Það ríkir mikil eftirvænting eftir stærstu hjólreiðakeppni landsins, Símanum Cyclothon, sem fer fram 22.-25. júní í ár. Keppt verður í einstaklings- og liðaflokkum og munu keppendur eiga von á að upplifa íslenska náttúru á ógleymanlegan hátt.

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum, er annar stofnenda hjólreiðakeppninnar sem haldin var undir merkjum WOW um árabil.

„Við Skúli Mogensen stofnuðum þetta saman fyrir að verða tíu árum. Ég held að við höfum verið rétt um 50 sem fórum af stað og hjóluðum hringinn fyrsta árið. Eftir það varð eiginlega byrjunin á því sem hægt er að kalla hjólreiðasprengingu en þegar keppnin var stærst og flestir fóru voru um 1.400 manns sem hjóluðu hringinn. Þannig að keppnin hefur vaxið og dafnað. Því miður þurfti að aflýsa henni í fyrra vegna COVID en núna er hún komin aftur af stað og þá undir nýjum merkjum Símans.“

Vöfflubakstur og hópefli

Magnús segir fjölbreyttan hóp fólks hafa tekið þátt í keppninni í gegnum tíðina. „Það hafa bæði verið alveg grjótharðir hjólreiðamenn sem ætla sér að bæta tímana í keppninni innan þeirra flokka sem hafa verið í boði en svo hafa líka farið alls konar saumaklúbbar, skemmtihópar og vinnuhópar sem eru bara að hafa gaman og eru jafnvel með vöfflujárn í bílnum. Það fólk hefur ekkert skemmt sér minna heldur en hinir.“

Liðaflokkurinn hefur að sögn Magnúsar reynst frábær vettvangur til þess að byggja upp liðsanda enda krefst keppnin mikillar samvinnu. „Vinnustaðir hafa nýtt þetta sem hópeflisæfingu en það er náttúrulega ekkert sem hnoðar hópum betur saman heldur en að vera sveitt í bíl saman í tvo sólarhringa.“

Í liðakeppninni eru átta manns í hverju liði sem skiptast á bæði að hjóla og keyra. „Þannig að þetta gengur ekkert nærri fólki og ég þori nú bara að fullyrða að nær allir sem kunna á reiðhjól geta tekið þátt og komist hringinn sem er alveg ótrúlega skemmtilegt.“

Svona líta verðlaunapeningarnir út í ár en þetta er í fyrsta skipti sem keppnin fer fram undir merkjum Símans.

Tilvalið í stað borgarferðarinnar

Magnús segir þá miklu sprengingu sem hafi átt sér stað í útivistar- og íþróttaiðkun meðal almennings á undanförnum árum hafa skilað sér inn í keppnina.

„Það eru margir sem hafa tekið þátt sem eru kannski nýlega búnir að kaupa sér hjól og hafa ekkert hjólað í áratugi. Svo þegar fólk byrjar að hjóla þá man það allt í einu virðist vera hvað það var gaman að hjóla þegar það var tólf ára. Af því að það er auðvitað alveg hryllilega skemmtilegt að hjóla. Þetta hefur kveikt í svo mörgum í gegnum tíðina, bara að enduruppgötva reiðhjól sem skemmtilegheit,“ segir hann.

„En við höfum séð þetta gerast, bæði í hlaupum, í hjólreiðum og nú síðast í skíðagöngu. Íslenska þjóðin er bara öll á iði. Og þar sem að fólk verður að öllum líkindum ekki að fara í borgarferðir í júní þá er þetta alveg tilvalið í staðinn, að skella sér hringinn með nýjum hætti.“

Einstakur þjóðflokkur

Hjólreiðakeppnin hefur einnig notið mikilla vinsælda utan landsteinanna en það hefur alltaf verið töluvert um erlenda þátttakendur í keppninni.

„Það hefur mest borið á áhuga hjá þeim núna í einstaklingskeppninni. Þar var sett nýtt brautarmet fyrir tveimur árum af Bandaríkjamanninum Chris Burkard, sem er reyndar mjög þekktur á Íslandi fyrir Instagram-reikninginn sinn en hann er alltaf að hjóla þvers og kruss yfir hálendið að vetri til, og er nýbúinn að hjóla frá nyrsta til syðsta tangans á einhverjum fjallahjólum,“ segir Magnús.

