Garðlist sinnir öllu sem viðkemur garðinum, allan ársins hring. Nú er kominn tími á vorverkin og þá getur Garðlist létt róðurinn verulega.

„Garðlist er rúmlega 30 ára gamalt fyrirtæki sem einblínir á viðhaldsþjónustu fyrir garða,“ segir Brynjar Kjærnested, framkvæmdastjóri og skrúðgarðyrkjumeistari. „Þessi viðhaldsþjónusta er mjög breið og hjá okkur er hægt að fá alla þjónustu sem þarf til að viðhalda görðum og grænum svæðum allan ársins hring, allt frá því að moka snjó og sópa plön, yfir í að slá gras, gróðursetja sumarblóm og losa garða við mosa og klippa tré og runna. Við sinnum einfaldlega öllu því sem viðkemur garðinum.

Starfsfólkið okkar býr yfir mikilli reynslu og þekkingu,“ segir Brynjar. „Við erum með skrúðgarðyrkjumeistara og vant fólk í öllum störfum. Við sérhæfum störfin og þjálfum fólk sérstaklega til að ná sem bestum árangri.“

Tími fyrir vorverk

„Í fyrra var tíðarandinn öðruvísi og margir voru meira heima við en venjulega og þá varð algjör sprenging í eftirspurn eftir þjónustu frá okkur. Fólk fór að hafa meiri áhuga á að hafa nærumhverfi sitt sem fallegast og er garðurinn mikilvægur í því samhengi. Flestir eyddu meiri tíma í garðinum og fengu okkur til að viðhalda honum til að geta notið þess betur með nýslegnu grasi, klipptum trjám til að sleppa við skugga, fallegum sumarblómum og fleiru,“ segir Brynjar. „Ég held að þetta sumar verði að einhverju leyti líkt, fólk vill njóta garðanna meira núna.“

Garðlist býður upp á víðtæka viðhaldsþjónustu fyrir allt sem viðkemur garðinum og þar er hægt að fá alla þjónustu sem þarf til að viðhalda görðum og grænum svæðum allt árið.

Hann segist bjartsýnn á að það stefni í gott sumar.

„Þetta hefur verið mildur vetur og sumarið ætlar að byrja sérlega snemma í ár,“ segir Brynjar. „Nú er því kominn tími til að fara í vorverkin. Það hefur verið aðeins hlýrra en það er vanalega á þessum tíma og því liggur á að fara að klippa tré og runna ef fólk hefur ekki gert það nú þegar. Það er líka mjög gott að fella tré núna áður en safaspennan er komin á fullt í trén. Það er að byrja núna og við það þyngjast þau og þá er mun meiri vinna við að fella trén. Við erum líka með stubbatætara sem tætir trjástubbinn eftir trjáfellingar þannig að hann geti horfið alveg undir jörðina. Það er mjög auðveld lausn á vandamáli sem hefur lengi verið erfitt að eiga við.

Við erum líka á fullu að sópa plön núna eftir veturinn en það er sérstaklega mikið af sandi, drullu og laufum á plönum og við erum í átaki til að klára þetta fyrir sumarið. Svo er líka kominn tími til að þrífa beðin og gera þau tilbúin fyrir sumarið. Svo er það blessaður mosinn, en það er mikið um að fólk hafi samband vegna hans og vilji láta skipta um gras,“ segir Brynjar. „Við bendum fólki líka alltaf á að reglubundið viðhald á grasflötinni í formi áburðar og reglubundins sláttar minnki mosann og þá skiptir mestu að bera á kalkríkan áburð sem lagfærir grasflötina án mikils auka kostnaðar.

Í minni görðum er fólk líka oft í vandræðum með litla grasfleti sem eru í skugga. Þá er hægt að leysa það með því að setja niður skuggaþolið gras,“ segir Brynjar. „Það eru ýmis svona vandamál sem fólk heldur að sé ekki hægt að leysa sem er vel hægt að leysa með réttri þekkingu.“

Viðhaldsþjónusta í áskrift

„Við leggjum líka mikla áherslu á að bjóða alla þjónustuna okkar í áskrift, þannig að við höfum samband við fólk þegar það er kominn tími á viðhald,“ segir Brynjar. „Við erum með ákveðið prógramm sem við keyrum yfir árið. Til dæmis trjáklippingar, beðahreinsun, garðslátt og áburðargjöf ásamt því að setja niður sumarblóm í beð og potta, svo fátt eitt sé nefnt. Yfir veturinn taka svo vetrarskreytingar við í pottunum, en þá erum við líka að vakta plön fyrir snjómokstur og hálkuvarnir, ásamt því að setja upp ljósaskreytingar um allan bæ. Það eru mörg fyrirtæki, húsfélög og einstaklingar sem nýta sér þessa þjónustu.

Nú er rétti tíminn til að fara að klippa tré og runna til að undirbúa garðinn fyrir vorið.

Tilgangur okkar er að auðvelda fólki sem er með garð lífið, þannig að þau þurfi ekki að leita á marga staði. Við viljum að félög, fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar geti leyst sem flest á einum stað,“ segir Brynjar. „Við þjónustum líka húsfélög mikið og þetta er fínn tími til að hafa samband til að kanna hvað við getum boðið þeim. Það koma oft alls konar hugmyndir fram á húsfélagsfundum og það er auðvelt að hafa samband og bera þær undir okkur.“

Þjónustan þróast sífellt

„Í gegnum árin hefur vöruframboðið og þjónustan þróast út frá eftirspurn viðskiptavina. Þannig byrjuðum við að bjóða upp á jólaseríur og að aðstoða við uppsetningu þeirra,“ segir Brynjar. „Núna erum við að vinna í skreytingum fyrir næsta ár fyrir fyrirtæki og bæjarfélög, sú vertíð byrjar snemma hjá okkur.

Fyrir nokkrum árum byrjuðum við að sópa plön og það er dæmi um þjónustu sem spratt upp eftir að viðskiptavinir báðu um hana og það er ekki eina dæmið,“ segir Brynjar. „Svo vorum við líka að opna handlagnadeild sem sinnir minniháttar viðvikum fyrir viðskiptavini, eins og að hengja upp myndir eða sinna litlu viðhaldi, svona smáleg verk sem ekki allir ráða við en handlagnir einstaklingar geta reddað auðveldlega.“


Nánari upplýsingar er að finna á gardlist.is og í síma 554-1989.