Við erum ekki margar á landinu sem berum nafnið Hallbera en langalangamma mín var fyrst skírð því nafni í minni fjölskyldu og það er algengt í móðurættinni minni. Ég var ekkert of hrifin af nafninu þegar ég var yngri og þótti það helst til stórt, en í dag ber ég það með stolti,“ segir Hallbera Guðný Gísladóttir, viðskiptafræðingur og landsliðskona í knattspyrnu.

Hallbera er fædd og uppalin á Akranesi.

„Ég er blanda af Skagamanni og KR-ingi, erkifjendum í fótboltanum. Mamma er af Skaganum og pabbi úr Vesturbænum, en hann er þó löngu orðinn gulur í gegn,“ segir Hallbera og vísar í gulan knattspyrnubúning Skagamanna.

Hún kveðst ekki vita hvaðan hún fékk fótboltagenin.

„Foreldrar mínir eru hvorugt frækin í knattspyrnu en frændur mínir, Ríkharður Daðason og Reynir Leósson, voru báðir í boltanum, sem og eldri bræður mínir. Ætli þetta skrifist ekki frekar á andrúmsloftið á Akranesi þar sem fótbolti er langstærsta sportið. Þegar ég var lítil voru Skagamenn með gullaldarliðið og því lá beinast við að fara í fótbolta en ég var ekki krakki sem þurfti að pína á æfingar,“ segir Hallbera sem hefur alla tíð haft brennandi áhuga á fótbolta.

„Ég var fimm ára farin að elta boltann með bræðrum mínum úti í garði og fór alltaf á völlinn með pabba. Síðan ég var lítil hef ég líka verið eldheitur Manchester United-aðdáandi. Ég var alltaf ein með köllunum í fjölskyldunni, pabba, bræðrum mínum og frændum, að horfa á enska boltann og hljóp heim af æfingum til að horfa á leikina,“ segir Hallbera sem fór sex ára á sína fyrstu fótboltaæfingu með ÍA og hefur ekki stoppað síðan.

„Mér finnst alltaf jafn gaman að fara á æfingar og hitta liðsfélagana. Þótt það ríki samkeppni úti á vellinum erum við miklar vinkonur utan hans.“

Hallbera heldur hér stolt á bikarnum þegar Valur varð Íslandsmeistari í Pepsi Max-deildinni 2019. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Nam við Hússtjórnarskólann

Hallbera er fyrirliði Íslandsmeistara Vals en á dögunum kom fram að hún væri á förum frá Val til að stunda meistaranám í Svíþjóð.

„Planið var að fara til Stokkhólms nú í haust, í meistaranám í samskipta- og markaðsfræðum, en vegna kórónaveirunnar fer námið enn sem komið er fram í fjarkennslu. Ég kunni vel við mig í Svíþjóð, þegar ég lék þar með Piteå í Norður-Svíþjóð árin 2012 til 2013 og með Djurgården í Stokkhólmi 2017 og fann að ég var ekki búin með Stokkhólm þegar ég kom heim. Ég er því mjög spennt að komast út því Stokkhólmur er geggjuð borg og togar í mig,“ segir Hallbera sem hefur undanfarin þrjú ár starfað sem þjónustufulltrúi á fyrirtækjasviði í Landsbankanum.

Hún er líka útskrifuð húsfreyja úr Hússtjórnarskólanum í Reykjavík.

„Ég ákvað að nota útistandandi valeiningar til stúdentsprófs til að fara í Hússtjórnarskólann og það var áhugaverður tími. Ég er ekki mikil húsmóðir í mér og gekk ekkert allt of vel að prjóna og sauma en eldamennskan átti vel við mig og hefur nýst mér vel síðan, þótt ég sé ekki svo myndarleg að taka slátur nú í sláturtíðinni. Amma lærði líka við Hússtjórnarskólann á sínum tíma og ég fékk stóran plús í kladdann hjá henni sem þótti gaman að koma í gamla skólann sinn á ný og skoða handverkið.“

Allt frá fæðingu fram á fullorðinsaldur var Hallbera bæjarstjóradóttir en faðir hennar, Gísli Gíslason, var bæjarstjóri á Akranesi frá árunum 1987 til 2005.

