Ískalt grunnvatn, funheitir hverir, stöðuvötn og straumvötn, mýrlendi og urmull fossa og flúða. Á fullveldisdaginn 2018 opnaði Náttúruminjasafnið stórglæsilega sýningu í Perlunni sem ber heitið „Vatnið í náttúru Íslands.“ Sýningin miðlar þeirri fjölbreyttu ásýnd sem vatnið tekur sér hér á landi og fjallar um það frá ýmsum hliðum, allt frá margvíslegum eiginleikum vatnsauðlindarinnar til fjölbreytileika vatnalífríkisins.

Sýningin hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir skýr og skemmtileg efnistök sem höfða til fólks á öllum aldri. „Það getur verið snúið að miðla upplýsingum um sama efni til ólíkra hópa, en að sýningunni kemur kunnáttufólk úr öllum áttum – náttúrufræðingar, safnkennarar, tungumálasnillingar, hönnuðir, teiknarar, lista- og iðnaðarmenn,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands. Staðsetningin er heldur engin tilviljun, en Perlan hvílir á sex tönkum sem í dag rúma alls um 24 milljónir lítra af heitu vatni. „Fyrst kom staðurinn og svo efnistök sýningarinnar, ferskvatnið, sem jafnframt er á rannsóknasviði Náttúruminjasafnsins,“ segir Hilmar.

Einkennisdýrið er lirfa

Einkennisdýr sýningarinnar er vatnsköttur, sem er ungviði eða lirfustig vatnabjalla, og leiðir hann unga gesti í gegnum sýninguna. „Okkur fannst hann viðeigandi. Vatnskettir eru fallegir í laginu, minna á dreka, þrífast við mismunandi aðstæður og eru mjög lífseigir og knáir þrátt fyrir að vera smáir.“

Vatnskötturinn leiðir unga gesti í gegnum sýninguna. Mynd/Vigfús Birgisson

Alþjóðleg verðlaun

Á sýningunni er margmiðlunartækni töluvert notuð í miðlun á efni og vann Náttúruminjasafnið með tveimur leiðandi fyrirtækjum á því sviði, Gagarín hér heima og hinu þýska ART+COM studios. Gagarín hlaut í fyrra eftirsótt hönnunarverðlaun í Evrópu fyrir þrjár margmiðlunarstöðvar á sýningunni: Fossar, sem er myndrænn hljóðskúlptúr, Rennslismæla, gagnvirka stöð sem sýnir rauntímarennsli í 18 íslenskum ám og Vistrýni, gagnvirka stöð þar sem gestir kanna lífríki í votlendi Íslands. „Verðlaunin hafa verulega þýðingu fyrir Náttúruminjasafnið og íslenskt safnastarf og við hömpum þeim með stolti og auglýsum þannig sýninguna. Þessi sýningaratriði eru snilldarlega útfærð og meðal þeirra allra vinsælustu á sýningunni.“

Langþráð framtíðarlausn Náttúruminjasafnsins

Frá stofnun Náttúruminjasafnsins 2007 hefur það lengst af glímt við takmarkaðar fjárheimildir og aðstöðuleysi. En við opnun sýningarinnar í Perlunni, sem er fyrsta sjálfstæða sýning safnsins síðan það var stofnað, varð ákveðinn viðsnúningur í starfseminni. Safnið býr þó ekki enn yfir eigin húsakosti heldur leigir allt húsnæði undir starfsemina, þ.m.t. sýningarýmið í Perlunni.

„Og nú hefur enn eitt mikilvægt skref verið stigið í átt að langþráðri framtíðarlausn fyrir þetta höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum,“ segir Hilmar. Hann vísar til þess að verið sé að skoða þann möguleika að Náttúruminjasafnið fái inni í svokölluðu „Lækningaminjasafni“ á Seltjarnarnesi, glæsibyggingu sem staðið hefur tóm í rúman áratug, og hafi þar bækistöðvar með sýningahald, rannsóknir og aðra starfsemi sína. „Þetta er afar fýsilegur kostur og vonandi verður af þessu sem fyrst.“ segir Hilmar.

Á sýningunni má skoða fjölbreytileika vatnalífríkisins. Mynd/Vigfús Birgisson

Sérsýning um rostunga

Í sýningarými Náttúruminjasafnsins í Perlunni er sérstakt rými ætlað undir tímabundnar sérsýningar. Nýlega var opnuð þar sérsýningin Rostungurinn sem stendur fram í miðjan október, en þá tekur við sérsýning með Jöklarannsóknafélagi Íslands í tilefni af 70 ára afmæli félagsins. Rostungssýningin segir frá hinum merkilega íslenska stofni rostunga sem dó út laust eftir landnám, líklega vegna ofveiði. Á sýningunni má sjá steingerða rostungshausa og skögultennur, og fjallað er í máli og myndum um örnefni, fundarstaði beinaleifa, rostungsafurðir og tengsl við Íslandssöguna.

Vegna samkomutakmarkana eru sýningar Náttúruminjasafnsins í Perlunni opnar skemur en ella, eða frá 12–18 alla daga. Ókeypis er inn á sýninguna gegn framvísun Vildarvinakorts Perlunnar. Kortið má nálgast í afgreiðslu Perlunnar og á perlan.is.