Ágúst Birgisson hefur starfað sem lýta- og fegrunarlæknir á Íslandi frá árinu 2007 en áður starfaði hann sem bæklunar- og lýtaskurðlæknir á Haukeland University Hospital í Noregi og á KirugCentrum sem er einkarekin lýtalækningastofa í Stokkhólmi. Þar öðlaðist hann yfirgripsmikla þekkingu á fegrunar- og lýtalækningum, sem hefur skilað sér í mjög ánægðum skjólstæðingahópi frá því hann hóf starfsemi hér á landi.

Sér fyrir sér engil þegar hún hugsar um Ágúst

Spurður að því hverjar algengustu aðgerðirnar sem hann framkvæmir séu segir hann að þar séu brjóstaaðgerðir efstar á blaði. Bæði stækkanir, minnkanir og lyftingar svo eitthvað sé nefnt. „Einu sinni kom til mín stelpa sem hafði hug á að komast í brjóstastækkun. Hún vildi helst hafa þau í stærra lagi og ekki nóg með það … aðgerðin átti helst að fara fram sama dag þar sem hún ætlaði að „nota þau um helgina“,“ segir Ágúst og skellir upp úr.

Einu sinni kom til mín stelpa sem hafði hug á að komast í brjóstastækkun. Hún vildi helst hafa þau í stærra lagi og ekki nóg með það… aðgerðin átti helst að fara fram sama dag þar sem hún ætlaði að „nota þau um helgina“.

Ágúst hefur líka getið sér mjög gott orð fyrir að vera fær í að gera svuntuaðgerðir og um það vitnar til dæmis skjólstæðingur hans Sólveig Sigurðardóttir, sem heldur úti síðunni Lífstíll Sólveigar. Sólveig fór í stóra svuntuaðgerð eftir að hafa misst 46 kíló og Ágúst tók að sér að gera svuntuaðgerðina, sem reyndist ein sú umfangsmesta sem gerð hefur verið í Domus Medica.

„Það var Ágúst Birgisson lýtalæknir sem gerði aðgerðina en stundum þegar ég hugsa til þessa manns sé ég fyrir mér engil. Hann er þvílíkur fagmaður og kærleiksríkur í garð sjúklinga,“ segir hún í viðtali við Lindu Baldvinsdóttur hjá Manngildi.is og endar svo á að segja að hún færi aldrei til annars læknis.

„Hann heldur svo vel utan um sínar aðgerðir og maður er í góðum höndum sem er svo ofsalega mikilvægt.“

Sáttir karlar

Í hugum flestra eru þau sem leita til lýtalækna kannski helst pjattaðar konur, en því fer fjarri. Skjólstæðingar Ágústs eru fólk á öllum aldri, bæði konur og karlar.

„Karlar eru feimnari við að tala um þetta en auðvitað vilja þeir oft breyta einhverju við útlitið líkt og konur. Dæmi um þetta er til dæmis fitusöfnun á brjóstum. Slíkt truflar mjög marga karlmenn án þess að þeir tali neitt um það, en svo verða þeir virkilega sáttir og ánægðir með sig eftir að hafa drifið sig í svona aðgerð. Fitusog er reyndar ein af vinsælli aðgerðunum hjá mér, því það er hægt að nota það með svo fjölbreyttum hætti. Karlmenn vilja til dæmis oft losna við þennan svokallaða „björgunarhring“ og konur vilja losna við „bingó“ á upphandleggjum. Með öðrum orðum, fituna sem safnast oft þar fyrir. Þá má einnig nota það á mjaðmir, læri, maga og jafnvel til að losna við undirhöku í sumum tilfellum.“

Yngjast um nokkur ár eftir augnlokaaðgerð

Spurður að því hvort einhverjar sérstakar aðgerðir séu vinsælli nú en áður útskýrir Ágúst að það séu töluverðir tískustraumar í þessu sem öðru sem tengist útliti fólks. Hann tekur dæmi um augnlokaaðgerðir, sem séu nú orðnar verulega vinsælar hjá báðum kynjum.

