Eins og mörg okkar þekkti ég lítið til Kína, „Made in China“ var frá Kína, rétt eins og djúpsteiktar rækjur og kung fu. Fljótlega eftir að ég var lentur byrjaði lærdómurinn. Ég var í virtum háskóla sem heitir Sun Yat-sen University, Lingnan College. En á kínversku hét hann Zhongshan Daxue, sem þýðir Miðjufjalls-háskólinn, stytt í Zhong Da, sem er Miðju-Stór, sem væri ágætis lýsing á mér sjálfum líka.

Ég sá að þetta yrði ekki einfalt, en Kínverjar voru alltaf mjög almennilegir við mig og tilbúnir að útskýra hlutina fyrir mér. Það er mjög erfitt fyrir almenna borgara að fá byssuleyfi, það er svo sem allt í lagi. Við þurfum ekki mikið af byssum, enda hættuleg vopn. En þegar ég gekk meðfram Perluánni í mikilli mannþröng var gamall maður að æfa kung fuið sitt með spjóti. Það þótti eðlilegt, enda ekki um hættulegt vopn að ræða, þrátt fyrir að hermenn vopnaðir spjótum hafi grandað siðmenningu heimsins að miklu leyti.

Durian er dýrasti ávöxturinn í Kína, það er svo vond lykt af honum að hann er bannaður í rútum! Kjúklingabringur þykja skelfilegur matur, en kjúklingavængir svo góðir að þeir kosta fjórfalt á við bringurnar. Nýja hluti lærði ég á hverjum degi og eftir að ég giftist kínverskri dömu þá fyrst hófst lærdómurinn!

Einn daginn erum við konan úti að labba og að venju eru eldri konur á vappi í kringum okkur og klappa saman höndunum á meðan þær labba. Ég þóttist loksins þekkja mitt nýja heimili og sagði að ég hefði heyrt að með því að klappa saman höndunum myndi fólk reka í burtu illa anda, var það þess vegna sem þær gerðu þetta? Svo var ekki, þetta er bara gott fyrir blóðrásina.

Ég fæ aldrei leið á því að læra meira um Kína. Ef þú vilt læra hið óskiljanlega, eða fá kjúklingabringur á spottprís, er Kína góður áfangastaður.

Háskólinn þar sem Þorkell stundaði nám heitir Sun Yat-sen University.