„Margir sem koma til okkar í leit að góðum rúmfötum biðja gjarnan um rúmföt úr damaski. Damask er hins vegar enginn gæðastimpill, heldur þýðir damask einfaldlega ákveðin tegund af vefnaði, þar sem mynstur er ofið í efnið. Það getur því verið erfitt að átta sig á hvað er réttan og hvað rangan á damask-efnum, og stundum er engin ranga,“ segir Hildur Þórðardóttir hjá Rúmföt.is.

Jafnframt sé hægt að blanda saman damask-vefnaði og satín-vefnaði.

„Það eru skemmtilegustu efnin að okkar mati. Hægt er að vefa damask úr alls kyns efnum, ekki bara náttúrulegu efni, eins og bómull, ull, silki og hör, heldur líka gerviefnum eins og reion og pólýester. Við notum auðvitað bara náttúruleg efni í rúmfötin okkar; langmest bómull en stundum silki,“ greinir Hildur frá.

Áprentað satín er yndislegt viðkomu. Það fæst í æðislegum mynstrum og líka á tvíbreiðar sængur. MYND/AÐSEND
Vandað og flott damask frá þýska vefaranum Curt Bauer hefur slegið í gegn, sérhannað til að krumpast lítið. MYND/AÐSEND

Flottasta damaskið frá Ítalíu

Damask má nota í alls kyns vörur, svo sem fatnað, töskur, áklæði, gardínur og dúka, og meira að segja veggfóður sem hjálpar til við að einangra veggi þegar það er úr ull. Veggfóður sem er á boðstólum á Íslandi er þó líklega eftirlíking úr pappír.

„Talið er að damaskvefnað megi rekja allt til ársins 300 fyrir Krist í Kína, og þá aðallega úr silki. Snemma á miðöldum barst damask-vefnaður til borgarinnar Damaskus í Sýrlandi og þaðan er nafnið sem við þekkjum komið. Borgin var hluti af silkileiðinni svokölluðu, sem tengdi saman Kína og aðrar þjóðir, og í framhaldinu gerðust Damaskusbúar stórtækir í framleiðslu og verslun með damaskefni,“ upplýsir Hildur.

Í sumar kom í búðina kona frá Sýrlandi sem varð himinlifandi þegar hún sá að Rúmföt.is býður upp á damask eins og hún þekkir svo vel frá sínu heimalandi.

„Damask getur verið einlitt eða marglitt, og í gegnum árhundruðin var það oft ansi litríkt. Damask barst síðar með krossförunum til Evrópu, nálægt ártalinu 1100, og það var ekki fyrr en nokkru síðar sem byrjað var að vefa damask í Evrópu. Finna má heimildir fyrir framleiðslu þess á Ítalíu á fjórtándu öld og því er ekkert skrýtið að Ítalir framleiði flottustu efnin í dag, með sína árhundraða reynslu,“ segir Hildur.

Klassísk röndótt rúmföt njóta alltaf jafn mikilla vinsælda enda fádæma flott á rúmið. Þessi eru frá Curt Bauer. MYND/AÐSEND
Silkimjúk rúmföt úr svalandi bómullarsatíni fást í spennandi mynstrum. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Hótelrúmföt með brakandi áferð

Þau Hildur og Björn Þór Heiðdal, eigandi Rúmföt.is, eru afar vandlát á efnin sem þau kaupa inn fyrir verslunina.

„Ítölsku verksmiðjurnar vita að það þýðir ekkert að sýna okkur nema það allra besta. Kínverjar eru líka með afar góða vöru og auðvitað eiga þeir enn lengri sögu í vefnaði. Rúmfötin úr 900 þráða satínefninu, úr 100 prósenta bómull að sjálfsögðu, koma einmitt frá Kína og má segja að þau séu yndislega mjúk og nánast eins og silki. Þau eru bara talsvert endingarbetri og þola meiri þvott,“ upplýsir Hildur.

