn Regins fasteignafélags og er stjórnarformaður Svanna, lánatryggingasjóðs kvenna.
„Ég gæti ekki verið heppnari með störf þar sem mér finnst fátt jafn gefandi og að finna leið til að uppfylla þarfir viðskiptavina á sama tíma og hlúð er að starfsfólki, takast á við ólíkar áskoranir innan aðfangakeðjunnar og tryggja arðsemismarkmið eigenda í sátt við samfélagið,“ segir Tinna. „Í dag er mikil krafa um traust, mannauðsmál, upplýsingagjöf, stafræna þjónustu, gagnvirkt markaðsstarf og samfélags- og umhverfismál. Þetta eru allt spennandi verkefni sem ég fæ að sinna með sterku teymi samstarfsmanna um land allt.“
Reksturinn og mannauðsmál
Hjá Húsasmiðjunni, Blómavali og Ískraft starfa rúmlega 500 manns með fjölbreyttan bakgrunn, reynslu og þekkingu í 14 verslunum Húsasmiðjunnar um land allt og sjö Blómavalsverslunum, auk fjögurra útibúa frá Ískraft. Rekstur fyrirtækisins gekk mjög vel á síðasta ári og jókst veltan umtalsvert á milli ára. Að sögn Tinnu var einkaneyslan góð á sama tíma og gríðarlega mikill kraftur var hjá verktökum og í opinberum framkvæmdum. „Við erum með ólíkan hóp viðskiptavina, allt frá einstaklingum sem kaupa til dæmis blóm, heimilistæki, fá litaráðgjöf fyrir heimilið og timbur fyrir pallinn sinn, yfir í stærstu byggingarverktaka landsins þar sem þjónusta og tilboðsgerð í stál, plötur og timbur skipar stóran sess. Þetta krefst mikillar breiddar í vöruúrvali og þjónustu, þótt í grunninn sé ávallt sama leiðarljósið – að eiga í góðu sambandi við viðskiptavininn.
Tinna segir mannauðsmál vera lykilatriði í rekstri góðs fyrirtækis og að öflugur starfsmannahópur hafi gert Húsasmiðjunni kleift að halda uppi frábæru þjónustustigi við viðskiptavini fyrirtækisins síðustu tvö árin þannig að ánægja viðskiptavina jókst milli ára þrátt fyrir afar krefjandi aðstæður í aðfangakeðjunni vegna Covid, bæði varðandi vöruframboð, verðhækkanir og flutning til landsins. „Það sem er ekki síður ánægjulegt er að starfsánægja jókst líka milli ára hjá okkur, þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður, sem sýnir okkur hversu öflugur starfsmannahópurinn er, enda er hann hryggjarstykkið í fyrirtækinu. Einn liður í ánægju starfsmanna er öflugur Húsasmiðjuskóli sem hefur verið starfræktur frá 1998 og býður upp á yfir 300 námskeið á ári.“
Að sögn Tinnu er mikil áhersla lögð á jafnrétti innan fyrirtækisins. „Þar sem oft hefur verið rætt um að byggingargeirinn sé karllægur geiri þá get ég sagt með stolti að innan til dæmis Verslanasviðs Húsasmiðjunnar eru fjórar konur stjórnendur rekstrareininga af 14 verslunum, öflug kona er rekstrarstjóri þungavöruhúss Húsasmiðjunnar og tvær konur eru í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Í heildina eru konur um 30 prósent starfsmanna. Það er mjög erfitt að finna sambærilegt hlutfall í okkar nágrannalöndum. Jafnframt vorum við fyrsta fyrirtækið á byggingarvörumarkaði sem fékk jafnlaunavottun, í upphafi árs 2019.“
Umhverfis- og samfélagsmál
Mikil áhersla er lögð á sjálfbærni og umhverfismál, að sögn Tinnu, bæði inn á við í öllum rekstri Húsasmiðjunnar en ekki síður í vöruframboði og þjónustu við viðskiptavini. „Við erum mjög meðvituð um þá ábyrgð sem hvílir á okkur við val á því vöruframboði sem Íslendingum gefst kostur á að velja úr hér á landi, til bygginga og til heimilis, í samspili við náttúru okkar og jörð.“
Hjá Húsasmiðjunni starfar öflugur sérfræðingur í umhverfismálum sem ávallt er hægt að leita til. Lykilmarkmið sjálfbærnistefnu Húsasmiðjunnar að vera fyrsti valkostur fyrir grænar byggingarvörur og byggingar á Íslandi, og Tinna segir markvisst unnið að því alla daga, bæði innan starfseminnar með til dæmis bestun ferla og lágmörkun úrgangs, auk þess sem stöðugt sé unnið að auknu vöruframboði grænna og vistvænna vara.
