Hópur þrautþjálfaðra og harðsvíraðra málaliða brýst inn á reisulegan herragarð Lighthouse-fjölskyldunnar á aðfangadagskvöld og tekur alla fjölskylduna í gíslingu. Ætlunin er að ræna miklum fjármunum úr sérstakri fjárhirslu sem er á setrinu.

Glæpagengið hafði hins vegar ekki gert ráð fyrir einu. Jólasveinninn kemur nefnilega í árvissa heimsókn sína til Lighthouse-fjölskyldunnar og lætur svo sannarlega fyrir sér finna. Lighthousefjölskyldan er nefnilega á góða listanum hans en glæpahyskið á listanum yfir þá sem hafa verið óþekkir.

Í ljós kemur að jólasveinum er fleira til lista lagt en að gefa gjafir, borða smákökur, þamba mjólk, hlæja djúpum hlátri og slá sér á lær. Hann náttúrlega laumar sér inn á hvert heimili einu sinni á ári og slíkir læra vitaskuld nokkur trix.

Violent night er dálítið eins og Die Hard, nema hér er það ekki John McClane, lögga frá New York, sem kljáist einn við ofurefli harðsvíraðra glæpamanna heldur jólasveinninn. Glæpamennirnir eru vel vopnum búnir en jólasveinninn hefur eitt og annað uppi í erminni. Hann býr yfir töfrum sem óþokkarnir eiga fá svör við. Þá kemur á óvart hversu öflug vopn hægt er að útbúa úr sakleysislegu jólaskrauti.

David Harbour leikur jólasveininn í formi sem við höfum ekki séð hann í áður. Flestir aðdáendur jólamynda muna vel eftir Beverly D’Angelo í hlutverki Ellen Griswold í sígildu jólamyndinni Christmas Vacation. Hér leikur hún Gertrude Lighthouse, ættmóður Lighthouse-fjölskyldunnar, í mynd sem, eins og fyrr segir, svipar meira til jólamyndarinnar Die Hard frekar en Christmas Vacation.

Laugarásbíó, Smárabíó og Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Keflavík og Akureyri

Frumsýnd 2. desember 2022

Aðalhlutverk:

David Harbour, Beverly D‘Angelo, John Leguizamo, Cam Gigandet, Edi Patterson, Brendan Fletcher og Alex Hassell

Handrit:

Pat Casey og Josh Miller

Leikstjórn:

Tommy Wirkola

Enskt tal með íslenskum texta

Bönnuð innan 16 ára