Mjólkursamsalan er eitt þátttökufyrirtækja í markaðsátakinu Íslenskt skiptir máli, en Mjólkursamsalan hefur frá upphafi verið í eigu íslenskra kúabænda og fjölskyldna þeirra. „Eigendur okkar eru kúabændur sem búsettir eru um allt land og segja má að MS sé stærsta fjölskyldufyrirtæki landsins,“ segir Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS.

Markmið fyrirtækisins er að taka við mjólk frá eigendum sínum og umbreyta í hollar og góðar mjólkurafurðir í takt við þarfir neytenda. Ein af lykiláherslum hjá MS hefur verið öflug vöruþróun síðustu áratugina, sem hefur skilað fyrirtækinu fjölmörgum vörum sem íslenskir neytendur þekkja vel en ein þessara vara er Kókómjólkin góða, sem er með vinsælustu vörum fyrirtækisins.

„Framleiðsla á Kókómjólk hófst fyrir tæpum 50 árum síðan,“ segir Guðný og bætir við að það séu ekki bara Íslendingar sem kunni að meta þennan bragðgóða mjólkurdrykk heldur hafi Kókómjólkin einnig vakið athygli út fyrir landsteinana. Kókómjólkin var valin besta mjólkurvara Norðurlandanna á alþjóðlegu mjólkurvörusýningunni í Herning árið 2012 og þá hefur hún verið vinsæl meðal erlendra ferðamanna og gesta sem sótt hafa landið heim.

„Um þessar mundir vekjum við og nokkur önnur íslensk framleiðslufyrirtæki athygli almennings á mikilvægi íslenskrar framleiðslu og hvernig vöruframboðið gæti litið út ef ekki væri fyrir íslenskan matvælaiðnað,“ segir Guðný og bendir á að íslensk framleiðsla er allt annað en sjálfsögð þar sem markaðssvæðið okkar er lítið. „Við erum stolt af öllum vörunum okkar og viljum að neytendur hafi val en viljum á sama tíma vekja athygli á því hvernig gæti farið fyrir landsþekktum vörum ef íslenskrar matvælaframleiðslu nyti ekki við,“ segir Guðný. „Hér er því Kókómjólkin okkar komin í danskan búning og Klói farinn að tala dönsku sem gefur okkur smá hugmynd að því hvernig hlutirnir gætu verið ef ekki væri fyrir innlenda framleiðslu.“