Það eru mikil forréttindi að fá að vera í hlutverki gleðigjafans og við erum rosalega heppin hvað Nói skipar stóran sess hjá Íslendingum,“ segir Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs hjá Nóa Síríus.

Nói hefur fagnað 100 ára afmæli sínu í ár.

„Það gerði okkur orðlaus hversu margir, ungir sem aldnir, deildu með okkur skemmtilegum minningum um Nóa. Við erum ekki bara að tala um Nóa Kropp, Tópas og Síríus rjómasúkkulaði heldur líka margt sem var áður í vöruvali Nóa, svo sem Brenndur brjóstsykur, Blár Opal og Malta,“ segir Auðjón sem finnur vel fyrir samhug landsmanna á tímum kórónaveirunnar.

„Við þekkjum öll mikilvægi þess að hafa öfluga innanlandsframleiðslu; ekki bara út af þjóðarskútunni, heldur eigum við öll vini og vandamenn sem vinna við innlenda framleiðslu og sölu. Þetta skiptir okkur öll máli og þegar kreppir að eru Íslendingar snöggir að styðja við íslenska framleiðslu og þjónustu.“

Íslenskar vörur standist enda vel samanburð við þær sem koma erlendis frá.

„Við erum heppin með rosalega gott úrval af frábærum, íslenskum vörum og margar hverjar hafa fylgt Íslendingum í áratugi. Slíkt myndi ekki gerast nema íslenski valkosturinn uppfyllti kröfur neytenda,“ segir Auðjón.

Stuttar flutningaleiðir, innlendur uppruni margra hráefna, góð loftgæði og hrein íslensk orka við framleiðsluna geri það líka umhverfisvænna að velja íslenskt.

„Íslendingar sem búið hafa ytra segja góða sögu um hversu miklu máli íslenskt sælgæti skiptir okkur. Menn fá ættinga eða vini til að senda sér íslenskt nammi, eða redda sér því með öllum ráðum, oft með krókaleiðum. Sjálfur finn ég hversu stoltur ég er að vinna í þessum geira. Innlendir aðilar eru að gera frábæra hluti, standardinn er hár, mikil gæðavitund og virk vöruþróun. Kannski er það nálægðin við neytendur sem heldur mönnum á tánum,“ veltir Auðjón fyrir sér.

Engin jól án Nóa konfekts

Auðjón er spurður hvort hægt sé að halda jól án þess að eiga Nóa konfekt.

„Það er erfitt að hugsa sér það,“ svarar Auðjón og hlær við. „Það er líka sérlega mikil stemming fyrir konfektinu í ár, því út af afmælinu komum við með fjóra nýja mola sem hafa vakið mikla lukku. Vegna COVID-19 lentum við í því um páskana að hægja þurfti á framleiðslunni til að uppfylla sóttvarnaskilyrði og því miður gripu margir í tómt í páskaeggjakaupunum á lokasprettinum. Nú eru enn strangari skilyrði sem farin eru draga úr framleiðsluhraða hjá okkur. Ég vona auðvitað að allir fái sitt jólakonfekt en bendi fólki jafnframt á að bíða ekki of lengi með innkaupin því ekki viljum við að fólk komi tómhent heim úr jólainnkaupunum.“

Láttu freistast á noi.is.