„Fyrir nokkrum árum var sonur minn, þá tólf ára, með örstuttum fyrirvara, beðinn að vera með í fótboltaliði á Unglingalandsmóti UMFÍ. Við ákváðum að slá til. Við höfðum aldrei farið á Unglingalandsmót, svo það var ekki seinna vænna,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir frá Akranesi, sem er formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Fjölskyldan sér ekki eftir því að hafa skellt sér,“ segir hún.

„Drengurinn keppti í fótbolta, sundi og stafsetningu og hafði gríðarlega gaman af þessu. Mótið var mjög vel skipulagt, stemningin góð og upplifunin frábær fyrir alla fjölskylduna.“

Bjarnheiður segir snilldina við Unglingalandsmót UMFÍ skýrast af því að það er við allra hæfi. Afreksfólk sem ætli sér stóra hluti geti tekið þátt með sama hætti og þau sem ekki leggi stund á hefðbundnar íþróttir.

„Síðan er dagskráin ótrúlega fjölbreytt og skemmtileg, allir geta tekið þátt á eigin forsendum,“ segir hún.

„Ég get af heilum hug mælt með landsmóti UMFÍ og hvet því allar barnafjölskyldur til að prófa og eiga saman ógleymanlega helgi.“