„Fólk hlær stundum að því að einhverjum geti þótt bókhald skemmtilegt en staðreyndin er sú að okkur finnst það og við erum stolt af því,“ segir Birna Mjöll Rannversdóttir, löggiltur endurskoðandi og sviðsstjóri á bókhaldssviði KPMG.

„Starf bókarans er líflegt og fjölbreytt því bókarar vinna náið með starfsfólki ólíkra fyrirtækja og oftar en ekki myndast góð tengsl þar á milli. Þjónustan er af­slöppuð og notaleg, viðskiptavinir okkar einblína á það sem þeir gera best í sínum fyrirtækjarekstri og leyfa okkur að sjá um bókhaldið og launaútreikninginn. Það er nefnilega oft sem bókhald mætir afgangi hjá minni fyrirtækjum þar sem eigendurnir eru allt í öllu. Þá verður bókhaldsvinnan oft að kvöð sem þarf að sinna á tímum þegar fólk ætti frekar að verja tímanum í annað, til dæmis að eiga gæðastundir með fjölskyldunni. Því er tilvalið að við sjáum um það sem okkur þykir svo skemmtilegt og að viðskiptavinir okkar sinni sínum rekstri – og allir eru glaðir,“ segir Birna.

KPMG Bókað bylting í bókhaldi

„KPMG Bókað býður rafræna bókhaldsþjónustu fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Með því að láta okkur um bókhaldið losna stjórnendur fyrirtækjanna við allt umstangið sem því fylgir. Þannig er hægt að segja að stjórnendur úthýsi áhyggjum sínum og fái aðgang að sínum eigin bókara, góðu og lifandi yfirliti yfir reksturinn og uppskeri um leið meiri tíma til að sinna starfsemi sinni,“ upplýsir Birna.

„Eftir því sem við best vitum vorum við fyrsta bókhaldsstofa landsins til að bjóða bókhaldsþjónustu sem er alfarið rafræn, en það eru sex ár síðan við hófum þessa vegferð. Við fundum fyrir því að markaðurinn kallaði í meira mæli eftir rafrænum lausnum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Þeim verkefnum hefur fjölgað jafnt og þétt hjá okkur á undanförnum árum. Fyrirtæki tóku því fegins hendi að geta loks skilað bókhaldsgögnum rafrænt. Flestir skanna bókhaldsgögnin sín eða taka af þeim myndir og senda okkur í gegnum síma eða með tölvupósti. Þetta er bæði einfalt og þægilegt og á sama tíma umhverfisvænt. Sumir viðskiptavina okkar kjósa þó að koma með pappírinn og í þeim tilvikum sjáum við um að skanna gögnin,“ útskýrir Birna og heldur áfram:

„Í þjónustulínu KPMG Bókað græjum við bókhald og afstemmingar ásamt launaútreikningi. Í framhaldinu er ársreikningur og skattframtal unnið af sérfræðingum hjá KPMG.“

Á bókhaldssviði starfa 60 manns á sextán starfsstöðvum KPMG á landinu en í heild starfa um 270 manns hjá KPMG.

„Við erum dugleg að leita til annarra sérfræðinga hjá KPMG sem oft vita betur en við þegar á þarf að halda, hvort heldur sem það er á sviði endurskoðunar, skatta og lögfræði, eða ráðgjafar. Þannig aðstoðum við viðskiptavini okkar að finna réttu lausnirnar fyrir þeirra rekstur,“ segir Birna.

Tilbúin í breytta heimsmynd

Fjárfesting KPMG í rafrænu bókhaldskerfi kom sér vel þegar heimsfaraldur Covid-19 brast á.

„Þegar fyrstu samkomutakmarkanir voru settar á var allt tilbúið og okkur varð ljóst að fjárfesting í rafrænum kerfum gerði gæfumuninn. Það hefði ekki verið neitt grín ef við hefðum ekki átt svör við breyttri heimsmynd en þess í stað varð engin töf á okkar bókhalds- og launaþjónustu. Starfsfólkið gat strax sett upp vinnuaðstöðu heima og var farið að vinna klukkutíma síðar. Það skiptir engu hvar við erum stödd við okkar vinnu, stöðluð vinnubrögð og tæknivætt umhverfi gerir það að verkum að við eigum auðvelt með að leysa hvert annað af, til dæmis ef upp koma veikindi eða frí. Því getur starfsmaður á Höfn eða Egilsstöðum stokkið samstundis inn í verkefni ef aðstoð vantar í Reykjavík eða öfugt. Staðsetningin er óháð vinnunni þar sem bókhaldsgögnin eru geymd í skýinu,“ greinir Birna frá.

Góð yfirsýn yfir fjárhagsgögn

KPMG er ein stærsta bókhaldsstofa landsins.

„Alls sjáum við um bókhald og launaútreikning fyrir á annað þúsund fyrirtæki. Við veitum góða og alhliða þjónustu, erum sveigjanleg, léttum undir með fólki og leysum verkin okkar hratt og vel. Bókhaldsþjónustan er unnin af fagfólki því lykilatriði er að bókhald sé vel unnið og að stjórnendur geti tekið ákvarðanir byggðar á réttum upplýsingum hverju sinni. Viðskiptavinir okkar geta nálgast upplýsingar um rekstur fyrirtækja sinna á einfaldan og aðgengilegan hátt með því að fara sjálfir inn í bókhaldskerfi KPMG Bókað, eða með því að fá sendar skýrslur sem margir nýta sér reglulega,“ upplýsir Birna.

„Hugarró er tilfinning sem við viljum að viðskiptavinir okkar upplifi; að þeir séu áhyggjulausir þegar kemur að bókhaldi og launaútreikningi enda er sú vinna í höndum sérfræðinga KPMG,“ segir Birna að lokum. n

Höfuðstöðvar KPMG eru í Borgartúni 27. Sími 545 6000. Nánari upplýsingar á bokad.is