Hugmyndafræði verkefnisins Barnvæn sveitarfélög byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, sem á ensku heitir Child Friendly Cities. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna, en UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingarferlinu.

Hér á landi er verkefnið samstarfsverkefni UNICEF og félags- og barnamálaráðuneytisins. Unnið hefur verið að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Kópavogi frá árinu 2018, en bæjarstjórnin samþykkti í maí það ár að innleiða Barnasáttmálann hjá bænum.

Fyrsta skref innleiðingarinnar var umfangsmikil greiningarvinna í sveitarfélaginu á stöðu og aðstæðum barna í bænum. Í kjölfar hennar var ákveðið hvar ráðast þyrfti í úrbætur með tilliti til réttinda barna, þátttöku þeirra, öryggis og verndar og möguleikum til að vaxa og þroskast. Alls voru settar fram 18 aðgerðir með það að markmiði að tryggja enn betur réttindi barna með hliðsjón af Barnasáttmálanum.

Meðal aðgerða

  • Fundir ungmennaráðs með bæjarstjórn
  • Tilkynningahnappur til barnaverndar í spjaldtölvur nemenda
  • Mælaborð barna n Geðræktarhús
  • Vefsíða um náttúru Kópavogs
  • Barnaþing sem haldið verður árlega n Ábendingahnappur í spjaldtölvur nemenda
  • Greiningarmódel fyrir mælitölu barnvænna fjármála