„Það er náttúrulega alveg einstakur þjóðflokkur sem leggur það fyrir sig að hjóla aleinir hringinn, þetta eru eiginlega bara ofurhetjur. Þegar Chris setti nýtt brautarmet fyrir tveimur árum þá byrjaði hann að hjóla frá Egilshöll eins og allir gera og hann steig ekki einu sinni af hjólinu fyrr en í Varmahlíð, sinni fyrstu pásu.“

Áhersla á öryggi keppenda

Magnús segir mikla þrautseigju gjarnan einkenna keppendur í einstaklingsflokknum. „Þeir stoppa kannski og leggja sig í 45 mínútur og halda svo áfram. Þetta eru algjör ofurmenni. En þeim fylgir stuðningsbíll með fylgdarmanni sem hefur vald til að stoppa þá og láta þá hvíla sig ef þeir byrja að hafa áhyggjur af þeim á hjólinu.“

Í liðaflokknum eru svo dómarar á svæðinu sem passa upp á að skiptingar séu löglegar, að fólk sé ekki að keyra yfir hámarkshraða og að reglum sé fylgt í keppninni. „Þetta eru reglur sem miða að því að auka öryggi keppenda en það er alltaf það sem við höfum mestar áhyggjur af. En þetta ætti að vera einstaklega gott ár til að keppa þar sem ég reikna ekki með að það verði mikið af ferðamönnum á ferðinni þannig að við bjóðum vonandi upp á auða þjóðvegi í ár.“

Hjólakraftsflokkurinn

Þriðji flokkur keppninnar er þá Hjólakraftsflokkurinn sem hefur verið hluti af keppninni frá árinu 2014.

„Við höfum unnið með hreyfingu sem heitir Hjólakraftur en það eru börn sem eru að glíma við áskoranir í lífinu. Það er hann Valdi hjólabóndi, eins og hann er kallaður, sem rekur þetta stórmerkilega verkefni, en hann hefur verið að koma á hverju ári með átta til tíu hópa af krökkum.

Það er ótrúlegt að fylgjast með þessum hópi fara hringinn og sjá hvað uppskeran er mikil við að klára svona áfanga eða verkefni. Þau hefja keppni sólarhring á undan öðrum keppendum og fara þá af stað með sólóhjólurunum. Þessir hópar fara af stað 22. júní og svo fer meginþorri keppenda af stað 23. júní og þá koma allir í mark á svipuðum tíma 25. júní.“

Magnús Ragnarsson segir ekkert jafnast á við að hjóla um miðnæturbil umkringd/ur íslenskri náttúru. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Náttúran eftirminnilegust

Magnús segist sjálfur afar spenntur fyrir keppninni í ár. „Ég er sá eini sem hef alltaf farið þannig að ég er að undirbúa mig núna fyrir níunda hringinn minn. Mér finnst þetta bara meira gaman með hverju árinu.“

Þegar hann er spurður að því hvað standi upp úr er svarið einfalt. „Það er bara íslensk náttúra. Þetta er alltaf haldið á Jónsmessunni og það er ekkert eins stórfenglegt eins og að hjóla um miðnæturbil fram hjá Jökulsárlóninu eða undir Vatnajökli. Að vera að hjóla yfir hánóttina á íslensku sumri, það er bara gjörsamlega einstakt, sama hvar þú ert staddur á landinu.“

Hann segir að það sem komi fólki mest á óvart í keppninni sé það hversu lítinn tíma það taki að fara hringinn. „Mettímarnir eru allir undir 40 klukkustundum en meðalliðið er að fara þetta á 45-48 klukkustundum þannig að þú ert aldrei, eða sjaldnast, meira en tvo sólarhringa að klára þetta.“

Safnað fyrir Landvernd í ár

Á hverju ári er valið málefni til að styrkja en í keppninni í ár verður safnað fyrir Landvernd. „Okkur fannst Landvernd vera frábærlega þarft verkefni sem helst í hendur við hjólreiðar og umgengni við landið okkar.“

Málefnin hafa verið mjög fjölbreytt í gegnum tíðina. „Við höfum hjálpað við að byggja íþróttaaðstöðu inni á Kleppi, gefið tæki á skurðstofur hjá Landspítalanum, styrkt Hjólakraft sem er krakkastarfið og síðast söfnuðum við fyrir Reykjadal sem er sumaraðstaða fyrir langveik börn uppi í Mosfellssveit,“ segir Magnús.

„Allt í allt er keppnin búin að standa fyrir söfnunum á um rétt um 100 milljónum á átta árum sem hafa runnið til ýmissa málefna. Við erum ákaflega stolt af þessu.“

Skráning í Síminn Cyclothon stendur yfir til 3. maí og fer fram á heimasíðunni: http://www.siminncyclothon.is