Mikilvægt er að fyrirtæki láti til sín taka þegar að því kemur að vinna að heimsmarkmiðunum, því með þeim er kominn alþjóðlegur vegvísir sem getur tryggt fólki um allan heim betra líf, án þess að illa sé farið með jörðina,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Í byrjun árs 2017 var ákveðið að Landsvirkjun legði sérstaka áherslu á þrjú heimsmarkmiðanna: Markmið 5 um jafnrétti kynjanna, 7 um sjálfbæra orku og 13 um aðgerðir í loftslagsmálum. Síðan þá hefur verið unnið mikilvægt starf við að fella markmiðin inn í stefnu fyrirtækisins og starfsemi.

Vinnustofur um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Árið 2019 voru tekin frekari skref að innleiðingu heimsmarkmiðanna í starfsemi Landsvirkjunar, auk markmiða 5, 7 og 13. Viðfangsefnið var hvernig draga mætti betur fram áherslu á sjálfbærni í starfsemi fyrirtækisins. Starfsfólkið kom saman og ræddi um núverandi- og framtíðaráherslur fyrirtækisins. Í ljós kom að heilmikið er gert nú þegar innan fyrirtækisins sem tengja mátti við heimsmarkmiðin en einnig komu fram fjölmargar hugmyndir til að gera betur.

Innan þróunarsviðs var unnið áfram að því að tengja heimsmarkmiðin við stefnumið sviðsins og hvernig starfsfólkið gæti enn frekar unnið að sjálfbærni. Þessi vinna leiddi til aukinnar vitundar um heimsmarkmiðin og hvernig verkefni sviðsins styðja við þau. Í kjölfarið voru haldnar vinnustofur um heimsmarkmiðin fyrir allt fyrirtækið, til að gefa þátttakendum tækifæri á að auka við þekkingu sína á heimsmarkmiðunum og sjá tækifæri til að gera enn betur.

Dagný Jónsdóttir og Anna Elín Bjarkadóttir áhugasamar að kynna sér heimsmarkmiðin.

Haldnar voru tólf vinnustofur þar sem starfsfólk tók þátt í að tengja heimsmarkmiðin við sín daglegu störf til að auka sjálfbærni innan tiltekinna verkefna. Starfsfólk skoðaði einnig starfsemi fyrirtækisins í heild, út frá heimsmarkmiðunum, og lagði mat á forgangsröðun þeirra.

Vinnustofurnar vörpuðu ljósi á hversu metnaðarfull og framsækin aðgerðaáætlun heimsmarkmiðin eru. Leitast var við að svara því hvernig hægt væri að gera slík markmið að staðbundnum verkefnum og aðgerðum. Starfsfólk skilgreindi sín daglegu störf og verkefni sviða og þau áhrif sem það taldi sig hafa með þeim á umhverfi, samfélag eða efnahag. Að lokum var þremur heimsmarkmiðum forgangsraðað, annars vegar fyrir sviðið og hins vegar fyrir Landsvirkjun í heild.

Á vinnustofunum kom fram að auk heimsmarkmiðanna sem Landsvirkjun hefur sett í forgang taldi starfsfólk að leggja mætti aukna áherslu á heimsmarkmið 8 um góða atvinnu og hagvöxt, heimsmarkmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu og heimsmarkmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu.

Afraksturinn hefur nýst og mun nýtast í að ákvarða frekari áherslur Landsvirkjunar og í breiðari stefnumótun um sjálfbærni fyrirtækisins. Fyrr á þessu ári samþykkti stjórn Landsvirkjunar uppfærða stefnu þar sem forysta í sjálfbærri þróun er ein af lykiláherslum.

Þrjú verkefni í vefgátt

Í júlí 2019 opnuðu íslensk stjórnvöld gátt á vef stjórnarráðsins, heimsmarkmidin.is, þar sem öllum er frjálst að koma áherslum og hugmyndum tengdum heimsmarkmiðunum á framfæri. Þrjú verkefni Landsvirkjunar sem styðja við heimsmarkmiðin Græn skuldabréf eru: „Að virkja jafnréttið í Landsvirkjun“, „Græn skuldabréf Landsvirkjunar“ og „Landsvirkjun kolefnishlutlaus 2025“.

