Segja má að saga Vátryggingafélags Íslands sé samofin sögu íslensks samfélags. VÍS er elsta tryggingafélagið hér á landi, sem hefur tryggt Íslendinga í 105 ár. Tilgangur félagsins er að vera traust bakland í óvissu lífsins, með því að veita viðskiptavinum sínum viðeigandi tryggingavernd. Hjá VÍS starfa um 200 manns á sex þjónustuskrifstofum um landið allt, en höfuðstöðvar félagsins eru í Reykjavík.

„Við viljum hjálpa viðskiptavinum okkar að lenda sjaldnar í tjónum og leggjum því mikla áherslu á forvarnir. Við erum stolt af því að eiga langa sögu um forvarnir og höfðum til dæmis mikil áhrif á notkun barnabílstóla hér á landi. Samfélagsleg ábyrgð og sjálfbærni eru því samofin sögu félagins, sem og öllum rekstri þess. Við erum einnig stolt af því að hafa lagt ríka áherslu á jafnrétti og erum meðvituð um mikilvægi þess að tryggja jöfn tækifæri,“ segir Anna Rós Ívarsdóttir, mannauðsstjóri VÍS, sem jafnframt er kyndilberi jafnréttis hjá félaginu.

Mikilvægur áfangasigur hafðist á síðasta ári þegar náðist að útrýma launamun kynjanna. „Þetta er afrakstur margra ára ásetnings um að útrýma launamuninum hjá félaginu,“ segir Anna Rós.

Krefst ásetnings og samvinnu

„Við vitum vel að jafnrétti gerist ekki af sjálfu sér. Jafnrétti er ákvörðun,“ segir hún jafnframt. „Jafnréttismálin eru mitt hjartans mál og undanfarin 20 ár höfum við unnið að því að styrkleikar, hæfileikar og færni alls mannauðs njóti sín sem best. Við höfum allt frá árinu 2001, þegar við gáfum út fyrstu jafnréttisstefnu VÍS, unnið með markvissum hætti að jafnréttismálunum. Það þarf að taka ákvörðun um að breyta og ganga í málin og það höfum við svo sannarlega gert.“

Hún segir það hafa verið tilviljun að fyrsta verkefni sitt hafi verið að útbúa jafnréttisáætlun og jafnréttisstefnu fyrir félagið, þegar hún hóf störf við mannauðsdeildina 2001. „Þá strax kviknaði hjá mér áhugi og ástríða fyrir jafnréttismálunum og eldmóður fyrir því að þessi mál ættu einfaldlega að vera í lagi. Ég hef unnið að jafnréttismálum hjá VÍS frá byrjun og vil ítreka að þetta er ekki eins manns verk og þetta gerist ekki á einni nóttu. Ég hef fengið eindreginn stuðning frá öllum forstjórum og framkvæmdastjórum sem ég hef unnið með hjá félaginu. Það hefur alltaf verið mikill metnaður í mannauðsdeildinni að hafa þessi mál til fyrirmyndar. Að ná árangri í jafnrétti krefst ásetnings og samvinnu allra stjórnenda.“

Góð blöndun besti kosturinn

Í huga Önnu Rósar er jafnrétti hið eina rétta. „Ég tel að fyrirtæki ættu ekki einungis að bregðast við og framkvæma vegna laga og reglna. Mikilvægt er að allt starfsfólkið fái tækifæri til þess að skína, því annars er hætta á því að fyrirtæki fari á mis við krafta og hæfileika sem gætu komið fyrirtækinu til góða. Mikilvægast er að bjóða upp á fjölbreytt tækifæri, óháð kyni. Maður verður að trúa því að jafnréttið sé rétta leiðin til árangurs.“

