Fyrstu framleiðsluvörur Freyju voru Valencia súkkulaði og hin klassíska Freyju rjómakaramella sem er enn framleidd og seld í óbreyttri mynd. Hjá Freyju starfa núna um það bil 50 manns. Pétur Thor Gunnarsson framkvæmdastjóri Freyju segir að íslensk sælgætisgerð sé að mörgu leyti einstök.

„Íslensk framleiðsla hefur leitt til vöruþróunar á sælgæti erlendis. Djúpur og Sterkar Djúpur voru sem dæmi fyrsta sælgæti sinnar tegundar en núna finnst sams konar sælgæti víða um Evrópu framleitt af gríðarstórum framleiðendum,“ segir Pétur.

„Annað dæmi er Hrís sem var framleitt fyrst árið 1933 en framleiðsla á sams konar vörum hófst erlendis árið 1936.“

Pétur segir íslenskan lakkrís og íslenskt súkkulaði algjörlega einstakt á heimsvísu. Hann segir að hjá Freyju sé lagður gríðarlegur metnaður í framleiðsluna og enginn afsláttur gefinn í framleiðsluferlinu.

„Framleiðslan er mannfrek og eru þær íslensku hefðir sem hafa skapast við framleiðsluna hafðar að leiðarljósi í gegnum allt ferlið,“ segir hann.

„Framúrskarandi gæði og bragð er haft að leiðarljósi. Draumur, Rís, Hrís, Djúpur, Möndlur, Bombur, Djöflar, Villiköttur og Staur eru allt vörur sem eiga íslensku hugviti og þrautseigju tilveru sína að þakka.“

Að lokum segir Pétur að þeim hjá Freyju finnist herferð eins og Íslenskt látum það ganga vera gríðarlega mikilvæg.

„Við viljum hvetja landsmenn til þess að velja íslenska framleiðslu af því að íslenskt skiptir þjóðina svo miklu máli. Íslensk framleiðsla og handverk eru ekki bara efnahagslega mikilvæg heldur menningarlega einnig.“