Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) veitti nýverið í fyrsta sinn viðurkenningu til fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana fyrir að skara fram úr í jafnréttismálum á liðnu ári. Markmið Jafnvægisvogarinnar er að auka jafnvægi kynjanna í efstu lögum stjórnunar sveitarstjórna, fyrirtækja og stofnana þar sem oftar en ekki hefur hallað á konur. Tvö sveitarfélög og 16 fyrirtæki fengu viðurkenninguna að þessu sinni, þar á meðal Íslandshótel sem er jafnframt eina ferðaþjónustufyrirtækið sem hlaut viðurkenninguna.

„Það er heiður að fá þessa viðurkenningu,“ segir Erna Dís Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og gæðasviðs Íslandshótela. „Okkur finnst mikilvægt að vera fyrirmynd fyrir okkar atvinnugrein og almennt í atvinnulífinu.“

Hjá Íslandshótelum er meirihluti starfsmanna konur. Ekki nóg með það þá eru kynjahlutföll í stjórnunarstöðum fyrirtækisins nokkurn veginn jöfn.

„Hótelstjórarnir okkar eru 65% konur og deildarstjórarnir eru 51% konur. Í framkvæmdastjórn er kynjahlutfallið svo 40/60, en markmið Jafnvægisvogarinnar fyrir árið 2027 er að það verði hlutfallið alls staðar. Hlutfallið er mjög jafnt hjá okkur og jafnvel aðeins fleiri konur í stjórnunarstöðum, enda fleiri konur sem vinna fyrir fyrirtækið.“

Allar raddir koma að borði

Erna Dís segist vera stolt fyrir hönd Íslandshótela af að hafa fengið viðurkenninguna. „Við stoppum ekki hér. Stundum upplifum við okkur lítil í stóra samhenginu en þegar maður framkvæmir breytingar í sínu nærumhverfi þá hafa þær áhrif og veita öðrum innblástur,“ segir hún. Erna segir viðurkenninguna vera skref í rétta átt og hrósar kröftugu starfi FKA við að halda utan um tengslanet kvenna í atvinnulífinu og hvetja til þess að konur ráðist í stjórnendastöður.

Íslandshótel er með virka jafnréttisstefnu og starfrækir jafnréttisnefnd. Sömuleiðis hafa verið stofnaðir faghópar innanhúss utan um mismunandi deildir og verkefni til að styrkja allar ákvarðanir sem teknar eru hjá fyrirtækinu. „Þetta eru lifandi hópar, starfsmenn koma í og úr faghópunum þannig þeir eru alltaf að breytast. Hlutverk faghópanna er að allir séu með og fái sýn frá fjölbreyttari hópum sem koma með tillögur að breytingum og nýjungum sem eru svo lagðar fyrir framkvæmdastjórn. Þetta fyrirkomulag hefur gengið gífurlega vel hjá okkur. Við erum alltaf að reyna að fá allar raddir að borðinu.“

Enn langt í land

Erna Dís byrjaði sjálf að vinna fyrir fyrirtækið árið 2002. „Ég fór síðan út í nám og kom aftur árið 2008. Ég hef eiginlega alist upp í fyrirtækinu.“

Hún hefur tekið að sér mörg ólík störf fyrir Íslandshótel. Til dæmis hefur hún áður unnið sem hótelstjóri, deildarstjóri, starfsþróunar- og gæðastjóri.

Erna Dís er því gott dæmi um þá virku starfsþróun sem á sér stað hjá Íslandshótelum og heillar marga umsækjendur. „77% hótelstjóranna hafa vaxið í starfi innanhúss hjá okkur og 60% þeirra sem sitja í framkvæmdastjórnum.“

Erna segir það vera spennandi að vinna í þessu starfsumhverfi. „Það er ótrúlega gaman. Umhverfið er svo dýnamískt. Annars væri ég ekki búin að vera hérna í mörg ár. Maður lærir svo mikið á hverjum degi. Það er líka alltaf gaman að sjá fleiri konur við borðið í framkvæmdastjórn þó það sé enn langt í land.“

Starfsfólk af 47 þjóðernum

Á þeim tíma sem Erna Dís hefur starfað fyrir Íslandshótel hefur hún tekið eftir miklum breytingum í ferðaþjónustunni en þar hefur verið gífurlegur vöxtur á síðustu árum eins og margir vita. „Við erum búin að leggja mikinn metnað á síðustu árum í allan innri strúktúr og fagmennskan er orðin miklu meiri en hún var en fagmennska er fyrsta gildi fyrirtækisins. Þetta er búið að breytast mikið síðan ég byrjaði árið 2002 og gaman að fylgjast með því. Það er gott að vinna hjá fyrirtæki sem er alltaf tilbúið að aðlagast, breytast og styður frekari þróun í jafnréttismálum.“

Breytingar í átt að jafnrétti hjá Íslandshótelum hafa leitt til þess að hópurinn sem sækir um störf hjá fyrirtækinu er fjölbreyttari. Erna Dís segir að Íslandshótel geti verið stolt af því að mælingar sýni að það er nokkurn veginn jafnt hlutfall karla og kvenna sem sækir um stjórnendastöður og fólk af mörgum ólíkum þjóðernum. „Fólk sér að það er virk starfsþróun innan fyrirtækisins fyrir alla starfshópa. Við erum mjög stolt af því. Hjá Íslandshótelum eru 75% starfsmanna erlendir starfsmenn, en allt í allt eru starfsmenn fyrirtækisins af 47 mismunandi þjóðernum.“

Jöfn laun fyrir alla hópa

„Þegar mest lætur eru rúmlega þúsund manns sem vinna hjá okkur. Því er mikilvægt að fjölbreyttur hópur kvenna og karla af mismunandi þjóðernum komi að ákvarðanatöku fyrirtækisins. „Fyrir okkur er mikilvægt að hafa hæft fólk sem kemur að ákvarðanatöku fyrir mjög fjölbreyttan hóp starfsmanna og viðskiptavina. Það eru ekki allir sem hafa sæti við borðið en það er mikilvægt að þeir sem þar sitja hafi þá hæfni og skilning að sjá hluti út frá ólíkum hópum og setji sig í spor annarra.

Með því að hafa fólk af mismunandi þjóðernum í stjórnendastöðum er enn frekar tryggt að ákvarðanir hafi hagsmuni hótelgesta að leiðarljósi sem koma hvaðanæva að úr heiminum,“ segir Erna Dís. „Það er helsti styrkleiki fyrirtækisins.“

Íslandshótel fengu líka jafnlaunavottun á síðasta ári. Fyrirtækið stefnir ekki bara að jafnrétti milli kynjanna heldur líka að jafnrétti ólíkra þjóðernishópa og hafði þess vegna frumkvæði að því að byrja að skipuleggja breytingar á jafnlaunakerfinu svo að það taki til fleiri hópa en karla og kvenna. „Ég hefði persónulega viljað sjá jafnlaunavottunina taka strax til fleiri hópa, eins og ólíkra þjóðernishópa.

Það þarf samt ekkert að stoppa mann í að setja upp slíkt kerfi. Við erum nú þegar byrjuð að vinna í því. Það er mikilvægt fyrir okkur að vera leiðandi í þessum málum líka,“ segir hún.

Íslandshótel eiga og reka 17 hótel um land allt. Þau eru Grand Hótel Reykjavík, stærsta ráðstefnuhótel landsins, Hótel Reykjavík Centrum og 15 Fosshótel staðsett hringinn í kringum landið. Auk þess er nýtt glæsilegt fjögurra stjörnu hótel í byggingu við Lækjargötu. Islandshotel.is