„Breeam og Svansvottun eru mest notuðu umhverfisvottanir fyrir byggingar eða byggingarferla á Íslandi. Við veitum viðskiptavinum okkar ráðgjöf varðandi þessar vottanir og á heimasíðu okkar er hægt að finna yfir fjögur þúsund vottaðar vörur undir „Grænar vörur“. Má til dæmis nefna að meirihluti þeirra málningar sem við seljum er Svansvottuð. Á örfáum árum eru almennir viðskiptavinir orðnir mun upplýstari um þessi mál en áður. Ég er ótrúlega stolt af því að Húsasmiðjan sjálf hóf þessa vegferð upp úr árinu 2007 þegar fyrirtækið fór að kaupa timbur úr sjálfbærum skógum, sem er einn stærsti vöruflokkurinn okkar, og er langstærsti hluti þess timburs sem við seljum í dag frá vottuðum skógum. Jafnframt má segja að meirihluti seldra vara okkar í dag til stærstu viðskiptavinanna, það er verktakanna, séu grænar vörur, vottaðar eða leyfilegar í vottuð verkefni.“
Flestir okkar ferlar eru orðnir stafrænir að fullu eða hluta, sem skiptir lykilmáli fyrir skilvirkni og afköst.
Þróun verslunar
Viðskiptavinir standa frammi fyrir gríðarlegum möguleikum í dag við val á fyrirtækjum til að eiga viðskiptasamband við og hvernig viðskiptasambandinu er háttað. Tinna segir landamæri milli hefðbundinna verslana og hins stafræna heims hverfa hratt. „Við sjáum skýrt að viðskiptavinir vilja eiga samskipti við okkur í gegnum ólíka miðla á sama tíma og þeir vilja upplifa sömu þjónustu, vöruframboð og afgreiðsluleiðir, óháð því hvar og hvernig viðskiptin eiga sér stað. Við í Húsasmiðjunni höfum staðið mjög framarlega í stafrænni vegferð síðustu misserin. Flestir okkar ferlar eru orðnir stafrænir að fullu eða hluta, sem skiptir lykilmáli fyrir skilvirkni og afköst. Jafnframt kynntum við í fyrra Húsasmiðjuappið sem er bæði sjálfsafgreiðsluapp og þjónustuapp. Þar getur viðskiptavinur okkar til að mynda fengið greiðsludreifingu, stýrt lánsheimildum þar sem umsóknarferlið er að fullu rafrænt og notað sín afsláttar- og viðskiptakjör.“
Samhliða stafrænni vegferð uppfærir Húsasmiðjan verslanir sínar. Á síðasta ári var opnuð ný og glæsileg 5.000 fermetra verslun á Akureyri og í lok þessa árs verður opnuð sambærileg ný verslun á Selfossi. „Við höfum vandað sérlega vel til verka og búðirnar eru hannaðar út frá þörfum viðskiptavina. Báðar þessar verslanir hafa öflugri málningardeild, vegleg sýningarrými fyrir til dæmis heimilistæki, gólfefni og hreinlætistæki, stærri Blómavalsverslun, auk þess sem timbursalan er orðin enn stærri og með „drive-through“. Verslanirnar eru byggðar með umhverfis staðla í huga, eins og LED-lýsingu og hússtýringakerfi til að lágmarka orkunotkun. Jafnframt erum við með hleðslustöðvar fyrir bæði viðskiptavini og starfsmenn, en við hófum þá vegferð í fyrra að setja upp hleðslustöðvar við verslanir okkar um land allt. Í vor munum við svo taka í gegn stærstu Blómavalsverslun okkar í Skútuvogi sem allflestir Íslendingar á höfuðborgarsvæðinu þekkja mjög vel,“ segir Tinna.
Félag fagkvenna
Tinna segist ekki geta látið hjá liða að nefna frábært samstarfsverkefni milli Húsasmiðjunnar og Félags fagkvenna sem hófst á síðasta ári. „Þar sem við erum einn stærsti byggingarvörusöluaðili hér á landi, og eigum í samstarfi við meirihluta iðnaðarmanna á Íslandi, berum við líka ábyrgð á því að auka hlut kvenna sem stunda iðnnám og vinna við iðngreinar. Við erum í dag bakhjarl félagsins og fórum því í öfluga herferð með Félagi fagkvenna með það að markmiði að efla vitundarvakningu um konur í iðngreinum. Og vá, hvað þetta er öflugur og flottur hópur af konum! Og þeim hefur farið ört fjölgandi á síðustu þremur árum í greinum á borð við pípulagnir, húsasmíði, rafvirkjun og svo framvegis. Það er gríðarlega mikilvægt að konur eigi sér fyrirmyndir í greininni. Við í Húsasmiðjunni erum að hjálpa til við að gera þessar fyrirmyndir enn sýnilegri,“ segir Guðrún Tinna Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri verslanasviðs Húsasmiðjunnar.