„Fyrst vil ég segja við allar konur: Sláðu til og stofnaðu fyrirtækið sem þig hefur alltaf langað til að stofna. Láttu verða af því og hafðu sýnina skýra, því þegar erfiðleikar banka upp á er nauðsynlegt að hafa mjög skýra sýn til að gefast ekki upp.“

Þessi hvatningarorð eru Elínar Káradóttur, eiganda Byr fasteignasölu í Hveragerði. Elínu bauðst að kaupa fyrirtækið árið 2018 og hún þáði boðið.

„Já, þegar ég skrifaði undir kaupin átti ég tuttugu daga eftir í settan dag að fæða seinna barnið mitt. Síðan þá hef ég lært gríðarlega margt,“ segir Elín og hlær.

Hún segir margt að læra í fyrirtækjarekstri sem ekki er hægt að undirbúa sig fyrir í skóla.

„Maður þarf að kunna sitt fag, líka að vera góður sálfræðingur, fjármálaráðgjafi, félagsráðgjafi, þekkja lög og reglur, og allt þar á milli, en umfram allt að þekkja sjálfan sig best. Maður þarf að hafa skýra sýn og fjárfesta í sjálfum sér, því þegar upp er staðið byrjar allt og endar á manni sjálfum. Í fyrirtækjarekstri þarf maður að treysta á sjálfan sig; allt annað kemur með tímanum. Maður getur ekki lært allt fyrir fram, heldur þarf að læra með því að framkvæma og gera mistök.“

Elín staldrar við.

„Mistök. Já, ræðum aðeins mistök. Ég hef gert fullt af mistökum og með þeim orðið reynslumeiri og hæfari til að leiðbeina öðrum. Mistök eru nauðsynleg til að þroskast og verða betri í sínu fagi. Auðvitað eru mistökin misjafnlega stór og kostnaðarsöm, en ég hef haft fyrir reglu að hugsa um hvert verkefni sem inn á borð kemur hjá mér sem námskeið sem ég þarf að fara í gegnum. Ég horfi oft á fyrirtækjarekstur sem skóla og margir kalla það „skóla lífsins“. Með því hugarfari er auðveldara að fara í gegnum öll verkefni sem koma og fara.“

Elín hvetur konur til að fjárfesta.

„Það er ekki nóg að stofna bara fyrirtæki og vera þar á hamstrahjóli. Sjálf er ég að fjárfesta, byrjaði mjög smátt og svo stækkar „fjárfestingaþægindaramminn“. Aðalatriðið er að byrja!“ segir Elín, spennt fyrir komandi verkefnum hjá Byr fasteignasölu, þar sem hún tekur þátt í uppbyggingarverkefnum víðs vegar um landið.

„Við seljum fasteignir um land allt og með tækninni verður æ auðveldara að þjónusta fólk, hvar sem það er,“ greinir Elín frá, spennt fyrir því að rafrænar þinglýsingar séu að verða að veruleika hjá sýslumönnum um land allt. Það liðki til, spari mörg skref, fyrirhöfn og tíma.

„Frá því að ég byrjaði árið 2018 hafa fasteignasölur þurft að tileinka sér margar nýjungar. Ég tek öllum tækninýjungum fagnandi því þær ættu að gera fasteignaviðskipti skilvirkari og fljótlegri. Það tekur gríðarlegan tíma að fá sem dæmi fjórar manneskjur til að koma og skrifa undir eitt lánaskjal, því það þarf svo að keyra til sýslumanns, sækja aftur nokkrum dögum síðar og keyra svo í bankann. Allt tekur það gríðarmikinn tíma sem væri hægt að nýta betur með tilkomu tækninnar.“

Byr fasteignasala tekur nú þátt í stórum uppbyggingarverkefnum í Hveragerði, Þorlákshöfn og á fleiri stöðum

„Ég hef trú á að sífellt fleiri átti sig á því að það eru góð lífsgæði úti á landi. Fyrir marga er auðveldara að stofna eigið fyrirtæki á landsbyggðinni en í Reykjavík. Tækifærin eru úti um land allt!“

Byr fasteign er í Austurmörk 7 í Hveragerði. Sími 483 5800. Netfang: byr@byrfasteign.is. Sjá nánar á byrfasteign.is

Þetta viðtal birtist fyrst í sérblaðinu Kvenréttindadagurinn sem fylgdi Fréttablaðinu laugardaginn 18. júní 2022.