Hún segir reynslu sína vera þá að langbesta vinnuumhverfið skapist þegar góð blöndun er til staðar í starfsmannahópnum og þá sérstaklega út frá aldri, kyni og reynslu. „Þá skapast frábært vinnuumhverfi og algjörlega rétti andinn, ekki síst fyrir nýjar hugmyndir og nýsköpun. Undanfarin ár hafa kynjahlutföll í framkvæmdastjórn verið jöfn, eða jafnvel konum í vil. Svo tel ég mikilvægt að hafa sterkar kvenfyrirmyndir á vinnustaðnum og við höfum lagt mikla áherslu á það. Kynjahlutföll þurfa að vera til fyrirmyndar. Það er nefnilega ekki nóg að vera með flotta stefnu á blaði, það þarf að sýna ásetninginn í verki.“

Starfsfólk VÍS var stolt þegar félagið fékk jafnlaunavottun í lok árs 2017.

Voru með háleit markmið

Á síðasta ári náðist sá áfangi hjá VÍS að launamunur var ekki mælanlegur. „Frá því við fengum jafnlaunavottunina í lok árs 2017 hefur stöðug ítrun átt sér stað, því þrátt fyrir að jafnlaunavottun sé til staðar getur verið launamunur. Vottunin snýst nefnilega um að áætlun sé til staðar um hvernig á að ná muninum niður. Við settum okkur þó alltaf háleitari markmið og náðum svo að útrýma launamuninum í stað þess að sætta okkur við hann, þó að munurinn væri ómarktækur. Við vildum ná þessu alveg niður.“

Hún segir að í allri launaumræðu og ákvörðunum um laun með stjórnendum, þurfi að vera meðvitund um hvað það þýðir að hækka einhvern í launum. „Með öðrum orðum, hvað hækkun eins starfsmanns þýðir fyrir launamuninn hjá fyrirtækinu. Þetta þýðir að maður þarf stöðugt að vera á tánum til þess að ná árangri og viðhalda góðum árangri.“

Starfsánægja aldrei mælst hærri

Þegar starfsfólk VÍS hóf þessa vegferð í upphafi var lítið um leiðbeiningar og mikið um úreltar starfaflokkanir. „Til dæmis var ekki hægt að finna starfsheitin verkefnastjóri og viðskiptastjóri, en þar mátti finna abbadís og eldgleypi. Þetta var einnig tímafrekt ferli en við vorum með fyrstu íslensku fyrirtækjunum sem öðluðumst jafnlaunavottun. Við vorum ásamt öðrum fyrirtækjum að ryðja brautina. Þess ber að geta að viðhorf stjórnenda var jákvætt, sem skiptir öllu máli. Jafnrétti getur aldrei verið gæluverkefni mannauðsdeildar því jafnréttismálin krefjast aðkomu allra stjórnenda. Jafnlaunastaðallinn er gæðastaðall sem krefst stöðugrar ítrunar. Þú þarft alltaf að vera á tánum til þess að tryggja árangur.“

Samhliða auknu jafnrétti hefur starfsánægjan aldrei mælst hærri. „Við erum eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum VR, sem mælir ýmsa þætti í ánægju og stolti starfsmanna. Við erum einbeitt í því að viðhalda þeim góða árangri, enda trúum við því að ánægt starfsfólk sé grunnurinn að góðum rekstri.“

VÍS er í fararbroddi

Anna Rós metur stöðu VÍS þannig að félagið sé í fararbroddi á meðal íslenskra fyrirtækja þegar kemur að jafnrétti. „Við höfum meðal annars fengið viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA í þrjú skipti, við erum með 9 í jafnréttis­einkunninni í GemmaQ, sem horfir til stjórnar og æðstu stjórnenda fyrirtækja í Kauphöllinni út frá jafnrétti kynjanna. Þess ber að geta að meðaltalið í Kauphöllinni er 7. Svo er starfsfólkið okkar ánægt með þessa áherslu á jafnrétti, sem endurspeglast í þeim könnunum sem framkvæmdar eru. Við ætlum að halda áfram að tryggja góðan árangur og gera enn betur. Jafnrétti er nefnilega ákvörðun og vegferðin hættir aldrei.“