Hjartaendurhæfing er þverfagleg og meginþættir hennar eru þjálfun, fræðsla, meðferð áhættuþátta auk sálrænnar og félagslegrar aðlögunar. Á hjartasviði Reykjalundar starfa auk sjúkraþjálfara, félagsráðgjafi, hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfi, íþróttafræðingar, læknar, næringarfræðingur, sálfræðingur og sjúkraliði. Hjartaendurhæfing er hluti heildrænnar meðferðar.

Sólrún Jónsdóttir er sjúkraþjálfari hjá hjartateymi Reykjalundar.

„Það er talað um þrjú stig hjartaendurhæfingar. Á hjartasviði Reykjalundar fer fram 2. stig hjartaendurhæfingar. Það stig hefst yfirleitt 4-8 vikum eftir áfall, aðgerð eða annað inngrip og er að jafnaði 4-6 vikur,“ segir hún.

„Það er oft sagt að þjálfun sé hornsteinn hjartaendurhæfingar og þá ekki síst þolþjálfun. Sýnt hefur verið fram á forvarnargildi þess fyrir hjartasjúklinga að hafa gott þol, það er annars stigs forvörn. Markmið hjartaendurhæfingarinnar er því meðal annars að sjúklingar nái að auka sitt þol og þrek.“

Sólrún segir að þjálfunin sé alltaf einstaklingsmiðuð þannig að leiðir að því markmiði séu mismunandi. Til þess að þjálfunin verði sem markvissust er byrjað á því að gera hjá sjúklingnum ákveðið mat við innskrift. Flestir fara í áreynsluþolpróf auk þess sem tekin eru komuviðtöl og annað mat gert eftir atvikum.

„Það eru síðan niðurstöður úr þessu innskriftarmati ásamt sjúkrasögu viðkomandi sem er haft til grundvallar þegar sjúkraþjálfarar hjartasviðs setja upp þjálfunaráætlun fyrir hann,“ útskýrir Sólrún.

„Sjúkraþjálfarar fylgjast síðan vel með svörun við álagi og hvernig þjálfunarþættirnir ganga hjá hverjum og einum á meðan á endurhæfingu stendur. Við fylgjumst með púls- og blóðþrýstingssvörun, hjartslætti, súrefnismettun ef þarf, sem og sjálfsmati sjúklings varðandi ákefð þjálfunarinnar. Stignun og/eða endurmat þjálfunarþátta yfir tímabilið fer síðan bæði eftir svöruninni, hvernig sjúklingar meta álagið og hvernig þeim líka þeir þjálfunarþættir sem þeir eru skráðir í.“

Sólrún segir að náin samvinna sé milli sjúkraþjálfara og lækna í gegnum allt endurhæfingartímabilið, sem og annarra fagaðila eftir atvikum.

Fá einnig styrktarþjálfun

Auk áðurnefndar þolþjálfunar fá allir sjúklingarnir styrktarþjálfun en svo er mismunandi hvaða fleiri þætti unnið er með, að sögn Sólrúnar.

„Það getur til dæmis verið þörf hjá einhverjum fyrir að bæta jafnvægi, auka liðleika, auka færni eða draga úr stoðkerfiseinkennum svo eitthvað sé nefnt. Sjúkraþjálfarar sjá líka um þann hluta fræðsluprógramms sjúklinganna sem snýr að áhrifum þjálfunar og hreyfingar og framhaldsþjálfun. Önnur fræðsla sem sjúklingarnir fá og er í umsjón annarra fagaðila hjartasviðs er meðal annars um hjartasjúkdóma og meðferð þeirra, áhættuþætti, streitustjórnun, næringu og svefn,“ segir hún.

Sólrún segir að undir lok endurhæfingarinnar sé það mat eða próf sem tekin voru við innskrift endurtekin. Sjúkraþjálfari vinnur svo með sjúklingnum að áætlun fyrir áframhaldandi þjálfun og hreyfingu eftir útskrift.

„Fyrir utan mælanlegan árangur þá felst árangurinn fyrir sjúklinginn sjálfan kannski ekki síst í því að komast yfir óöryggi og hræðslu við að reyna á sig , en slíkt óöryggi er oft fylgifiskur þess að hafa greinst með hjartasjúkdóm. Sjúklingarnir öðlast öryggi á ný, læra að setja sér mörk varðandi álag og bera ábyrgð á eigin heilsu,“ útskýrir Sólrún.

„Þó svo að þjálfunin sé einstaklingsmiðuð þá fer hún mikið fram í hópum. Hópunum er stýrt ýmist af sjúkraþjálfurum eða íþróttafræðingum/heilsusporturum. Það er náin samvinna milli þessara fagaðila í tengslum við marga þá þjálfunarþætti sem í boði eru. Það er reynt að hafa þjálfunina fjölbreytta og að sjúklingarnir nái að kynnast mismunandi tegundum almennrar hreyfingar og þjálfunar. Við leggjum einnig áherslu á mikilvægi þess að halda áfram með reglubundna hreyfingu eftir útskrift úr endurhæfingunni.“