Plastplan var stofnað árið 2018 og leggur mikinn metnað í hönnun vandaðra nytjahluta úr endurunnu plasti. Plastið kemur frá samstarfsaðilum Plastplans og er það hakkað á vinnustofu fyrirtækisins þannig að það verður að kurli sem er síðan notað sem hráefni fyrir vélar sem fyrirtækið hefur smíðað.

„Bráðnu plastkurli er þrýst í mót í sérstakri vél. Plastkurlið er svo brætt og pressað í plötupressunni til að búa til plastplötu og í iðnaðarþrívíddarprentaranum er kurlið brætt og úðað út lag fyrir lag til þess að búa til þrívíða hluti,“ segir Arngrímur Guðmundsson sem er nýútskrifaður vöruhönnuður og hefur unnið að hönnun og smíði á iðnaðarþrívíddarprentaranum undanfarin þrjú sumar hjá Plastplani en Nýsköpunarsjóður námsmanna gerði fyrirtækinu kleift að ráða hann inn.

Leiðir Arngríms og Björns Steinars Blumenstein, annars eiganda Plastplans, lágu fyrst saman vorið 2020 þegar Björn kenndi honum áfanga í Listaháskólanum. „Þar gerði ég gagnvirkt verkefni sem varð til þess að hann vildi fá mig með sér í að hanna og smíða þrívíddarprentara fyrir Plastplan.“

Arngrímur hóf að hanna og smíða þrívíddarprentara sumarið 2020 ásamt Flosa Hrannari Ákasyni.

Skemmtilegar áskoranir

Verkefnið hófst sumarið 2020 þar sem Arngrímur og Flosi Hrannar Ákason, sem þá var að útskrifast úr vélaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík, vörðu sumrinu í að hanna og smíða þrívíddarprentara sem gat prentað einn rúmmetra. „Þrívíddarprentarinn virkar í stuttu máli þannig að bráðnu plasti er úðað út úr svokölluðum „extruder“ sem færist upp og niður (z-ás), fram og aftur (y-ás) og til hliðar (x-ás). Prentarinn úðar síðan út plasti lag fyrir lag þangað til það er kominn þrívíður hlutur.“

Sumarið 2021 sneri Arngrímur aftur og tók þátt í ýmsum verkefnum hjá Plastplani ásamt Loga Pedro Stefánssyni. „Ég hélt áfram að vinna í þrívíddarprentaranum á meðan Logi var að setja saman CNC-fræsara og að hanna mót fyrir „injection“-vélarnar. Stærsta verkefnið var að hanna og setja saman nýjan og öflugri „extruder“ á prentarann til þess að geta prentað hraðar.“

Plastkurl öðlast nýtt líf.

Fjölbreytt verkefni

Síðasta sumar var þriðja sumar Arngríms hjá Plastplani og verkefnin voru fjölbreytt og skemmtileg eins og áður. „Stærsta verkefnið sem ég kom að síðasta sumar var að prufa að prenta mismunandi tegundir af plasti, til dæmis PP, PS, HDPE og LDPE svo nokkur dæmis séu tekin. Það er áhugavert hvað þessar tegundir eru ólíkar. Ásamt stússi í þrívíddarprentaranum, var ég líka að hanna injection-mót og ýmislegt fleira.“

Arngrímur er mjög ánægður með verkefnin sem hann hefur komið að hjá Plastplani. „Þessi þrjú sumur í Rannís-verkefnum hafa verið ótrúlega lærdómsrík og mjög gaman að hafa getað verið partur af uppbyggingu Plastplans, þökk sé Nýsköpunarsjóði námsmanna.“