Ég hef samt miklu lengri reynslu af að kenna ritlist, það hef ég gert síðan ég kynntist slíkri kennslu í Svíþjóð fyrir rúmum þrjátíu árum,“ segir Björg Árnadóttir, eigandi Stílvopnsins, en hún kennir öll námskeiðin sjálf. Björg, sem er rithöfundur, blaðamaður, ritlistar- og myndlistarkennari, hefur einnig M Ed gráðu í menntunarfræðum og áratuga reynslu af að þróa og skipuleggja hvers kyns nám.

Hetjuferðarnámskeiðin

„Fjölbreytni námskeiðanna fer stöðugt vaxandi af því að ég er alltaf að læra eitthvað nýtt sem mig langar að kenna,“ segir Björg. Tvö nýjustu námskeið Stílvopnsins byggjast á hugmyndinni um hetjuferðina, eða The Hero´s Journey. „Þetta eru ólík námskeið þótt þau byggist á sömu hugmyndafræði. Skapandi skrif – ferð hetjunnar er hreinræktað ritlistarnámskeið. Það sækir gjarnan fólk sem vill skrifa fantasíur eða spennubókmenntir en líka fólk sem finnst hetjuferðin gagnast sér við hvaða skrif sem eru. Skrifað er samkvæmt þeirri hugmynd að allar sögur heims byggist í raun á ævafornu líkani um persónusköpun og framvindu, hinni svokölluðu frumgoðsögu. Námskeiðið gæti líka heitið Hetjan og höfundurinn enda er einn þráður námskeiðsins sá að hjálpa höfundum að kynnast hetjunni innra með sér. Bataferð hetjunnar kalla ég hitt hetjuferðarnámskeiðið. Það er skemmtileg smiðja fyrir fólk sem vill skoða áskoranir lífs síns með hvers kyns skapandi aðferðum,“ segir hún.

Skáldskapur, endurminningar, skoðanir og þekking

Önnur námskeið á vorönn eru skapandi skrif sem Björg hefur þróað í þrjátíu ár og snýst um að skrifa skáldskap, endurminningaskrif þar sem kveikt er á endurminningum og þær skráðar og námskeið um að koma þekkingu sinni, reynslu og skoðunum á framfæri í rituðu máli. Námskeið vorannar 2020 verða ekki aftur í boði fyrir almenning fyrr en á vorönn 2021 svo að fólk ætti að drífa í að skrá sig núna. „Á haustönn mun Stílvopnið einbeita sér að sérsniðnum námskeiðum fyrir vinnustaði, skóla, stéttarfélög, sveitarfélög, vinahópa og leshringi. Auk þess langar mig að nota meiri tíma í ráðgjöf um ritlist sem mikil þörf virðist vera fyrir,“ segir Björg.

Almenn námskeið Stílvopnsins eru tólf klukkustunda helgarnámskeið eða sextán klukkustundir, fjórar stundir í senn einu sinni í viku. Hægt er að fá námskeiðin sérsniðin á hvaða formi sem er. Námskeiðin eru að þessu sinni haldin í Reykjavík, á Ísafirði og í Eyjafirði og í nóvember heldur Stílvopnið ritlistarnámskeið í borginni Kochi á Indlandi. Hugsanlega er eitt pláss laust en ganga verður frá skráningu nú í byrjun janúar.