Stígvélaði kötturinn kemst að því sér til mikillar skelfingar, þegar hann vaknar hjá lækni eftir að hafa orðið undir risastórri bjöllu í átökum við skrímsli, að þetta er í áttunda skipti sem hann glatar lífi sínu. Hann á bara eitt líf eftir.

Hann hefur sólundað lífum sínum í alls kyns fífldirfsku, allt frá því að þvælast inn í hlaup hjá nautahópi til þess að fletjast út undir japönskum súmóglímumanni.

Í fyrstu lætur Stígvélaði kötturinn þetta sem vind um eyru þjóta en eftir að hann tapar slagsmálum við úlf sem hann er sannfærður um að sé mannaveiðari ákveður hann að leggja skikkjuna á hilluna og verða húsköttur hjá Mama Luna.

Líður svo tíminn og Stígvélaði kötturinn er kominn með skegg og farinn að vingast við nafnlausan hund. Þeirra samtal tekur þó skjótan endi þegar glæpagengið Gullbrá og birnirnir þrír birtast í leit að honum.

Eftir að gengið finnur gröf hans verður Gullbrá og björnunum það á að upplýsa Stígvélaða köttinn um óskastjörnu. Kortið sem vísar leiðina að óskastjörnunni er í höndum Stóra Jack Horner sem hyggst nýta óskastjörnuna til að sölsa undir sig allan galdramátt í heiminum. Þegar Stígvélaði kötturinn reynir að stela kortinu hittir hann óvænt á ný Kitty Softpaws sem vill fá kortið fyrir sig. Ásamt Perrito tekst þeim að komast undan Gullbrá og Jack og stefna á Myrkaskóg þar sem óskastjarnan er.

Þau komast að því að leiðin að stjörnunni fer eftir því hver heldur á kortinu. Leiðirnar fyrir þann stígvélaða og Kitty eru ógnvænlegar en leiðin hjá Perrito er auðveld svo þau leyfa honum að hafa kortið. Á leiðinni klippir Kitty skeggið af kettinum. Perrito eltir prik og lendir í klónum á Jack. Stígvélaði kötturinn og Kitty ná að frelsa hann en kötturinn fer að sjá ofsjónir um úlfinn sem er enn á hælum hans og hleypur á brott sem verður til þess að þau glata kortinu í hendur Gullbráar.

Hefst nú æsispennandi atburðarás sem ekki má segja frá vegna þess að það eyðileggur fyrir þeim sem vilja sjá myndina.

Laugarásbíó, Smárabíó, Sambíóin Álfabakka, Kringlunni, Egilshöll, Keflavík og Akureyri og Háskólabíó

Fróðleikur:

  • Aðstandendur myndarinnar segja að spagettívestrinn The Good, the Bad and the Ugly (1966) hafi orðið þeim innblástur við gerð myndarinnar.
  • Í enskri útgáfu myndarinnar talar Ray Winstone fyrir einn bjarnanna.
  • Framleiðendur myndarinnar ákváðu að hverfa frá „raunveruleika“-grafíkinni, sem notuð var við gerð Shrek og upphaflegu myndarinnar um Stígvélaða köttinn til að ljá ævintýrum þessarar myndar stórfenglegri ævintýraljóma.

Frumsýnd 26. desember 2022

Aðalhlutverk:

Valur Freyr Einarsson, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Árni Beinteinn Árnason, Björgvin Franz Gíslason og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir

Handrit:

Paul Fisher

Leikstjórn:

Joel Crawford og Januel Mercado

Íslenskt tal

Leyfð öllum

Puss in Boots (Antonio Banderas) in DreamWorks Animation’s Puss in Boots: The Last Wish, directed by Joel Crawford.