„Því hefur verið líkt við stríðsástand þar sem ósýnilegur óvinur getur drepið mann hvenær sem er; sú óvissa, álag og umbreytingar sem urðu á vinnuumhverfi okkar í heimsfaraldrinum, enda var Covid-veiran sannarlega ósýnilegur óvinur sem gat drepið okkur, ofan á allt annað sem þá gekk á; kröfur um breytt vinnuumhverfi, nýja hæfni og Covid-veikindi sem ollu álagi á vinnustöðum fólks.“

Þetta segir Kristín Sigrún Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Hafnarfjarðarbæjar. Þar á bæ er stefnan sett á að vera Heilsueflandi vinnustaður.

„Heimsfaraldurinn leiddi af sér stöðugar breytingar, samkomutakmarkanir, reglulega endurskipulagningu á vinnustöðum, sóttvarnahólf og smitrakningu. Allt olli það miklu álagi á starfsfólk og krafðist nýrrar þekkingar og hæfni, jafnvel yfir nótt, þegar þurfti að skipta vinnustöðum í sóttvarnahólf og fundir færðust yfir í fjarfundarbúnað. Fjórða iðnbyltingin var vissulega farin að banka á dyrnar en með Covid-19 ruddist hún inn með látum; nokkuð sem sérfræðingar í stafrænni umbyltingu áttu von á að tæki næstu einn til tvo áratugina að umbreyta. Tæknin var til, en lítið farið að nota hana, og allt í einu varð fólk tilneytt til að taka rafræna fundi á Zoom eða Teams, sem að öllu jöfnu hefði ekki gerst nema að vel skoðuðu máli með sérfræðinga í breytingastjórnun sér til halds og trausts, að tileinka sér nýja þekkingu, verklag, ferla og færni á hæfilegum hraða. En heimsfaraldur spyr ekki hvort mannkynið sé tilbúið í slaginn, hann bara mætir með tilheyrandi álagi á starfsfólk og vinnumenningu,“ segir Kristín.

Heilsuefling besta fjárfestingin

Fyrir mannauðsfólk urðu til fjölmörg ný verkefni til að mæta vanlíðan starfsfólks á tímum Covid. Aukið álag vegna breytinga, óvissuástands og krafa um nýja þekkingu og hæfni, olli enn frekari veikindafjarveru á vinnustöðum, ofan á veikindin sem Covid olli beint.

„Allt svona álag, óvissa og hraðar breytingar hafa áhrif á fólk og sumir eiga erfiðara með óvissu en aðrir. Því finnst mér kærkomið tækifæri nú að snúa vörn í sókn, þegar faraldurinn er í rénun og líf okkar að mestu leyti að verða eðlilegt, að innleiða Heilsueflandi vinnustaði á allar starfsstöðvar Hafnarfjarðarbæjar. Embætti landlæknis þróaði þetta stórkostlega verkfæri sem gerir vinnustöðum kleift að nálgast markvisst og skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilsu og vellíðan til góðs; ekki aðeins fyrir starfsfólk, heldur samfélagið allt. Því hefur Hafnarfjörður ákveðið að fara í þessa vegferð og innleiða Heilsueflandi vinnustaði á öllum sínum rúmlega sextíu starfsstöðvum,“ greinir Kristín Sigrún frá.

Þessa dagana vinnur Hafnarfjarðarbær að ráðningu verkefnisstjóra til að leiða verkefnið til næstu tveggja ára og er vonast til að verkefnið hefjist af fullum krafti í lok ágúst.

„Ég fullyrði, út frá faraldrinum og því sem á undan er gengið, að heilsuefling, hvort sem hún er líkamleg eða andleg, er með betri fjárfestingum í mannauði sem hægt er að gera í dag,“ segir Kristín.

„Nauðsynlegt er að hafa skýra mælikvarða til að mæla árangur af Heilsueflandi vinnustað og við stefnum að því að allt starfsfólk Hafnarfjarðar hafi aðgang að mælaborði til að fylgjast með árangri af verkinu. Miklu skiptir að innleiðingin verði gagnsæ, árangursrík og sýnileg, og að starfsfólkið upplifi áhrif og aukna ánægju og vellíðan í starfi. Þá vonum við að heilsuefling verði til framtíðar sjálfsagður hluti af menningu allra starfsstöðva Hafnarfjarðarbæjar og að verkefnið verði til að valdefla starfsfólk okkar til heilsueflingar og vellíðunar.“

Margt hefur bein áhrif á heilsu

Heilsueflandi vinnustaður er að vissu leyti staðall með gátlistum þar sem tekið er á átta mismunandi þáttum sem hver og einn hefur fjölmarga undirþætti.

„Það sem gerir þetta að frábæru verkfæri er að í því er tekið á mörgum þáttum heilsueflingar, svo sem stjórnun á vinnustað, sem hefur ótrúlega mikil áhrif á líðan starfsfólks; hvernig stjórnandi sinnir sínu starfi. Heilsueflandi vinnustaður tekur líka vítt á þáttum sem hafa áhrif á heilsu fólks á vinnustað; til dæmis hvaða matur er í boði, hvernig álagsstýringin er, hvernig stutt er við andlega heilsu starfsfólks, er möguleiki til heilsuiðkunar og sturta á staðnum, er fólki gert kleift að koma á hjóli í vinnuna, en einnig umhverfisþáttum eins og hvort loftgæði og hljóðvist séu góð, því svo margt hefur bein áhrif á heilsu fólks á vinnustöðum þess,“ greinir Kristín frá.

Hún hvetur öll fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til að setja Heilsueflandi vinnustað á dagskrá.

„Á einhverjum tímapunkti vona ég að Embætti landlæknis fái fjármagn til að senda menn út af örkinni og votta hvort fyrirtæki séu heilsueflandi og hvort þau standi í stykkinu þegar kemur að heilsu og vellíðan starfsmanna. Við vitum að ekki verður hægt að gera eins fyrir alla á okkar fjölmörgu starfsstöðvum. Hver einasta starfsstöð er ólík og þarf að setja sér sín eigin markmið, samanber ólíkar aðstæður og áherslur í til dæmis leikskólum, íbúðakjörnum fyrir fatlaða eða deildum sem sjá um göturnar okkar. Allt eru þetta ólík störf með ólíkar kröfur og því munum við hafa fulltrúa allra starfsmanna með í ráðum.“

Sjá nánar á hafnarfjordur.is