Þrjú markmið sem Landsvirkjun leggur megináherslu á

Aðgerðir í samræmi við tillögur starfsfólks

Eitt þeirra þriggja markmiða sem Landsvirkjun leggur sérstaka áherslu á er markmið 5, um jafnrétti. Fyrirtækið vinnur eftir þriggja ára aðgerðaáætlun sem var tekin í notkun árið 2017 og inniheldur 17 umbótaverkefni. Vorið 2017 hófst umfangsmikið jafnréttisverkefni með Capacent – Jafnréttisvísirinn. Þar fór fram úttekt á stöðu jafnréttismála, ekki aðeins á mælanlegum þáttum eins og kynjahlutfalli og launum heldur einnig á menningu, samskiptum og vinnuumhverfi. Árið 2019 hlaut svo Landsvirkjun Hvatningarverðlaun jafnréttismála. Í rökstuðningi dómnefndar kemur m.a. fram: „Landsvirkjun hefur lagt ríka áherslu á að skapa góða fyrirtækjamenningu þar sem jafnrétti og virðing fyrir fjölbreytileika samfélagsins liggja til grundvallar. Tekið er mið af jafnréttismálum í heildarstefnu fyrirtækisins og er ávinningurinn áþreifanlegur. Grasrót fyrirtækisins hefur verið mjög öflug og var aðgerðaáætlun jafnréttismála mynduð úr umbótatillögum starfsfólks. Umfjöllun um jafnréttismál hefur verið tekin upp með fjölbreyttum hætti og er forstjóri eigandi verkefnisins og formaður jafnréttisnefndar.“

Hnattræn orkuskipti

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 7 er annað þriggja markmiða sem fyrirtækið leggur sérstaka áherslu á. Það fjallar um að tryggja mannkyni aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði, eigi síðar en árið 2030. Landsvirkjun vinnur að fjölmörgum verkefnum sem styðja við þetta, á sviði nýsköpunar og tækniþróunar. Landsvirkjun kannar nú möguleika á framleiðslu vetnis við Ljósafossstöð. Slík framleiðsla fer fram með rafgreiningu vatns með endurnýjanlegum orkugjöfum og verður því umhverfisvæn og laus við útblástur gróðurhúsalofttegunda. Hörður Arnarson forstjóri er þeirra skoðunar „að vetni sé án efa einn af orkumiðlum framtíðarinnar og mjög spennandi kostur í baráttunni við loftslagsbreytingar. Með því að nota vetni sem miðil er hægt að flytja endurnýjanlega orku út til meginlands Evrópu og með því auka framlag okkar til þeirra hnattrænu orkuskipta sem eru óumflýjanleg.“

Kolefnishlutleysi eftir 5 ár

Þriðja markmiðið sem Landsvirkjun leggur sérstaka áherslu á er númer 13, um loftslagsaðgerðir. Fyrirtækið starfar eftir aðgerðaáætlun um kolefnishlutleysi árið 2025, en hún gengur út á að fyrirbyggja losun, draga úr núverandi losun og grípa til mótvægisaðgerða, í þeirri forgangsröð. Landsvirkjun hefur lengi lagt áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og unnið jafnframt að kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi. Í yfir 10 ár hefur fyrirtækið kortlagt og skrásett kolefnisspor sitt og birt árlega losunartölur í umhverfisskýrslum, en góð þekking á kolefnisspori og ástæðum losunar er forsenda þess að fyrirtæki geti gripið til aðgerða. Til að fyrirbyggja losun hefur Landsvirkjun m.a. sett verðmiða á losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri fyrirtækisins, þ.e. reiknað út svokallað innra kolefnisverð. Það hefur í för með sér upplýstari ákvarðanir um áhrif rekstrar á loftslagið og tekur með í reikninginn hvað það kostar fyrirtækið að verða kolefnishlutlaust. Fyrirtækið ætlar að hreinsa útblástur frá Kröflustöð og spara þannig losun upp á 22.000 tonn CO2-ígilda á ári. Þá er ætlunin að skipta yfir í hreinorku fyrir bíla og vinnuvélar fyrirtækisins og hætta að kaupa jarðefnaeldsneyti árið 2030. Þá ætlar Landsvirkjun að minnka losun vegna flugferða um 30% fram til ársins 2030.