Félagið hefur statt og stöðugt stækkað frá stofnun en í dag eru um 250 konur skráðar í félagið að sögn Agnesar Guðmundsdóttur, formanns félagsins. Félagið nær til allra landshluta og viðburðirnir líka.

Tilgangur og markmið Kvenna í sjávarútvegi er fyrst og fremst að efla tengslanet kvenna í atvinnugreininni, og styrkja félagskonur í sínum störfum. „Við heimsækjum fyrirtæki í sjávarútvegi og höldum fjölbreytta viðburði, bæði til að auka þekkingu og fá betri innsýn í hvað er að gerast í greininni.“

Tækifæri í sjávarútvegi

Agnes hefur verið formaður félagsins í tvö ár. Hún ólst upp á Snæfellsnesi og í Vesturbænum og hefur verið viðloðandi sjávarútveg alla sína tíð. Það að vera ung kona í karllægri atvinnugrein er bæði krefjandi og skemmtilegt. Hún segist læra bæði mikið af konum í félaginu og kemur sjálf með nýja sýn á hlutina. „Ég fór í nám erlendis fyrir nokkrum árum og það opnaði augu mín fyrir fjölbreytileikanum í heiminum og þeim margvíslegu tækifærum sem eru fyrir hendi og hvað við getum gert til að nýta þau.“

Agnes velti fyrir sér framtíðarhorfum íslensks sjávarútvegs. „Það er margt sem við getum eflt til að gera hann enn betri og eru þar markaðsmál í fyrirrúmi en mér finnst greinin vera að taka við sér í þeim málum. Hér á Íslandi hefur verið mikil nýsköpun í kringum nýtingu aukaafurða og áhersla verið lögð á minni umhverfisáhrif veiða. Við viljum búa til sem mest verðmæti úr auðlindinni okkar og hugsa sem best um hana.

Hæfileikaríkar konur

Stjórnarkonur félagsins koma úr ýmsum áttum og mynda sterka heild sem saman vinnur að stöðugri þróun á félaginu.

„Það eru alls konar konur í alls konar greinum sjávarútvegsins.“ Þótt konur séu í minnihluta í sjávarútvegi er þeim sífellt að fjölga. „Það er gaman að sjá aukninguna. Sjávarútvegurinn er fjölbreyttur, það eru margar konur að sækja í frumkvöðlagreinarnar sem er spennandi þróun. Við viljum sýna konum hversu gaman og fjölbreytt það er að vinna í sjávarútvegi.“ Með því að efla konur í þessari atvinnugrein er líka brautin rudd fyrir fleiri konur að starfa innan hennar.

Aðspurð af hverju það er mikilvægt að efla konur í sjávarútvegi segir Agnes að það sé fyrst og fremst til að halda í þær konur sem nú starfa innan greinarinnar og fjölga þeim. „Ísland á heilan helling af hæfileikaríkum konum og það er mikill akkur fyrir sjávarútveginn að hafa þær innan sinna raða.“ Starf félagsins er svo ekki síður mikilvægt vegna þeirrar ástæðu að konur þurfa vettvang til að geta skapað tengslanet innan sjávarútvegsins, sem Félag kvenna í sjávarútvegi veita. „Karlmenn eru talsvert fleiri innan greinarinnar og hafa átt auðveldara með að mynda tengslanet. Í okkar félagsskap er vettvangur til að mynda sambönd. Með því að byggja upp tengslanet er stuðlað að því að halda konum inni, auka þeirra möguleika á hærri stöðum og skapa svið fyrir félagskonur að skiptast á fróðleik og læra af hver annarri.“

Efla yngri kynslóðir

Eitt af markmiðum félagsins er að efla yngri kynslóðir í sjávarútvegi, og fá yngri konur til að kynnast greininni snemma á starfsferlinum. Tilgangurinn er að ná betri tengingu við ungt fólk sem býr yfir alls kyns athyglisverðri kunnáttu og þekkingu og eflir sjávarútveginn og nýsköpun innan hans, sem Agnes segir að sé mikilvægt fyrir greinina. ,,Það er mikið af öflugum fyrirtækjum á Íslandi sem eru að gera frábæra hluti. Við förum í margar heimsóknir og fáum að kynnast starfinu og konunum sem vinna þar. Háskólinn á Akureyri hefur líka stutt okkur mikið,“ en þar er sjávarútvegsfræði kennd. „Við erum að styrkja samstarfið þar á milli.“

Samstarf við stuðningsgreinar mikilvægt

Fjölbreyttar greinar eru innan sjávarútvegsins, félagskonur eru ýmist í veiðum, vinnslu, tækni og þróun og svo framvegis. „Þær eru líka í stuðningsgreinum eða þjónustugreinum sjávarútvegsins. Til dæmis tryggingafélögum og flutningafélögum.“ Ein þessara þjónustugreina eru bankarnir en Íslandsbanki hefur stutt við Félag kvenna í sjávarútvegi frá upphafi. „Stofnfundurinn árið 2013 var haldinn í Íslandsbanka og hefur hann verið traustur bakhjarl síðan þá.“

Konur úr öllum þessum ólíku áttum hafa vettvang félagsins til að kynnast og skiptast á skoðunum og deila með sér reynslu. „Við höfum séð að konur fá rosalega mikið út úr þessum vettvangi.“ Það er mikilvægt að konur geti fengið ráð og hugmyndir frá kunningjum þegar kemur að því að takast á við ný verkefni og vandamál. „Það er alveg ómetanlegt, bæði fyrir konur en ekki síður fyrir greinina í heild.“