„Geðhjálp hefur starfað síðan árið 1979, þegar aðstandendur fólks með geðrænar áskoranir og fagfólk tók sig saman og stofnaði samtökin,“ segir Elín Ebba Ásmundsdóttir, varaformaður Geðhjálpar. „Við erum framsækin í vinnubrögðum og fyrir örfáum árum settum við upp nýja aðgerðaáætlun til að bæta geðheilsu landsmanna. Við förum svo reglulega yfir hana og berum verkefni saman við hana til að sjá hvaða markmiðum hefur verið náð og hvar þarf að gera betur.“

Alls kyns verkefni til að bæta geðheilbrigði

„Geðhjálp vinnur að mörgum verkefnum, en það sem mér finnst kannski merkilegast núna er Geðlestin, sem er verkefni sem hefur verið unnið í samstarfi við Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og er styrkt af félags- og heilbrigðisráðuneytunum,“ segir Elín Ebba. „Við höfum fengið marga styrktaraðila fyrir verkefnin okkar, sem gefur okkur miklu meiri kraft og þeim ber að þakka. Stuðningurinn skiptir öllu.

Geðlestin er búin að fara í 8.-10. bekk í yfir 100 grunnskólum um allt land og tala um hvað geðheilsan er ekkert frábrugðin líkamlegri heilsu. Við getum öll lent í að veikjast á geði rétt eins og líkamlega. Það eru til ýmis verkfæri til að hlúa að geðheilsu, rétt eins og líkamlegri, og þetta er ekki aðskilið,“ útskýrir Elín Ebba. „Ef fólk sinnir ekki líkamlegri heilsu með hreyfingu, góðum svefni og góðu mataræði fer geðheilsan líka.

Geðhjálp setti líka á fót styrktarsjóð geðheilbrigðis. Fyrsta úthlutun var í fyrra og styrkir verkefni sem tengjast aðgerðaáætluninni. Þar erum við að leggja áherslu á forvarnir og að skoða orsakir fyrir geðrænum áskorunum,“ segir Elín Ebba. „Við höfum líka sett á oddinn að skapa störf fyrir fólk sem hefur dottið af vinnumarkaði svo það geti nýtt þekkingu og reynslu sína, en við höfum verið aftarlega á merinni hér á landi þegar kemur að atvinnuþátttöku fólks með geðrænar áskoranir.

Síðustu tvö ár höfum við líka verið með G-vítamín verkefnið á þorranum, þar sem við gefum fólki hugmyndir um verkfæri til að efla geðheilsu,“ segir Elín Ebba. „Svo er Geðhjálp að fylgjast með öllum lagafrumvörpum og bregðast við þeim. Við erum með fulltrúa í alls kyns nefndum og ráðum og nú er til dæmis verið að gera drög að aðgerðaáætlun 2022–2025 í geðheilbrigðismálum þar sem formaðurinn er okkar fulltrúi. Þar eru lagðar línur fyrir það sem á að leggja áherslu á næstu árin, með von um meiri áherslu á notendur, að þeir hafi áhrif á þróun málaflokksins og að skapa fleiri störf fyrir þá.“

Notendur eiga að vera í fyrirrúmi

„Í lok mars fór tíu manna hópur fagfólks af ýmsum sviðum geðheilbrigðisþjónustu í ferð til Noregs og Danmerkur sem Geðhjálp sá um og skipulagði. Markmiðið var að kynna sér starfsemi þar til að átta okkur á því sem þarf að leggja meiri áherslu á hér heima. Þar kynntumst við alls kyns ólíkum nálgunum, svo sem lyfjalausri geðdeild, og sáum mörg flott verkefni sem notendur höfðu komið á kopp eða krafist,“ segir Elín Ebba. „Þar virðast notendur vera meira í fyrirrúmi og þjónustan og fræðslan meira á jafningjagrundvelli.

Það á að vera hægt að leita til fólks sem hefur reynslu af því að þurfa aðstoð og þannig nálgun gefur notendum mun fleiri atvinnutækifæri,“ segir Elín Ebba. „Þar er líka ekki bara litið til þess að sérfræðingar séu í forgrunni í tengslum við bata fólks heldur er allt nærsamfélagið virkjað til að styðja við fólk sem glímir við geðrænar áskoranir, enda eru þær ekki bara vandamál einstaklingsins, heldur verða þau til í samspili við umhverfið. Einstaklingurinn á að vera í fyrirrúmi og kerfið að aðlaga sig honum, ekki öfugt.

Við bindum miklar vonir við að notandinn verði settur á oddinn og þannig breytist þjónustan hér á landi,“ segir Elín Ebba. „Þekkingin á því hvernig hægt er að rækta geðheilsu er líka orðin mun almennari. Við sem samfélag berum öll ábyrgð á því og viðhald geðheilsu er stöðug vinna.“