Garðar Cortes rak Söngskólann í Reykjavík sem einkastofnun til ársins 1978. Hann starfaði fyrst í eigin húsnæði að Hverfisgötu 45 en flutti að Laufásvegi 49 haustið 2018. Söngskólinn í Reykjavík starfar samkvæmt lögum um tónlistarskóla frá 1985 og nýtur styrkja sem nema launum kennara, samkvæmt Þjónustusamningi við Reykjavíkurborg og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Skólagjöld nemenda eiga að standa undir rekstrarkostnaði. Við skólann starfa 21 kennari með 12 stöðugildi og fjöldi nemenda er að jafnaði 100-120 hvert ár. Námsgreinar við skólann eru einsöngur, hóp- og kórsöngur og píanóleikur, auk allra hliðargreina tónlistarnámsins. Skólastjóri og listrænn stjórnandi er Garðar Cortes.

Á 48 ára starfsferli Söngskólans í Reykjavík hafa á fimmta þúsund nemendur stundað nám við skólann um lengri eða skemmri tíma.

Nemendaópera sviðsetur árlega sýningar og blómlegt tónleikahald er innan skólans, eða að jafnaði, 25-30 tónleikar á hverju skólaári. Skólinn hefur frá upphafi verið í samstarfi við Samband konunglegu tónlistarskólanna í Bretlandi, The Associated Board of the Royal Schools of Music (ABRSM). Prófdómarar frá þeim dæma öll próf skólans, svo prófskírteini njóta alþjóðlegrar viðurkenningar og auka möguleika á að sækja um styrki ABRSM til náms við tónlistarskóla sambandsins.

Meðal nemanda skólans eru Ellert Blær Guðjónsson sem stundar nám í framhaldsdeild, Margrét Björk Daðadóttir sem er sömuleiðis í framhaldsdeild og Sara Guðnadóttir, nemi í miðdeild. Nemendur voru spurðir um ástæður þess að þeir völdu Söngskólann í Reykjavík til náms.

Ellert Blær Guðjónsson söngnemi.

Hefur vaxið sem söngvari

Ellert Blær segist hafa valið skólann vegna þess að frá blautu barnsbeini hafi söngur verið það sem helst heyrðist frá honum sem barni. „Ég var í kór í grunnskóla og móðir mín stakk upp á því að ég skyldi prófa að syngja meira einn. Það var eftir að ég söng „Nóttin var sú ágæt ein“ á jólatónleikum Drengjakórs Reykjavíkur. Móðir mín hafði síðan samband við Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur söngkennara, sem tók mig í einkatíma í Langholtskirkju. Þegar frá leið kom í ljós að Söngskólinn bauð upp á þjónustu sem hentaði mér betur en hún gat boðið í kirkjunni,“ segir Ellert Blær. „Ég hef stundað nám hjá henni í Söngskólanum í Reykjavík síðan,“ bætir hann við.

Ellert stefnir á að verða atvinnumaður sem klassískur söngvari. „Ég er á samsvarandi braut og læri þar einsöng, samvinnu með píanóleikurum, góða sviðsframkomu, mannasiði og holla líkamsstöðu, auk þess að læra píanóleik, tónfræði og hljómfræði, tónhlustun og nótnalestur,“ útskýrir hann. „Ég er afar ánægður með námið í Söngskólanum. Mér fer ánægjulega fram en það eru auðvitað lautir þar sem erfitt er að öðlast næsta tól í verkfærakassann sinn. Þau tímabil þar sem allt er svo framúrskarandi ömurlegt að mér er skapi næst að snúa baki við tónlistinni eru hluti af söngnáminu, en það fyrirfinnst í jöfnum mæli á öllum þeim sviðum þar sem maður ber sjálfur ábyrgð á eigin frammistöðu. Þá er það kennarinn sem styður mann í gegn og það eru fáir sem ég er þakklátari fyrir en kennurum skólans, sem hafa ávallt hjálpað mér að yfirstíga þær hindranir sem á vegferð minni verða í gegnum námið,“ segir Ellert Blær, sem er búinn að læra söng í átta ár og er núna á sjöunda stigi.

„Ég byrjaði sem lítill sópransyngjandi kórdrengur í DKR og hef þroskast í stærri barítónsyngjandi einsöngvara í þjálfun. Ólöf Kolbrún hefur verið með mér alla tíð og er orðin hálfgerð „söngmamma“. Mér finnst einsöngurinn auðvitað bestur og þar af finnst mér frábært að flytja „lieder“ sem eru lög sem innihalda ríkan söguþráð og bjóða upp á mikla túlkun fyrir framan áheyrendur,“ segir Ellert Blær.

Margrét Björk Daðadóttir söngnemi.

Gefandi nám

Margrét Björk hóf sönginn í Gradualekór Langholtskirkju árið 2014 og ári seinna mælti kórstjórinn með því að hún færi í söngnám. „Söngskólinn og kórastarfið í Langholtskirkju hafa lengi unnið náið saman. Ég ákvað að skella mér í söngnámið og hef stundað það síðan.

