Myndlistarmennirnir Gunnella Ólafsdóttir og Laufey Jensdóttir eru forsvarsmenn Gallerísins sem hóf rekstur sinn að Skólavörðustíg 20 í júní 2019. Þær stofnuðu Galleríið með það að leiðarljósi að koma listsköpun sinni og annarra á framfæri. Auk þeirra koma myndlistarmennirnir Árný Björk Birgisdóttir, Erna Jónsdóttir, Kristjana S. Williams, Margrét Erla Júlíusdóttir og Vilborg Gunnlaugsdóttir að rekstri Gallerísins.

Húmor og fjölbreytileiki

Gunnella útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskólanum árið 1987. Hún er löngu orðin þekkt fyrir fígúratíf olíumálverk sín sem einkennast af húmor með tilvísun í íslenska staðhætti og menningu.

Laufey útskrifaðist með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2002. Sem myndlistarmaður hefur hún tileinkað sér að vinna með ólíka listmiðla. Því einkennast verk hennar af fjölbreytileika og gjarnan togstreitu á milli miðlanna.

Þær stöllur kynntust í gegnum samstarf í Grósku, félagi myndlistarmanna í Garðabæ, en þær voru báðar í hópi þeirra sem stofnuðu félagið.

Galleríið var stofnað sumarið 2019 af myndlistarmönnum.

Úrval verka í ólíkum miðlum

Hugmyndin að Galleríinu kviknaði þegar þeim bauðst óvænt húsnæðið en þær sáu fyrir sér að það gæti hentað vel undir gallerírekstur. Hjólin snerust hratt og innan tveggja mánaða opnuðu þær dyrnar að Galleríinu í samstarfi við tvo aðra listamenn. Fljótlega bættust fleiri í hópinn og er þar nú að finna verk eftir 24 ólíka myndlistarmenn. Frá upphafi hefur verið lagður metnaður í að velja af fagmennsku listamennina sem selja verk sín í Galleríinu og gætt að því að hver þeirra búi yfir sinni sérstöðu. Þannig býður Galleríið upp á úrval listaverka unnin í ólíkum miðlum, svo sem olíuverk, vatnslitaverk, ljósmyndaverk, skúlptúra og hönnun.

Myndlistarmenn Gallerísins hafa margir hverjir starfað í áraraðir í myndlistinni og vakið athygli hver á sínu sviði en auk þess hafa áhugaverðir ungir myndlistarmenn fengið þar tækifæri til að blómstra í sinni sköpun. Slíkt samstarf hefur reynst lærdómsríkt fyrir báða aðila og verður því haldið áfram.

Fyrir utan fyrrnefnda myndlistarmenn hafa eftirfarandi einnig verið valdir inn í Galleríið; Charlotta María Hauksdóttir, Harry Bilson, Henrik Chadwick Hlynsson, Inga Torfadóttir, Íris Auður Jónsdóttir, Jón Baldur Hlíðberg, Jón Þorsteinsson, Karl Jóhann Jónsson, Kolbrún Friðriksdóttir, Kristín Hálfdánardóttir, Ólöf Einarsdóttir, Óskar Thorarensen, Sara Vilbergsdóttir, Sigurður Sævar Magnúsarson, Thomas Fleckenstein, Tinna Royal og Þorgrímur Andri Einarsson.

Það er mikil upplifun að heimsækja Galleríið á Skólavörðustíg þar sem hægt er að skoða og festa kaup á verkum eftir fjölda ólíkra listamanna.

Örkynningar og uppákomur

Gunnella og Laufey eru þakklátar fyrir að hafa á skömmum tíma tekist að skapa sér orðspor um að Galleríið sé vandað gallerí. Til að vera sýnilegra hefur Galleríið haldið svokallaðar örkynningar þar sem hægt er að kynnast listamönnum Gallerísins og verkum þeirra betur. Fleiri slíkar eru væntanlegar eftir frábærar viðtökur.

Stefnt er að enn frekari uppbyggingu með óvæntum uppákomum innan veggja Gallerísins og víðar. Á haustdögum liggur fyrir að halda stóra samsýningu myndlistarmanna Gallerísins sem þær þora að lofa að eigi eftir að vekja mikla athygli. Þær hvetja alla sem áhuga hafa á listsköpun að fylgjast með framgangi þeirra í hinni síbreytilegu listflóru á komandi misserum með því að heimsækja Galleríið á Skólavörðustíginn eða í netheimum á Facebook og Instagram undir heitinu Galleríið. Þær veita einnig góða ráðgjöf og upplýsingar í síma 862 0240.

Öll sem koma að Galleríinu trúa á listina og gildi hennar til góðs og því líta þau björtum augum til framtíðar.

Galleríið er staðsett að Skólavörðuholti 20.