„Iceland Travel var stofnað árið 1937 og er elsta ferðaþjónustufyrirtækið á Íslandi. Það kemur inn á allar tegundir ferðaþjónustu, allt frá einstaklingum upp í hvata- og ráðstefnuferðir og yfir í skemmtiferðaskip,“ segir Sesselja Dagbjört Gunnarsdóttir, yfirmaður hvata- og ráðstefnudeildar. „Þessi fjölbreytta þjónusta, áratugalöng reynsla okkar og fjöldi tungumálanna sem starfsmenn tala, er það sem gefur fyrirtækinu sérstöðu á markaðnum.“

„Það má segja að við höfum verið fremst í flokki í áratugi,“ segir Heiður Dögg Sigmarsdóttir, kerfisstjóri ráðstefnudeildar. „Við erum líka hluti af svo stóru ferðaþjónustufyrirtæki að við erum vel sett til að bjóða upp á sérupplifanir fyrir okkar gesti sem önnur fyrirtæki eiga erfitt með að veita. Ef þú vilt búa til sérupplifun, hvort sem það er viðburður, gala-dinner, partí eða ferð út á land, getum við gert það á einstakan hátt, nokkuð sem önnur fyrirtæki eiga erfitt með að skapa, því við höfum bæði þessa gríðarlegu reynslu og mjög sterka innviði.“

Glænýtt og nútímalegt stjórnkerfi

„Við erum líka komin með glænýtt og mjög öflugt viðburðastjórnunarkerfi sem heldur utan um ráðstefnur að öllu leyti fyrir þátttakendur, en kerfið var tekið í gagnið í fyrra,“ segir Sesselja. „Það heldur meðal annars utan um skráningu þátttakenda, notendavirkni og ágrip sem er hægt að móttaka ef svo ber undir. Kerfið býður upp á APP, skoðunarkannanir og einnig þann möguleika að hafa ráðstefnuna stafræna, í persónu, eða blöndu af hvoru tveggja.“

Iceland Travel getur sett saman viðburði af öllum stærðum, en hefur helst þjónustað hópa innan heilbrigðis-, mennta- og vísindageirans. MYND/AÐSEND

„Það er það nýjasta í bransanum að hafa ráðstefnur bæði á netinu og í persónu. Með þessu nýja kerfi getum við boðið upp á alla þjónustu sem fylgir ráðstefnum, hvernig sem þær eru haldnar, á mjög þægilegan og aðgengilegan hátt,“ bætir Heiður við.

Sjá um allt frá A-Ö

„Ráðstefnu- og viðburðadeild Iceland Travel hefur séð um innlendar og erlendar ráðstefnur í áratugi, margar hverjar innan heilbrigðis- og vísindageirans. Við höfum til að mynda séð um loftslagsráðstefnuna Arctic Circle, Læknadaga, ýmiss konar norrænar ráðstefnur og Sjávarútvegssýninguna í Laugardalshöll, ásamt smærri viðburðum fyrir ráðuneyti og aðra aðila. Sem dæmi má nefna alls kyns vísindaráðstefnur fyrir Veðurstofuna, sem fjalla um allt sem viðkemur jöklum, loftslagsbreytingum, jarðhræringum og eldgosum,“ segir Sesselja.

„Við teljum okkur vera eina fyrirtækið sem getur boðið allt frá A-Ö. Við getum skipulagt allt sem viðkemur verkefnastjórn svo sem: skráningu, þátttöku, bókun á mat og drykk, ferðir, bókanir á innanhússrýmum, ásamt flugi og gistingu fyrir gestafyrirlesara en nefndir sjá um faglega tengingu,“ segir Sesselja. „Fyrirtækið í heild hefur mikið verið að þjóna erlendum gestum, en ráðstefnu- og viðburðadeildin á meira erindi við Íslendinga.

Við tökum á móti beiðnum af öllum stærðum og gerðum og það skiptir í raun engu máli hver á í hlut, þó við höfum helst verið að þjónusta hópa innan heilbrigðis-, mennta- og vísindageirans. Við störfum ekki einungis í Reykjavík, heldur erum við til dæmis að sjá um viðburði á Akureyri og Siglufirði í haust og svo á Egilsstöðum á næsta ári,“ segir Sesselja. „Við getum boðið þjónustu okkar um allt land og kappkostum að veita bestu, mögulegu þjónustuna á sem hagstæðasta verði hverju sinni.“

„Við bjóðum líka upp á almenna viðburði fyrir fyrirtæki og alls konar hópa, ársfundi, vorferðir, árshátíðir og slíkt. Alls konar hópefli og húllumhæ,“ segir Heiður.


Hægt er að hafa samband við Iceland Travel í gegnum heimasíðu fyrirtækisins, www.icelandtravel.is eða í netfangið mice@icelandtravel.is