Krabbameinsfélagið býður upp á ráðgjöf og stuðning við þá sem hafa greinst með krabbamein, aðstandendur og þá sem misst hafa ástvin úr krabbameini, þeim að kostnaðarlausu. Að sögn Þorra hóf Krabbameinsfélagið að bjóða upp á ráðgjafar- og stuðningsþjónustu árið 2007 en áður hafði félagið rekið símaráðgjöf hjúkrunarfræðinga í mörg ár. Þjónustan hefur í gegnum árin þróast í takt við þarfir skjólstæðinga því sífellt er leitað nýrra leiða til þess að koma betur til móts við hópinn.

Með Þorra starfa hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, félagsráðgjafar og kynfræðingur. „Við bjóðum upp á ráðgjöf og stuðning, viðtöl, símaráðgjöf og ýmis námskeið. Allt miðar þetta að því að gefa þeim sem til okkar leita verkfæri í hendurnar til að takast á við tilfinningar, hugsanir, streitu og líkamleg einkenni sem geta komið upp, bæði í veikindunum og eftir þau.

Auk þess veitum við hagnýtar upplýsingar um réttindi fólks með krabbamein því það er ekki alltaf auðvelt að átta sig á hvaða úrræði viðkomandi geti hugsanlega nýtt sér. Einnig bjóðum við handleiðslu fyrir fagfólk skóla og heilsugæslu sem vinnur með börn sem misst hafa foreldri og veitum vinnustöðum ráðgjöf ef vinnufélagi greinist með krabbamein. Haldið er úti Stuðningsneti í samstarfi við aðildarfélög Krabbameinsfélagsins en í gegnum það er tengt saman fólk sem gengið hefur í gegnum svipaða reynslu. Auk þess eru mismunandi stuðningshópar starfandi. Krabbameinsfélagið á átta íbúðir sem standa fólki utan af landi til boða þegar það þarf að sækja rannsóknir eða meðferð til Reykjavíkur. Jafnframt býðst akstursþjónusta fyrir þá sem eiga erfitt með ferðir vegna meðferða eða rannsókna á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og sjá má á þessu er þjónustan sem við hjá Krabbameinsfélaginu veitum mjög fjölbreytt og miðar öll að því að mæta fólkinu okkar þar sem það er statt í sinni vegferð til að reyna að létta undir með því eins og við getum,“ segir Þorri.

Þjónustan miðuð að þörfum hvers og eins

Það er alltaf áfall að greinast með krabbamein og að sögn Þorra getur fólk fundið fyrir ólíkum sálrænum einkennum. „Mörg upplifa tilfinningalegt uppnám, mikla þreytu, einbeitingarskort, minnistruflanir, erfiðleika með svefn og tilfinningasveiflur sem dæmi. Fyrst um sinn getur verið mikilvægt að hjálpa fólki að ná utan um þessar fréttir og styðja við fjölskylduna á þessum erfiða tíma. Flest finna að lokum leið til að aðlagast þessum nýja veruleika en önnur þurfa meiri stuðning í gegnum ferlið. Það eru síðan alltaf einhver sem þróa með sér alvarlegri vandamál eins og mikinn kvíða eða þunglyndi sem krefst meðhöndlunar.“

Eftir að meðferð lýkur er síður en svo sjálfgefið að þörfin fyrir stuðning hverfi. Margir finna einmitt á þeim tímapunkti fyrir mjög miklu óöryggi. „Sem betur fer eru sífellt fleiri sem læknast af krabbameini eða geta lifað lengi með sínum sjúkdómi. Fólk tekst þá oft á við erfiðar tilfinningar og afleiðingar meðferðar í einhvern tíma eftir að meðferð lýkur, og mörg leita til okkar á þessum tímapunkti. Við sjáum það æ betur hve endurhæfing skiptir miklu máli eftir svona veikindi og í raun mælum við með að endurhæfing sé hluti af öllu ferlinu og hefjist helst strax við greiningu. Auðvitað þarf endurhæfingin svo að henta hverjum og einum einstaklingi og taka mið af aukaverkunum meðferðar.

Við setjum ekki tímamörk eða takmörk á fjölda skipta sem fólk getur leitað til okkar hjá Krabbameinsfélaginu. Við mætum þörfum hvers og eins og veitum aðstoð eftir þörfum.

Við leitum sífellt nýrra leiða til þess að koma betur til móts við þarfir þeirra sem til okkar leita. Þjónusta Krabbameinsfélagsins stendur öllum sem greinst hafa með krabbamein, aðstandendum og syrgjendum til boða, þeim að kostnaðarlausu. Fólk getur haft samband við okkur í síma, gegnum tölvupóst eða einfaldlega mætt á staðinn og óskað eftir viðtali við fagaðila okkar.“

Þjónusta í heimabyggð

Nokkur aðildarfélög Krabbameinsfélagsins reka skrifstofur á landsbyggðinni þar sem fólk getur leitað eftir upplýsingum og stuðningi. Hjúkrunarfræðingur frá Krabbameinsfélaginu starfar á Akureyri í samstarfi við Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis auk þess sem fagaðili fer reglulega á Selfoss, Suðurnes og Austurland enda mikilvægt að sem flestir geti fengið þjónustu í sinni heimabyggð. „Ekki er þó hægt að mæta öllum á þann hátt og því bjóðum líka upp á fjarviðtöl og símaráðgjöf,“ segir Þorri.

Nánari upplýsingar um þjónustu Krabbameinsfélagsins og yfirlit yfir viðburði má finna á krabb.is. Hægt er að hafa samband í síma 800 4040 eða í tölvupósti: rad-gjof@krabb.is.