Fyrir ekki svo löngu þótti það sjálfsagður hlutur í íslensku samfélagi að fara í bankann öll mánaðamót til að borga reikninga heimilisins, í stað þess að greiða þá með einum smelli í heimabanka,“ segir Þórný Pétursdóttir, forstöðumaður hjá Reiknistofu bankanna (RB).

Hún segir flesta taka því sem sjálfsögðum hlut að geta borgað fyrir hlutina stafrænt og hugsa lítið út í tæknina sem þar liggur að baki.

„Að baki tækninni sem sparar okkur ferðina í bankann, og gerir okkur kleift að borga reikninga í netbanka, er lausn sem RB smíðaði í samvinnu við bankana upp úr síðustu aldamótum og hefur rekið allar götur síðan. Í gegnum lausnina flæða árlega 30 milljónir krafna af ýmsu tagi, sem áður hefðu verið afhentar og greiddar með margfalt óskilvirkari hætti. Með því að losa okkur undan tilheyrandi biðröðum og handavinnu, bæði þeirra sem greiða og þeirra sem taka við greiðslu, spörum við okkur fjölda klukkustunda á ári,“ upplýsir Þórný.

Lausn til að létta lífið

Hlutverk RB er að vera lykilsamstarfsaðili sem skapar virði fyrir viðskiptavini sína með rekstri og þróun öruggra innviða fyrir fjármálamarkaðinn.

„Við viljum vera drifkraftur breytinga og skapa hagræði fyrir okkar viðskiptavini,“ segir Þórný. „Lausnin í núverandi mynd var búin til upp úr síðustu aldamótum. Vinnan byggðist á góðu samstarfi á milli RB og sérfræðinga sem voru að störfum hjá bönkunum. Hún var smíðuð af mikilli framsýni, fyrst og fremst með það í huga að létta almenningi lífið og auka sjálfvirkni og skilvirkni greiðslukerfisins. Kröfupotturinn hefur einnig þá sérstöðu að um er að ræða eina miðlæga lausn fyrir allt landið sem hægt er að nálgast úr netbönkum allra banka. Þetta er uppsetning sem við höfum ekki séð dæmi um annars staðar í heiminum en einfaldar lífið mjög mikið fyrir bæði kröfuhafa og greiðendur hér á landi.“

Starfsfólk RB heldur áfram þróun á þessari afkastamiklu lausn og í kortunum eru nýjungar sem gera munu líf íslenskra bankanotenda enn þægilegra.

„Það fer ekki endilega mikið fyrir því þegar það gerist heldur verður líf okkar bara allt í einu númerinu auðveldara án þess að við veitum því sérstaka eftirtekt,“ segir Þórný.

„Lausnin hefur verið í mikilli þróun og endurnýjun á síðustu árum. Hún hefur verið uppfærð, margvísleg viðbótarvirkni hefur verið þróuð og allir innviðir eru í endurnýjun. Í þeirri endurnýjun hefur meðal annars verið lögð áhersla á ógreidda reikninga. Næst á döfinni er tenging við rafræn skjöl og viðbætur sem gera bönkunum kleift að bjóða upp á fullkomna innheimtuþjónustu fyrir allar tegundir fyrirtækja, allt frá þeim stærstu yfir í lítil húsfélög og góðgerðarfélög.“

Afburða fjármálaþjónusta

RB leggur áherslu á að mæta kröfum og óskum bankanna þannig að þeir geti mætt þörfum viðskiptavina sinna sem allra best með þægilegum og hagkvæmum hætti.

„Flestir sem komnir eru til vits og ára kannast við Ógreidda reikninga sem birtast þeim í öppum og netbönkum. Með því að skoða þá er hægt að fá góða yfirsýn yfir helstu greiðslur sem standa þarf skil á næstu daga og vikur. Hægt er að greiða ógreidda reikninga með einum smelli og upphæðin færist á örstuttri stundu af reikningi greiðanda inn á reikning þess sem gaf út reikninginn. Einnig er hægt að óska eftir að sambærilegir reikningar skuldfærist ávallt sjálfkrafa af reikningi greiðenda,“ útskýrir Þórný um þá hraðvirku og þægilegu leið sem miðlar greiðslum frá greiðanda til viðtakanda og byggir á miðlægum gagnagrunni sem RB þróar og rekur.

Þórný segir fæsta gleðjast yfir reikningunum sínum en þeir sem muni eftir hvernig þetta var hér áður fyrr, eða þekki til erlendis, sakni sjálfsagt fáir raðanna sem voru í bönkum um hver mánaðamót þar sem fólk var mætt til að greiða af lánum.

„Íslensk fjármálafyrirtæki hafa alltaf lagt mikla áherslu á að veita viðskiptavinum sínum afburða fjármálaþjónustu í gegnum netið og öpp. Ógreiddir reikningar og virknin í kringum þá eru mikilvægur þáttur í að ná því markmiði og við munum halda áfram að þróa lausnina með okkar viðskiptavinum til að skapa enn meiri þægindi fyrir fyrirtæki og almenna notendur,“ segir Þórný.

Allt um Reiknistofu bankanna á rb.is