Kiwanishreyfingin leggur áherslu á manngildi og eflingu félagskenndar félaganna. Það er gaman saman í Kiwanis og félagar tengjast ævilöngum vináttuböndum og fer það ekki endilega eftir búsetu. Kiwanis kennir okkur að tjá okkur og koma fram og er félagsskapur sem veitir okkur ánægju með því að vinna að því að aðstoða þá sem minna mega sín í samfélaginu og þá helst barna, síðan og ekki síst er Kiwanis fyrir karla og konur – yngri og eldri.

Kiwanishreyfingin var stofnuð í Detroit í Michiganfylki í Bandaríkjunum þann 21. janúar 1915 en hreyfingin kom til Íslands í janúar 1964 með stofnun fyrsta klúbbs okkar en það var Kiwanisklúbburinn Hekla í Reykjavík. Í framhaldi voru stofnaðir fleiri klúbbar og dreifðist Kiwanis út um nánast allt land og einnig til Færeyja sem tilheyra okkar umdæmi í dag.

Kiwanishreyfingin hefur lyft grettistaki í hinum ýmsu verkefnum bæði hér á landi og á heimsvísu og má þar nefna Joð-verkefni sem fólst í því að vinna bug á joðskorti í þróunarlöndum og á heimsvísu en joðskortur veldur vanvirkni í skjaldkirtli. Einnig má nefna MNT-verkefnið sem er ætlað að koma í veg fyrir fæðingarstífkrampa í nýburum en þetta er gert með bólusetningu. Já, verkefnin eru mörg sem þessi frábæra hreyfing hefur innt að hendi á heimsvísu og tæki of langan tíma að tíunda það hér.

Tómas Sveinsson, formaður fræðslunefndar Kiwanis.

Á Íslandi hefur hreyfingin unnið mikið og gott starf og má þar t.d. nefna K-daginn sem er að ganga í garð núna, en þetta verkefni er til styrktar geðverndarmálum og var fyrsti K-dagurinn haldinn 18. október 1974, undir kjörorðinu: Gleymum ekki geðsjúkum. Á þeim degi gengu Kiwanismenn ásamt aðstoðarfólki á fund landsmanna og seldu barmmerki, Kiwanis-lykilinn, til styrktar geðsjúkum. Framhaldið er þekkt, K-dagur er orðinn fastur liður í Kiwanisstarfinu þriðja hvert ár og þekkja allir landsmenn kjörorðið: Gleymum ekki geðsjúkum. K-dagurinn hefur líka stuðlað að því að fá þessa umræðu um geðheilbrigði upp á yfirborðið en það hefur verið mikið feimnismál í gegnum tíðina.

Hjálmaverkefnið þekkja allir landsmenn en þar fá allir 1. bekkingar grunnskóla landsins reiðhjólahjálm að gjöf og þar höfum við góðan styrktaraðila með okkur sem er Eimskip, en sögu verkefnisins má rekja aftur til 1990, þegar hugmyndin kom upp hjá Kaldbak á Akureyri en 2004 var verkefnið gert að landsverkefni og þá í samvinnu við Eimskip sem hefur reynst ómetanlegur bakhjarl.

Margar sögur hafa borist okkur Kiwanismönnum til eyrna um óhöpp sem hefðu getað leitt til alvarlegra slysa ef hjálmanna okkar hefði ekki notið við. Þá eru ótalin áhrifin sem hjálmanotkun barnanna hefur haft á hjálmanotkun þeirra síðar meir og einnig á hjálmanotkun foreldranna. Þá hafa margir aðrir lagt málefninu lið, til dæmis hjúkrunarfræðingar, Slysavarnafélagið og lögreglumenn með viðbótarfræðslu og umfjöllun um umferðarreglur og hætturnar í umferðinni.

Einnig má nefna Eiturlyfjavísi sem gefinn var út og notaður til að skynja notkun eiturlyfja og vinna að forvörnum og síðan Lífsvísinn sem er til að sporna við sjálfsvígum. Svona mætti lengi telja af þeim frábæru verkefnum Kiwanishreyfingarinnar á landsvísu.

Ekki má gleyma hinu mikla starfi sem klúbbar umdæmisins hafa unnið úti um allt land í sínum heimabyggðum og eru þau óteljandi, og þær vinnustundir sem Kiwanisfélagar hafa innt af hendi í sínum klúbbum. Mörg eru þau verkefni sem eru bundin við klúbba og byggðarlög sem of langt mál yrði að telja upp hér.

En ágæti lesandi, ef þú ert tilbúinn að láta gott af þér leiða fyrir börn og okkar samfélag þá sérðu á þessum verkefnum Kiwanis að þetta er klárlega félagsskapur fyrir þig.

Hreyfingin stendur nú á tímamótum, margt er að breytast í okkar samfélagi, mikil tæknivæðing og alls konar nýjungar og því mikil þörf á nýju fólki til að taka þátt í þessu frábæra starfi sem við erum að vinna í Kiwanis. Nútíð og framtíð bjóða upp á margs konar form á Kiwanisstarfi, eins og klúbba sem starfa eingöngu á netinu en hittast þar á milli til að hafa gaman saman, blandaða klúbba, kvennaklúbba, ungliðaklúbba, ásamt hinum hefðbundnu Kiwanisklúbbum.

Já, kæri lesandi, Kiwanis er fyrir þig, gakktu til liðs við okkur.

Börnin taka glöð á móti hjálmunum.