Gunnar segist hafa orðið áþreifanlega var við aukinn áhuga. „Það eitt að vera með íslenska vöru dugar þó ekki eitt og sér. Íslenskir neytendur eru kröfuharðir og þó að þeim finnist eflaust frábært að það séu í boði íslenskar vörur þá er það til lítils nema vörurnar standist samanburð í gæðum og í verði. En mér finnst líklegt að áhugi á íslenskum vörum muni aukast núna um þessar mundir og nefni þar bara tvennt: að neytendur eru meðvitaðri en áður og svo stöðuna í efnahagsmálum vegna áhrifa COVID-19. Við sáum þetta skýrt árin 2009 -2010,“ segir hann.

„Við í Ölgerðinni bjóðum mikið úrval drykkjarvara sem við framleiðum hér á landi. Við erum þar í harðri samkeppni við innflutning en teljum okkur standast samanburð, bæði hvað varðar verð og gæði. Við værum ekki með þá hlutdeild sem við erum með á drykkjarvörumarkaðnum ef við værum ekki að standa okkur. Við gerum miklar kröfur til okkar og neytendur virðast kunna að meta útkomuna. Ég get nefnt að af framleiðsluvörum okkar sjáum við að Pepsi Max er orðinn vinsælasti og mest seldi gosdrykkur landsins. Kristall nýtur líka mikilla og vaxandi vinsælda. Hið sívinsæla par Malt og Appelsín er líka með stærri vörumerkjum. Í bjórnum eru það Gull, Gull Lite og Boli. En svo er gaman að sjá hvað margar af vörunýjungunum virðast eiga upp á pallborðið svo sem COLLAB, sem leit dagsins í ljós á vormánuðum 2019,“ segir hann.

Það er ólíklegt að Íslendingar haldi jól án Egils Malts og Appelsíns. Gunnar tekur undir það og segir að sú tvenna verði varla íslenskari. „Ástarsamband Malts og Egils Appelsíns varð til árið 1955 þegar að Egils Appelsín kom á markaðinn. Síðan þá hefur þessi blanda verið órjúfanlegur hluti af jólahaldi landsmanna. Og ekki bara hérlendis, því það er mikið um að Íslendingar erlendis reyna að verða sér út um drykkina fyrir jólin og ég vona að það takist hjá öllum um þessi jól.“

Það er gott fyrir samfélagið umhverfislega að kaupa íslenskt. Gunnar segir að það skipti miklu máli í drykkjarvöru. „Við höfum látið reikna út fyrir okkur kolefnislosun á vöru sem er framleidd hér heima og borið saman við sambærilega vöru sem er innflutt og munurinn er allt að 400% hvað þetta varðar. Við erum náttúrulega örmarkaður að mörgu leyti. Það leiðir af sér að við verðum seint með lægsta einingakostnaðinn. Það setur þær kröfur á okkur að gera enn betur í gæðum og vöruframboði. Kostirnir eru þeir að lítill markaður gerir okkur sveigjanlegri og það er gott upp á vöruþróun. Við erum nær markaðnum og getum betur sinnt kröfum neytenda.“