„Ég er mjög stolt af pabba og veit að hann sinnti sínu vel, en viðurkenni að hafa notfært mér það sem krakki að vera bæjarstjóradóttir og var eflaust óþolandi á tímabili þegar ég hótaði að reka þennan og hinn úr bænum,“ segir Hallbera og skellir upp úr.

„Fjölskyldan býr enn á Skaganum en ég og elsti bróðir minn í borginni. Við höfum fyrir sið að borða öll saman á sunnudögum og þá fer ég í mat til mömmu og pabba upp á Skaga, sem á stóran stað í hjarta mínu.“

Eftir að Hallbera hóf að taka inn Feel Iceland kollagen í sumar, fór hún frá því að vera sárþjáð í hásin yfir að vera nær verkjalaus.

Blómstraði seint í boltanum

Hallbera er með leikjahæstu landsliðskonum Íslands frá upphafi og á að baki 114 landsleiki. Aðeins Sara Björk Gunnarsdóttir, Katrín Jónsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir hafa leikið fleiri leiki og eru allar miklar fyrirmyndir Hallberu.

„Ég blómstraði seint í boltanum og það tók mig tíma að verða góð knattspyrnukona. Ég var þó alltaf frekar góð og í 2. flokki fór ég aðeins að bera af og var valin í 17 ára landsliðið,“ segir Hallbera sem skipti úr ÍA yfir í Val árið 2006.

„Það voru mikil viðbrigði. Í Val þurfti ég að hafa mikið fyrir því að spila og sat fyrsta kastið oft á bekknum. Til að byrja með var ég mjög stressuð að mæta á æfingarnar hjá Val og fannst ég ekki vera komin svo langt í boltanum, enda voru æfingarnar mun erfiðari þar og meiri alvara í hlutunum. En svo náði ég tökum á þessu og gat unnið nokkuð vel úr því sem ég hafði. Ég hef mikið keppnisskap en ef ég hefði ekki haft rétta hugarfarið hefði verið auðvelt að koðna niður og gefast upp,“ segir Hallbera sem var valin í A-landsliðið tveimur árum síðar.

„Fyrir mér er toppurinn í fótboltanum að fá að spila landsleiki. Þegar ég var yngri bjóst ég aldrei við að komast í A-landsliðið og held að landsliðið haldi manni svolítið gangandi. Ég er 34 ára og hef hugfast hversu mikill heiður það er að spila með landsliðinu. Fyrir suma leiki fæ ég fiðrildi í magann af stressi en þegar ég mæti í klefann og undirbúningur hefst tekur yfir brjálaður fókus sem einkennir stemninguna,“ útskýrir Hallbera.

Undir þjóðsöngnum gleymi hún svo stund og stað.

„Það getur verið viðkvæm stund og mikil geðshræring. Ég spilaði landsleik daginn eftir að amma mín féll frá og þá var erfitt að halda andlitinu. Lofsöngurinn hreyfir við manni og það að standa í hópi og syngja hann, í bland við stoltið og samkenndina sem maður finnur hríslast um sig á vellinum, ekki síst þegar völlurinn er fullur.“

Hallbera segir gómsætt að hræra kollageninu út í gríska jógúrt og bera hana fram með ferskum jarðarberjum, góðu múslí og kókosflögum. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Strákastelpa og puntudúkka

Hallbera fer á tveggja tíma fótboltaæfingar sex til sjö daga vikunnar.

