Góður leiðsögumaður getur gert gæfumuninn á upplifun ferðamanna á landinu okkar. Því skemmtilegri, fróðari og kraftmeiri sem leiðsögumaðurinn er, því eftirminnilegri verður heimsóknin,“ segir Kristín Hrönn Þráinsdóttir, fagstjóri Leiðsöguskólans, sem er skóli undir hatti Menntaskólans í Kópavogi.

Markmið leiðsögunáms er að búa nemendur undir það að fylgja ferðamönnum um landið. Í náminu er fjallað um jarðfræði Íslands, sögu og menningu, gróður, dýralíf, atvinnuvegi og íslenskt samfélag, bókmenntir og listir.

„Nemendur eru fræddir um helstu ferðamannastaði á Íslandi, ferðamannaleiðir, náttúruvernd, umhverfismál og leiðsögutækni,“ upplýsir Kristín Hrönn, en fyrirlesarar, kennarar og leiðbeinendur í Leiðsöguskólanum eru allir sérfróðir um einstaka málaflokka.

Nemendur fara í nokkar gönguferðir á eigin vegum, sækja helgarnámskeið í vetrarfjallamennsku auk æfinga í að vaða straumvötn.

Ferðalög hluti af náminu

Nám í Leiðsöguskólanum tekur að öllu jöfnu eitt ár en hægt er að skipta náminu á tvö ár. Á haustönn læra nemendur kjarnafög sem eru sameiginleg fyrir alla, en á vorönn velja nemendur sér kjörsvið, annað hvort Almenna leiðsögn eða Gönguleiðsögn.

„Þeir sem velja sér Almenna leiðsögn fá kennslu og þjálfun í að fara um landið með erlenda ferðamenn. Segja má að nemendur fari hringinn í kringum landið í kennslustofunni með kennurum. Æfingaferðir í rútu eru stór liður í þjálfun nemenda og fara nemendur á helstu ferðamannastaði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, en náminu lýkur með hringferð um landið þar sem nemendur skiptast á að leiðsegja,“ útskýrir Kristín Hrönn.

Þeir sem velja kjörsviðið Gönguleiðsögn fá kennslu og þjálfun í að fara með ferðamenn í lengri eða styttri gönguferðir, en einnig fá þeir þjálfun í leiðsögn í rútu.

„Nemendur í gönguleiðsögn fara í sólarhrings rötunarferð, þeir sækja líka helgarnámskeið í vetrarfjallamennsku auk æfinga í að vaða straumvötn. Nemendur fara í nokkrar gönguferðir á eigin vegum og náminu lýkur með fimm daga bakpokagönguferð um óbyggðir þar sem gist er í tjöldum,“ upplýsir Kristín Hrönn, en þess má geta að nemendum í Gönguleiðsögn er eindregið ráðlagt að taka skyndihjálparnámskeiðið Wilderness First Responder.

„Þeir sem hyggjast stunda nám í Gönguleiðsögn þurfa að hafa mikla reynslu af gönguferðum um óbyggðir og vera í góðu líkamlegu formi,“ bætir Kristín Hrönn við.

Leiðsögumaður þarf að ganga á undan með góðu fordæmi um náttúru landsins og tryggja öryggi gestanna.

Verða að sýna gott fordæmi

Útskrifaðir leiðsögumenn frá Leiðsöguskólanum fá fulla félagsaðild að fagdeild Félags leiðsögumanna.

„Umsækjendur þurfa að vera orðnir 21 árs við upphaf námsins. Þeir skulu hafa stúdentspróf eða sambærilegt nám að baki, ásamt því að hafa mjög gott vald á einu erlendu tungumáli, auk íslensku. Þá þurfa nemendur að standast munnlegt inntökupróf á því tungumáli sem þeir hyggjast leiðsegja á,“ segir Kristín Hrönn.

Kennt er þrjú kvöld í viku en auk þess fara nemendur í vettvangs- og æfingaferðir.

„Námsmat byggir á skriflegum og munnlegum verkefnum og prófum og gert er ráð fyrir að nemendur mæti í allar vettvangs- og æfingaferðir,“ segir Kristín Hrönn.

„Í náminu eru nemendur undirbúnir fyrir hin ýmsu hlutverk leiðsögumanna, en auk þess að fræða og skemmta ferðamönnum er mikilvægt að leiðsögumaður geti brugðist við óvæntum uppákomum í ferðum. Leiðsögumaður þarf að ganga á undan með góðu fordæmi um náttúru landsins og tryggja öryggi gestanna, meðal annars með því að upplýsa þá um hugsanlegar hættur á viðkomustöðum.“

Nánari upplýsingar gefur Kristín Hrönn í síma 594 4025 eða í tölvupósti: lsk@mk.is. Sjá nánar um Leiðsöguskólann á mk.is