Að sögn Esterar Lífar Ólafsdóttur kom stofnun bruggsmiðjunnar til vegna óhapps. „Mamma og pabbi tóku þessa ákvörðun þegar pabbi, sem hafði verið á sjó í 26 ár, slasaðist á fæti og gat ekki lengur stundað sjómennsku. Mamma er fædd og uppalin á Árskógssandi og þau gátu ekki hugsað sér að flytja þaðan. Takmarkað var um atvinnu á staðnum og þau neyddust til að hugsa út fyrir kassann. Mamma fékk hugmyndina að stofnun brugghúss eftir að hafa séð frétt í sjónvarpinu um vaxandi vinsældir handverksbrugghúsa í Danmörku. Hér á landi var engin hefð fyrir slíku enda er ótrúlega stutt síðan bjórinn var leyfður hér á landi,“ segir Ester.

Að sögn Esterar er Kaldi bruggaður eftir tékkneskri hefð sem gerir hann ferskan, bragðmikinn og ljúffengan.

Köld að kýla á þetta

Með ótrúlegt hugrekki og óbilandi trú á gæðum íslenska vatnsins tókst þeim Ólafi Þresti Ólafssyni og Agnesi Önnu Sigurðardóttur að stofna fyrsta handverksbrugghúsið á Íslandi. „Mamma hefur alltaf sagt að þeirra styrkur hafi falist í því að viðurkenna hvað þau vissu lítið. Þau fengu strax til sín tékkneskan bruggmeistara sem kenndi þeim að brugga bjór eftir tékkneskum stíl, búa til uppskriftir og velja hágæða hráefni.“

Tékkneski bruggstíllinn er sérstakur að því leyti að ekki er notaður sykur í ferlinu. „Einu hráefnin í Kalda eru bygg, humlar og vatn. Það tekur oftast fjórar vikur að brugga bjórinn en bruggunartíminn fer eftir tegundum. Notkun sykurs flýtir fyrir ferlinu og styttir um helming. Kaldi bjór inniheldur engin rotvarnarefni og er ekki gerilsneyddur og endingartíminn er því ekki nema fimm mánuðir. Á móti kemur að hann er ferskari fyrir vikið og kemur í sínu hreinasta formi.

Tékkneski stíllinn er klárlega það sem einkennir Kalda bjór. Svo flytjum við inn hágæða hráefni frá aðilum sem selja eingöngu til minni framleiðenda. Við erum að búa til alvöru bjór og það á að vera bragð af honum. Vatnið fáum við beint úr Krossafjalli sem stendur fyrir ofan okkur hér á Árskógssandi. Við gætum aldrei bruggað Kalda bjór annars staðar því bragðið liggur að vissu leyti í ferska vatninu sem rennur hér.

Nafnið kemur svo frá Þorsteini bróður,“ segir Ester. „Mamma og pabbi voru lengi búin að velta fyrir sér nafni. Svo bar Kalda-nafnið á góma og varð það fyrir valinu. Nafnið vitnar í tvennt. Annars vegar í staðsetninguna og kuldann, en við erum stödd á Norðurlandi á Íslandi. Þá tengist það sjómennskunni, en það er talað um „kalda“ þegar það er mikil ölduhæð og erfitt að fara út á sjó. Hin merkingin er sú að Þorsteini fannst foreldrar okkar einfaldlega svo kaldir að kýla á þetta.“

Kaldi bruggar líka sérbjóra og selur beint á dælu.

Óvissa og spenna

Bruggsmiðjan stækkaði fljótt eftir fyrstu framleiðslu. „Fyrstu mánuðirnir voru auðvitað spennandi en á sama tíma ríkti mikil óvissa. Þetta var fyrsta handverksbrugghúsið á Íslandi og fólk hélt að mamma og pabbi væru hálfklikkuð að fara út í þetta. En markmið þeirra var alltaf að gera hlutina eins og vel og hægt væri og spara ekkert í gæðum. Þau leituðu hjálpar og fengu til sín mikið af færu fólki. Það þurfti að reisa hús, fjárfesta í bruggbúnaði og ráða til sín starfsfólk. Mamma og pabbi vissu alltaf að þetta yrði heilmikil áhætta, en þetta var allt þess virði þegar þau smökkuðu fyrsta bjórinn. Þau vissu í raun ekki hvaða vöru þau væru með í höndunum fyrr en einni viku áður en bjórinn fór á markað. Kaldi kom skemmtilega á óvart.“