Við erum öll að læra klassískan söng. Þó fáum við að velja hvaða lög við syngjum og getum lagað námið að okkur. Mér hefur líkað mjög vel við námið. Það er krefjandi og ýtir manni út fyrir þægindarammann, en er á sama tíma mjög gefandi. Einnig er mjög hjálplegt að hafa góða kennara og samnemendur í kringum sig en þar stendur Söngskólinn sig vel.

Í skólanum hef ég ekki aðeins lært að syngja, ég hef einnig eflt sjálfstraustið, eignast góða vini og lært sjálfstæð vinnubrögð, en Söngskólinn hjálpar upprennandi söngvurum að finna sína eigin rödd og hvað hentar þeim,“ segir Margrét, sem hefur stundað söngnám í fimm og hálft ár. Söngkennari hennar er Harpa Harðardóttir og Hólmfríður Sigurðardóttir er meðleikari.

Þegar hún er spurð hvað sé skemmtilegast, svarar hún: „Ég verð að segja að uppskeran er alltaf skemmtilegust, hvort sem það er stigspróf eða tónleikar. Þegar ég fæ loksins að sjá að mér hafi farið eitthvað fram. Það er líka svo gefandi að stíga út fyrir þægindarammann og stíga upp á svið. Óháð því hvernig gengur, þá er alltaf hægt að vera ánægður með sig. Geta síðan samglaðst með öðrum nemendum og fagnað því að vera búin með þetta verkefni. Einnig þykir mér mjög gaman að kynnast þeim fjölbreytta nemendahóp sem stundar nám við skólann, en nemendur eru á öllum aldri og með gjörólíka söngreynslu,“ segir Margrét.

Sara Guðnadóttir söngnemi.

Skólinn eins og fjölskylda

Sara Guðnadóttir kemur úr músíkalskri fjölskyldu og er alin upp í kringum mikla tónlist. „Ég er búin að var syngjandi síðan ég man eftir mér,“ segir hún. „Afi minn og frændfólk starfar við Söngskólann þannig að ég vissi alltaf af honum og hafði ávallt mikinn áhuga á að fara í söngnám. Þegar ég komst loksins á aldur til að geta sótt um gerði ég það og ég sé ekki eftir því,“ segir hún.

„Söngskólanum í Reykjavík er skipt upp í deildir. Þegar ég hóf

námsferilinn minn í skólanum var ég tíu ára að verða ellefu og fór því í ungdeild, sem er fyrir krakka á aldrinum átta til fimmtán ára. Ég var þar í nokkur ár og fór síðan smátt og smátt að byrja að mæta í tíma hjá grunndeildinni, sem er deildin fyrir ofan ungdeildina. Þegar ég var 16 ára hætti ég alfarið að mæta í opna ungdeild og fór að mæta í opna grunndeild. Ég var þar í um þrjú ár samanlagt, tók grunnpróf í söng og tónfræði og fór síðan yfir í miðdeild. Núna er ég í miðdeild og stefni á að taka miðpróf í söng og tónfræði á næsta skólaári og mun líklegast fara yfir í framhaldsdeild eftir það,“ segir Sara og bætir við að námið hafi reynst henni rosalega vel.

„Þetta er krefjandi nám en jafnframt hvetjandi og lærdómsríkt, en á sama tíma gífurlega mikil skemmtun. Það koma upp alls konar tækifæri þegar maður er í svona námi. Ég hef tekið þátt í mörgum uppsetningum á vegum skólans, til að mynda Kalla og sælgætisverksmiðjunni, Skilaboðaskjóðunni, Töfraflautunni og Fiðlaranum á þakinu. Í síðustu uppsetningu skólans fékk ég þann heiður að vinna með Þórhildi Þorleifsdóttur, sem er stórt nafn í leik- og söngheiminum. Það var lífsreynsla sem kenndi mér margt í þessum bransa. Námið ýtir manni smávegis út fyrir þægindarammann og stækkar hann á sama tíma,“ segir Sara, sem hefur stundið nám við Söngskólann í Reykjavík í bráðum sjö ár.

„Ég byrjaði í skólanum árið 2014 og er búin að læra heilmargt í gegnum árin sem mun hjálpa mér í framtíðinni varðandi tónlist, leik og framkomu á ýmsum sviðum,“ segir hún, en kennari Söru er Sibylle Köll. „Ég er ævinlega þakklát fyrir að vera nemandi hennar því hún er áhrifamikill kennari. Þegar maður er búinn að vera með sama söngkennara í svona langan tíma þá myndast ákveðið samband sem er byggt á trausti sem manni þykir vænt um. Hún er frábær í því sem hún gerir og ég mæli tvímælalaust með henni. Hún er mikil fyrirmynd,“ segir Sara.

„Mér finnst mjög skemmtilegt í skólanum og þykir vænt um þetta litla samfélag. Við erum eins og ein lítil fjölskylda. Maður myndar endalaus vinatengsl og fólkið er yndislegt, starfsfólkið og nemendur. Eitt það skemmtilegasta sem ég geri í lífinu er að koma fram og syngja eða leika. Það er ólýsanleg tilfinning að standa uppi á sviði í einhverjum ham að syngja úr sér lungun en það er einmitt eitt af því sem Söngskólinn hefur upp á að bjóða.“