„Mér finnst fótbolti virkilega skemmtilegur. Það er gaman að ná árangri, keppa og vera hluti af liði sem stefnir að sömu markmiðum. Ég tel það ekki eftir mér að þurfa að mæta oft á æfingar en það reyndi alveg á í samkomubanninu í vor þegar engar skipulagðar æfingar voru og maður þurfti að fara einn út að hlaupa, oft í ömurlegu veðri. Að sama skapi fann maður á fyrstu æfingu eftir kófið hvað allir voru himinlifandi glaðir að hittast á ný og hversu miklu það skiptir að vera með liðsfélögum sínum og á skipulögðum fótboltaæfingum.“

Eftirminnilegast á ferlinum segir Hallbera vera sigur Íslands gegn Þjóðverjum í undankeppni HM 2017.

„Það var risastórt í okkar augum. Við höfðum aldrei unnið Þjóðverja og það var ár og öld síðan þær höfðu tapað leik í undankeppni. Vonbrigði eru líka til staðar, eins og þegar við vorum nálægt því að tryggja okkur umspil fyrir HM en klúðruðum því með jafntefli við Tékka á heimavelli. Það eru mestu vonbrigði sem ég hef upplifað og það er líka erfitt þegar fjölmiðlar eru ekki ánægðir með mann. Þá taka við erfiðir dagar,“ segir Hallbera alvörugefin.

Þegar frítími gefst þykir Hallberu gaman að ganga á fjöll og njóta samveru með fjölskyldu og vinum. Hún hefur líka mikinn áhuga á tísku og útliti.

„Ég er í senn mikil strákastelpa og algjör puntudúkka, hef gaman af því að vera fín, kaupa mér föt og fylgjast með helstu tískufyrirmyndum.“

Dásamar Feel Iceland

Síðastliðin sex ár hefur Hallbera strítt við meiðsli í báðum hásinum.

„Stundum er ég sárþjáð en inni á milli betri. Önnur hásinin var skorin með góðum árangri í fyrra en hin truflaði mig áfram mjög mikið, það var vont að hlaupa og koma sér í gang fyrir leiki. Hins vegar fer maður ekki í aðgerð nema tilneyddur því batatíminn er langur og ég vildi fyrst prófa allt sem ég gat annað til að freista þess að verða betri,“ segir Hallbera sem í sumar sá fyrir tilviljun auglýsingu frá Feel Iceland.

„Mér leist strax vel á fyrirtækið sem er íslenskt og þá staðreynd að kollagenið er unnið úr íslenskum sjávarafurðum. Ég ákvað því að prófa og sjá hvort kollagen hefði góð áhrif á hásinina,“ segir Hallbera sem byrjaði að taka inn Joint Rewind frá Feel Iceland í júlí.

„Árangurinn var ótrúlegur. Á fimmta degi spurði liðsfélagi hvort mér væri ekki lengur illt í hásininni því það leyndi sér ekki hvað ég var þjáð þegar ég skakklappaðist um á æfingum. Á þeim tímapunkti gat ég hlaupið hratt og sársaukalaust og beitt mér almennilega. Áhrifin voru gígantísk, ég hafði prófað svo margt, bæði meðferðir og sprautur, en á endanum var það kollagenið sem hjálpaði mér og það undurfljótt,“ segir Hallbera himinsæl.

„Ég hljóma eflaust eins og predikari en get ekki annað en dásamað kollagenið frá Feel Iceland. Nú finnst mér ég eiga endalaust eftir á tankinum og finn ekki lengur fyrir verkjunum. Kollagenið hefur líka góð áhrif á húðina sem verður oft litlaus og þurr með veðrabreytingum en er nú mjúk og góð.“

Hallbera tekur inn daglega hylki af Joint Rewind ásamt skeið af Amino Marine kollagendufti sem hún setur út í morgundrykkinn alla virka daga.

„Um helgar hræri ég kollageninu út í gríska jógúrt og sker niður fersk jarðarber sem ég set út á ásamt góðu múslí og kókosflögum. Ég mundi ekki mæla með kollageninu nema heilshugar og út af muninum sem ég finn. Ég fór frá því að vera sárþjáð yfir í að vera nánast verkjalaus. Kollagenið gaf mér nýtt líf í fótboltanum.“

Sjá nánar á feeliceland.com