„Ég fæ til mín fólk á öllum aldri, bæði karla og konur í þessa aðgerð, þó flest séu auðvitað komin yfir fertugt. Húðin missir teygjanleika sinn með árunum og það á sérstaklega við um húðina í kringum augun, þar sem hún er fíngerðari og þynnri en annars staðar. Þegar augnlokin fara að lafa mikið, þá getur það angrað fólk talsvert. Konum finnst erfiðara að mála sig og svo getur sjónsviðið skerst. Þá geta fylgt þessu höfuðverkir og annað vesen. Þessi aðgerð er ein sú allra vinsælasta hjá mér og það gleður mig mjög hvað fólk verður ánægt eftir að hafa farið í þessa aðgerð. Öll ásjónan bjartari og frísklegri og fólk „yngist“ um nokkur ár.“

Misskilningur í kring um botox

Á síðustu árum hefur notkun á botox og fylliefnum einnig farið mjög vaxandi, en þessi efni draga meðal annars úr hrukkum og fínum línum í andliti. Ágúst segir að töluverður misskilningur sé hjá sumum hvað botoxið varðar og margir haldi jafnvel að það sé hættulegt. Það sé þó ekki beinlínis rétt.

„Jú, vissulega fylgir þessu einhver smá áhætta eins og með öll önnur inngrip í líkamann, hvort sem það eru sprautur eða annað. Botox er þó langt frá því að vera eitthvað hættulegt efni, því ef svo væri þá væru vinsældir þess væntanlega ekki eins gríðarlegar og raun ber vitni. Botox virkar þannig að það sest í taugavefmót vöðvans og blokkerar þannig hreyfingu hans. Við þetta sléttist úr sýnilegum hrukkum og um leið draga áhrif efnisins úr hrukkumyndun. Botox er mikið notað til að draga úr hrukkum í enni og einnig „gribbu“-hrukkunni sem gjarna myndast á milli augabrúnanna, broshrukkum og fleiru. Efnið fjarar svo út á sirka sex til átta mánuðum (mismunandi eftir fólki) og því er tilvalið að bara prófa og sjá svo til hvort maður vill halda áfram,“ segir Ágúst.

„Ósáttur við að vera með enni eins og sjötugur maður“

„Einn sá ánægðasti sem ég hef meðhöndlað með botoxi var aðstoðarlæknir sem ég var að vinna með í Noregi. Sá var bara rétt um þrítugt en með hrukkur á enninu sem litu út eins og djúpir dalir. Hann var heldur ósáttur við að vera með enni eins og sjötugur maður, svo úr varð að við prófuðum að sprauta efninu í ennið á honum. Við vorum að vinna með botox við bæklunarskurðlækningar og fannst alveg tilvalið að prófa þetta. Á örfáum dögum varð svo ennið á honum alveg slétt og hann hreint himinlifandi. Og konan hans reyndar líka,“ segir Ágúst kíminn.

Ágúst segir að það ríki smá misskilningur í kring um botoxið. Til dæmis haldi sumir að því sé sprautað í varir, en slíkt myndi ekki bera góðan árangur. „Ef þetta væri gert myndu varirnar einfaldlega lamast og manneskjan kæmi ekki upp skýru orði,“ útskýrir hann og bætir við að fylliefnin virki öðruvísi.

„Þau notar maður jú til að breyta lögun og fyllingu varanna, en einnig til að fylla í línurnar sem liggja frá nefinu niður að munnvikum, í kinnbeinin, undir augun og á fleiri staði. Möguleikarnir eru í raun ótal margir og um að gera fyrir áhugasama að kynna sér þá vel.“

Ágúst Birgisson lýtalæknir segir að fitusog sé vinsæl aðgerð hjá báðum kynjum. Mynd/Linda Baldvinsdóttir

„Við þurfum jú öll að fara vel með okkur“

Að lokum liggur beint við að spyrja lýtalækninn hvort hann sé jafnvel eins konar sálfræðingur líka, þar sem útlit, sálarlíf og upplifun af sjálfsmynd tengist jú talsvert hjá flestu nútímafólki.

„Ætli það megi ekki segja að við séum stundum í því hlutverki, svona upp að einhverju marki. Þó flestir kúnnarnir mínir séu bara „venjulegt fólk“ sem langar að líta betur út, þá koma stundum einstaklingar sem hafa lent í einhvers konar hremmingum eða krísu. Þeim líður illa með sjálfa sig og útlitið og sjálfsmatið er eftir því. Ég legg mig auðvitað fram um að bæta úr því sem óskað er eftir, og auðvitað líður fólki betur eftir á, en þar með er ekki endilega sagt að öll vandamál séu úr sögunni. Við þurfum jú öll að fara vel með okkur og það á við um bæði líkama og sál,“ segir Ágúst að lokum.