Í Rúmföt.is eru alltaf nokkrar tegundir af damaski á boðstólum.

„Fyrst má nefna rúmföt frá Kína úr hvítu 400 þráða damaski í nokkrum útfærslum. Þar má nefna paisley-mynstur sem Margrét saumakona kallar pontumunstur því það minnir á tóbaksponturnar í denn, og eflaust kannast margir af elstu kynslóðinni við það,“ segir Hildur kankvís.

„Síðan má nefna þessi klassísku, röndóttu rúmföt með brakandi áferð, sem við köllum hótelrúmföt því þau eru mjög vinsæl á gistihúsum og hótelum, en líka hjá einstaklingum. Þau koma í hvítu og eru 329 þráða, á mjög sanngjörnu verði. Því næst erum við með litað damask, mjúkt og gott 300 þráða í nokkrum litum.“

Margrét Guðlaugsdóttir hefur saumað vönduð rúmföt í áratugi. MYND/AÐSEND
Undursamlegt 700 þráða ítalskt damask í heimsklassa.

Værðarvoðir milljónamæringa

Ef fólk vill gera enn betur við sig býður Rúmföt.is upp á damask frá þýska vefaranum Curt Bauer.

„Það er sérstaklega meðhöndlað til að krumpast lítið og margir viðskiptavinir vilja ekkert annað. Dýrasta damaskið hjá okkur er svo það ítalska, oft sérstaklega ofið fyrir okkur og því óhætt að segja að enginn í heiminum er með sömu rúmföt og við. Ítalska damaskið er vara í heimsklassa og ekkert víst að milljarðamæringar sofi með betri rúmföt. Viðskiptavinir okkar hafa verið mjög ánægðir með þessi rúmföt og ekki skemmir fyrir að verðið er lægra en á sambærilegri vöru í Evrópu, því við viljum gefa sem flestum tækifæri á að sofa undir hágæða lúxusrúmfötum,“ segir Hildur.

Á Ítalíu verslar Rúmföt.is við nokkra vefara, meðal annars Quagliotti, sem er lítið fjölskyldufyrirtæki rétt hjá Torino.

„Rúmföt frá Quagliotti prýða hallir bresku konungsfjölskyldunnar og Ritz-hótelið í París býður sínum gestum upp á Quagliotti. Það er líka skemmtilegt að segja frá því að nýja hótelið við Bláa Lónið og Hótel 101 eru bæði með ítölsku rúmfötin frá Quagliotti,“ greinir Hildur frá.

Hjá Rúmföt.is fæst einnig mikið úrval af satíni.

„Satín er sléttur og glansandi vefnaður úr mismunandi hráefnum. Það má til dæmis vefa satín úr bómull, silki, gerviefnum og meira að segja úr hrjúfari efnum eins og ull og hör. Satínið sem við seljum er úr langþráða bómull og ýmist með áprentuðu mynstri eða einlitt, í öllum verðflokkum. Við erum sérstaklega hrifin af 600 og 900 þráða satíni sem kemur í ótal litum og munstrum, og einfaldlega dásamlegt að sofna á jólanótt undir slíkri værðarvoð,“ segir Hildur í Rúmföt.is sem eru opin lengur fyrir jólin.

Rúmföt.is er á Nýbýlavegi 28 í Kópavogi. Sími 565 1025. Opið í desember frá klukkan 12 til 18 virka daga og frá 11 til 16 um helgar. Skoðið úrvalið á rumfot.is og gerið góð kaup í vefversluninni sem er alltaf opin.

Fuglar og fögur blóm á Magnolia ljósgrænum rúmfötum úr 600 þráða bómullarsatíni. MYND/AÐSEND
Það er draumur að velja sér rúmföt hjá Rúmföt.is, enda eingöngu vandaður og fallegur rúmfatnaður í boði, og á sanngjörnu verði. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR