Tugir trjáa voru gróðursettir í Jafnréttislund FKA, eitt fyrir hvern viðurkenningarhafa Jafnvægisvogar FKA. „Ráðstefna Jafnvægisvogarinnar „Jafnrétti er ákvörðun“ var haldin við hátíðlega athöfn í beinni útsendingu á RÚV þann 14. október síðastliðinn, en þar voru veittar viðurkenningar til 53 fyrirtækja, sveitarfélaga og opinberra aðila, sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar. „Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), en á ráðstefnunni var fjölbreytt og fræðandi dagskrá, viðurkenningarhafar Jafnvægisvogarinnar voru kynntir og tilkynnt um nýja þátttakendur í Jafnvægisvoginni,“ segir Thelma Kristín Kvaran, verkefnastjóri Jafnvægisvogarinnar.

„Á fyrstu ráðstefnu Jafnvægisvogar á tímum Covid kom þessi hugmynd upp, þar sem við gátum ekki hitt þátttakendur og afhent viðurkenningar né blóm. Við ákváðum þá að hafa samband við Skógræktarfélag Reykjavíkur í þeirri von að áhugi væri fyrir samstarfi. Það var tekið gríðarlega vel í það og félaginu úthlutað þessum fallega stað á besta stað í Heiðmörk,“ segir Thelma og bætir við að þetta sé staður sem fari jafnréttinu vel.

„Stundum er gott að hugsa aðeins út fyrir boxið, láta gott af sér leiða, fyrir samfélagið og umhverfið,“ bætir Thelma Kristín við, sem er þakklát góðu fólki og samstarfsaðilum sem koma að hreyfiaflsverkefninu, en auk FKA standa forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, Pipar\TBWA og RÚV að verkefninu. ■

Gróðursetning í Jafnréttislundi FKA. Frá vinstri: Thelma Kvaran, Eydís Rós Eyglóardóttir, stjórnarkona FKA, og Auður Daníelsdóttir, Sjóvá. Mynd/Katrín Kristjana Hjartardóttir