„Það eru mörg frábær verkefni sem koma upp í hugann en ég skoðaði sérstaklega þá starfsemi sem hefur forgang hjá börnum og ungmennum. Kiwanis eru að mínu mati fremstir þar í flokki. Það er leikur einn að fræðast um sögu og starf Kiwanis hér á landi og erlendis og því mun ég einbeita mér að sögu minni innan Kiwanis og hvað ég hef gefið af sjálfum mér og því sem ég hef fengið í því starfi.

Þegar ég byrjaði í Kiwanis vissi ég ekki hversu mikið starfið myndi hafa jákvæð áhrif á mig.

Mesta endurgjöfin er án efa að sjá gleði í andlitum barna þegar við afhendum hjálma til 1. bekkinga. Að sjá spenninginn í augum gestanna á tónleikunum sem nokkrir klúbbar á höfuðborgarsvæðinu halda fyrir ungmenni með hreyfi-, skyn- og þroskahamlanir. Að afhenda ný húsgögn inn á heimili sem þurfa þess. Það er ómetanlegt. Síðan kemur að alþjóðlega samstarfinu, þá sérstaklega því sem er í Evrópu. Árið 2019 var ég valinn ásamt þrennu öðru ungu Kiwanisfólki frá Íslandi til þess að ferðast og hitta önnur ungmenni frá Kiwanishreyfingunni í Evrópu.

Það var ómetanleg upplifun að tengjast öðru fólki frá löndum eins og Rúmeníu, Frakklandi, Noregi og fleirum sem eru tilbúin til þess að gefa af sér til nærsamfélagsins og barna. Sú tenging gaf mikið af sér og gefur enn. En það var ekki eina gjöfin þar, þar var stunduð mikil kennsla í uppbyggingu klúbba og styrkingu þeirra. Þar voru lögð drög að árlegum fundi Ungra Kiwanis í Evrópu til styrkingar hreyfingarinnar, en þá kom Covid svo lítið varð úr þessu næstu tvö árin á eftir.

Dagana 6.–8. maí 2022 var haldin ráðstefna númer tvö og fór ég aftur fyrir hönd Íslands ásamt tveimur öðrum ungum Kiwanismönnum, einn var til dæmis nýorðinn tvítugur. Sú ferð veitti ekkert minni innblástur. Þar tók á móti okkur fjöldinn allur af frábæru fólki í Kiwanishreyfingunni í Evrópu ásamt starfsfólki og leiðbeinendum sem höfðu öll áhrif á mig á mismunandi hátt. Að kynnast fólki sem hefur að leiðarljósi betrumbætur samfélagsins og heimsins er sálarnærandi. Það er upplyftandi og veitir manni sáluhjálp á þannig hátt að þú hafðir ekki hugmynd um að þú þyrftir þess.

Kiwanis tengir saman kynslóðirnar, tengir saman löndin, tengir saman álfurnar, tengir heiminn. Eitthvað sem mig hafði ekki órað fyrir að ég sem einstaklingur þyrfti eða þráði. Kiwanis veitir mér hjálp. Ef þú vilt gefa af þér, gefa af þér góða strauma til samfélagsins, kynnast nýju fólki, vera treyst til verka, hafðu þá samband við Kiwanis og við tökum á móti þér með opinn faðminn.“

Kristján Gísli Stefánsson.