Auður Ragnarsdóttir og Bylgja Rán eru eigendur verslunarinnar The Mistress. Þær kynntust þegar þær störfuðu saman á hjúkrunarheimili en báðar tóku þær næturvaktir. „Við töluðum oft um það í hálfgerðu gríni hversu mikill draumur það væri að reka okkar eigin fyrirtæki. Einn daginn tókum við ákvörðun og kýldum á það,“ segja þær. „Okkur fannst tilvalið að opna undirfataverslun þar sem okkur hefur fundist erfitt að finna fallega brjóstahaldara í okkar stærðum á góðu verði.

Verslunin hefur núna verið starfrækt frá því í september 2019 og við höfum fengið frábærar viðtökur, sérstaklega hjá konum sem hafa komið í mælingu hjá okkur. Margar segja að þetta sé í fyrsta sinn sem þær fái þægilegan og passlegan brjóstahaldara. Það er ekki óalgengt að fólk labbi út í glænýjum haldara sem er mörgum skálastærðum stærri en sá sem þær komu inn í. Eins hefur fólk haft orð á því að það hafi vantað svona verslun sem er bæði með hversdagsundirföt og spariundirföt án þess að vera „dónó“,“ segja þær.

Þegar þær eru spurðar hvort fólk sé ófeimið við að koma inn og skoða úrvalið svara þær því játandi. Sem betur fer eru flestir ófeimnir að koma inn og skoða. Nafnið á búðinni hefur stundum fælt suma frá en við viljum ekki breyta því – okkur finnst skemmtilegt hvað orðið „mistress“ hefur margar ólíkar merkingar en fyrir utan að þýða viðhald og dominatrix átti það áður fyrr líka við um allar konur í valdastöðu eins og húsfreyjur, skólastýrur og lærðar konur,“ segir Auður og bætir því við að fólk af öllum kynjum versli hjá þeim og fólki líði vel að koma inn í verslunina.

„Helsta óöryggi sem við verðum vör við er þegar fólk veit ekki hvaða stærð það eigi að kaupa á ástvin en þá gerum við okkar besta að áætla réttu stærð.“

Undirfatnaður getur bæði verið fallegur og kynþokkafullur.

En hvaða vörur eru vinsælastar?

„Brjóstateipið er rosalega vinsælt, enda algjör snilld og einfalt í notkun. Settin frá Gorteks eru líka rosa vinsæl, þau eru þægileg og falleg auk þess að vera fáanleg í næstum öllum stærðum. Við reynum að bjóða upp á mjög breitt úrval af stærðum. Markmið okkar er að vera verslun þar sem heill vinahópur gæti komið og allar fundið eitthvað fallegt á sig,“ segja þær.

„Við bjóðum upp á frekar fjölbreytt vöruúrval, má þar helst nefna undirföt, háa sokka, korselett, náttföt og leggings, svo má auðvitað ekki gleyma öllum fylgihlutunum og árstíðabundnu vörunum sem við erum með og húðvörunum frá Skin Candy. Við erum bæði með sexý og hefðbundinn undirfatnað í bland. Eitthvað fyrir flest tækifæri en við erum aðallega að bjóða tvö merki og leggjum áherslu á þau, það eru Gorteks Lingerie de Femme sem er hannað og framleitt í Póllandi og býður upp á fjölda stærða frá bandstærð 65 til 100 og skálar A til H. Svo er Bluebella ótrúlega fallegt merki með fágaðar og ögrandi vörur. Síðan eru ýmis önnur stór merki sem leynast í búðinni svo það er um að gera að koma og skoða hjá okkur,“ segja þær.

The Mistress er á annarri hæð í Firðinum, Hafnarfirði og er með netsíðuna themistress.is.

Mikið úrval er hjá The Mistress af fallegum undirfatnaði.