Aðalsýning Hönnunarsafns Íslands um þessar mundir hefur vakið mikla athygli, en þar má sjá gott yfirlit yfir verk Kristínar Þorkelsdóttur hönnuðar. „Kristín er einn af frumkvöðlum í grafískri hönnun hérlendis og stofnandi auglýsingastofunnar AUK. Verk hennar eru fyrir löngu orðin hluti af okkar daglega lífi. Við erum með þau í höndunum svo að segja á hverjum degi, því Kristín er hönnuður fjölmargra umbúða utan um matvæli og höfundur núgildandi peningaseðlaraðar, sem hún vann ásamt hönnuðinum Stephen Fairbairn,“ segir Sigríður, en Kristín hefur einnig hannað urmul auglýsinga og þjóðþekkt merki, sem mörg hafa verið í notkun í áratugi. Má þar nefna merki Byko, MS og Osta- og smjörsölunnar.

Kristín Þorkelsdóttir, ásamt eiginmanni sínum Herði Daníelssyni og sonardætrunum Högnu og Hörpu Kristínu. MYND/AÐSEND

„Það eru miklar og skemmtilegar pælingar á bak við allt sem Kristín hannar, hvort sem það eru peningaseðlar eða bókahönnun. Hún vinnur mikið í höndunum, teiknar og stimplar og gerir mikið af tilraunum. Þetta má allt sjá á sýningunni,“ segir Sigríður. Sýningarstjórar eru Arnar Freyr Guðmundsson, Birna Geirfinnsdóttir og Bryndís Björgvinsdóttir, en þau völdu að fara mjög litríka og ef til vill óhefðbundna leið í framsetningu á ævistarfi Kristínar.

Kristín hannaði umbúðir um smjör, sem allir þekkja.

Litun með íslenskum jurtum

Í Hönnunarsafninu er rannsóknarými, en þar fá hönnuðir og fræðimenn tækifæri til að sinna sérstökum rannsóknarverkefnum sem tengjast hönnun á einhvern hátt. „Sigmundur Freysteinsson fatahönnuður hefur undanfarið unnið markvisst að rannsóknum á litun á textíl með íslenskum jurtum og kallast verkefnið Náttúrulitun í nútíma samhengi,“ segir Sigríður.

Sigursteinn Freysteinsson fatahönnuður vinnur að rannsóknum á jurtalitun í rannsóknarrými Hönnunarsafnsins. Hann hefur byggt upp safn af jurtalitatónum og 450 litaprufur eru komnar upp á vegg til sýnis. MYND/AÐSEND

Sem dæmi notar Sigmundur lit úr blómi lúpínunnar og litar ull, bómull, hör og bómullarblöndu og þannig sést hvernig jurtaliturinn kemur út í hverju efni fyrir sig. „Hann er búinn að byggja upp safn af alls konar jurtalitatónum, en 450 litaprufur eru komnar upp á vegg og eru þar til sýnis. Frábært er að fylgjast með þessum unga hönnuði sem er á leið í meistaranám til Kýótó,“ segir Sigríður.

Vert er að benda á að í safnbúð Hönnunarsafnsins eru til sölu vörur eftir íslenska hönnuði, sem á einhvern hátt tengjast sýningum eða safneign safnsins. Í anddyri safnsins er einnig gestavinnustofa en þar dvelja hönnuðir og handverksfólk í nokkrar vikur í senn og vinna fyrir framan gesti, en þeirra verk eru oft til sölu í búðinni, að sögn Sigríðar.

Á vegum Hönnunarsafnsins í sumar er starfrækt listasmiðja fyrir börn. Lögð er áhersla á sköpunarferlið og hvað hægt er að gera úr ótrúlegustu hlutum.

Smiðjur fyrir grunnskólanema

Stutt er síðan Hönnunarsafnið fékk stórt aukarými, sem Sigríður segir hafa verið algjöra byltingu. „Þessi stækkun hefur gjörbreytt allri okkar starfsemi. Með henni fengum við kærkomið tækifæri til að taka á móti grunnskólanemum yfir vetrartímann. Í fyrra komu um 300 nemendur til okkar og heimsóttu sýningar og tóku þátt í smiðjum. Þar vinna þau verkefni sem starfsfólk Hönnunarsafnsins og utanaðkomandi sérfræðingar, listamenn og hönnuðir hafa umsjón með og þetta hefur gengið frábærlega vel,“ segir hún, en í ár má búast við að 1.200 nemendur komi í heimsókn á Hönnunarsafnið.

„Um er að ræða mjög áhugavert prógramm, því það þarf að vanda vel til verka til að kveikja áhuga hjá börnunum. Í vetur vorum við meðal annars með sýningu á ull og nemendur fengu kynningu á ullinni og hvernig hún er unnin, og rætt var um nýsköpun og endurvinnslu. Þau fengu að koma við efnið og vinna með það á sínum forsendum,“ segir Sigríður.

Inni í smiðjunni eru einnig skemmtileg leikborð fyrir börn jafnt sem fullorðna, sem eru tileinkuð Einari Þorsteini Ásgeirssyni heitnum, arkitekt og stærðfræðingi. „Hönnunarsafnið á fjölda verka eftir Einar og í smiðjunni geta börn og fullorðnir leikið sér með alls konar verkefni sem tengjast stærðfræði,“ greinir Sigríður frá og bætir við: „Við munum halda ótrauð áfram að bjóða skólahópum að taka þátt í verkefnum sem tengjast sýningum hverju sinni, en í haust verður hönnun Kristínar Þorkelsdóttur í brennidepli og spennandi að sjá hvað kemur út úr því.“

Þessa dagana er Sveinbjörn Gunnarsson módelsmiður í vinnustofudvöl í safninu. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Spennandi vetrardagskrá

Þegar er búið að leggja drög að dagskrá næsta vetrar og þar kennir ýmissa grasa. „Í rannsóknarýminu verða arkitektateikningar eftir Högnu Sigurðardóttur í brennidepli. Fyrir ári síðan fengum við kassa með teikningunum hennar og við ætlum að taka þær upp, skoða þær og skrá og gestum Hönnunarsafnsins gefst tækifæri til að fylgjast með þeirri vinnu,“ segir Sigríður.

Sveinbjörn Gunnarsson módelsmiður er í vinnustofudvöl í safninu til 19. september. Í stóra sýningarsalnum verður sýning sem snýr að sundlaugamenningu á Íslandi. „Hún er unnin í samstarfi við þjóðfræðideild Háskóla Íslands,“ segir Sigríður að lokum.

Hönnunarsafnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17. Nánari upplýsingar: honnunarsafn.is