Bruggsmiðjan Kaldi ruddi að vissu leyti brautina fyrir önnur handverksbrugghús og var algengt að nýstofnuð brugghús heimsæktu Kalda til að leita ráða og þekkingar. „Í dag eru um 30 brugghús í Sambandi íslenskra brugghúsa, en við vorum fyrst fyrir 15 árum. Síðan hefur runnið mikið vatn til sjávar og við fögnum sífjölgandi brugghúsum víða um land og að bjórmenningin á Íslandi fari sífellt vaxandi. Við höfum alltaf verið varkár og passað að stækka frekar hægt en hratt. En þetta hefur samt gerst hraðar hjá okkur en við sáum fyrir. Fyrst framleiddum við um 150-170.000 lítra á ári en í dag á venjulegu ári erum við að framleiða um 700.000 lítra.“

Nýjungar á leiðinni

„Við byrjuðum á ljósum bjór sem er tékkneskur pilsner og bættum svo við dökkum sem er líka tékkneskur pilsner. Í dag erum við með fimm bjóra til sölu almennt. Einnig gefum við út árstíðabundna bjóra og höfum gert samstarfsbjór með Borg brugghúsi. Svo bruggum við sérbjóra sem við seljum beint á dælur. Í júlí verða grunnbjórarnir okkar sex talsins en þá bætist við light bjór, sem við höfum haft áður en vék fyrir annarri tegund á sínum tíma. Hann verður seldur í dósum sem er líka alger nýjung hjá okkur.“

Kaldi hefur framleitt nokkra léttbjóra og segir Ester að spennandi sprenging sé að eiga sér stað á íslenskum markaði þegar kemur að léttöli og áfengislausum bjór. „Eins og er höfum við ekki tök á að framleiða meira en við gerum. Við erum með fólk á næturvöktum, framleiðum allan sólarhringinn og fullnýtum allan okkar tækjabúnað. Því höfum við ekki færi á að taka þátt í þessari sprengju en það verður klárlega næsta skref hjá okkur þegar við öðlumst bolmagn til að framleiða meira.“

Bjórböðin eru fyllt óáfengum vítamín- og steinefnaríkum bjór sem gerir húðina silkimjúka

Notaleg bjórböð

Á Árskógssandi, í bruggsmiðju Kalda, er að finna einstaka heilsulind sem hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana. „Bjórböðin okkar eru sett upp að tékkneskri fyrirmynd og opnuðum við þau árið 2017. Þetta eru sjö kör og hvert þeirra er staðsett í aflokuðu herbergi þar sem pör eða tveir vinir geta slakað á í næði.

Við erum fyrst til að bjóða upp á svona á Norðurlöndunum og höfum fengið gríðarlega góðar viðtökur. Aðsóknin hefur farið fram úr björtustu vonum og það er sama hvort það sé sumar eða vetur, við tökum á móti mun fleiri gestum en við gerðum ráð fyrir í byrjun. Gestahópurinn er líka afar fjölbreyttur og samanstendur jafnt af innlendum sem og erlendum ferðamönnum.

Það er um að gera að njóta sín í útipottunum í fallegu landslagi

Við sérbruggum bjórinn sem rennur í böðin og er hann óáfengur. Þá nýtum við líka gerið sem við töppum af í framleiðslunni en það er stútfullt af B-vítamíni og steinefnum sem gera húðina silkimjúka. Útsýnið úr böðunum er líka stórkostlegt og fólk horfir úr þeim yfir Eyjafjörðinn og yfir í Hrísey. Stundum heimsækja hvalir svo fjörðinn og sjást þá frá böðunum. Eftir baðið býðst fólki að slaka á í 30 mínútur í sérstöku slökunarrými og mælum við með að fólk sturti ekki af sér bjórinn strax.“