Hildur Einarsdóttir gegnir starfi forstöðumanns á þróunarsviði Össurar en á þeim þrettán árum sem hún hefur starfað hjá fyrirtækinu hefur deildin stækkað gífurlega.

Þróunarsvið Össurar er með starfsstöðvar á Grjóthálsi í Reykjavík, Livingston í Skotlandi og í Orange County í Kaliforníu. „Stærsti hópurinn starfar þó hér heima og samanstendur af fjölbreyttum þverfaglegum hópi verkfræðinga, tæknifræðinga, hönnuða, lækna, hagfræðinga, sjúkraþjálfara og stoðtækjafræðinga,“ segir Hildur.

Fjölbreytnin lykilatriði

Að sögn Hildar hefur deildin vaxið töluvert síðan hún hóf störf í þróunardeildinni sem ungur verkfræðingur. „Þá vorum við fimm í „bionics“ hópnum sem þróar tölvustýrðar vörur. Í dag telur sá hópur 40 manns og á þessum tíma hafa vörur, einkaleyfasafn og framboð Össurar vaxið gríðarlega á öllum sviðum.

Við erum heppin hér heima að viðfangsefnin innan Össurar, landið okkar, náttúran, hreina orkan og lífsstíllinn, er aðlaðandi í augum íslenskra sem og erlendra sérfræðinga sem eru tilbúnir að þrauka í gegnum kalda og dimma vetur fyrir það sem við höfum upp á að bjóða. Í dag telur þróunardeildin öll vel á annað hundrað manns, deildin er fjölþjóðleg og starfa hér ólíkir sérfræðingar frá fimmtán mismunandi löndum. Fólk kemur frá mismunandi sérsviðum, ýmsum menningarheimum og frá mismunandi háskólum með frábrugðnar áherslur. Fjölbreytni teymisins er einnig í aldursbilinu. Margir búa yfir löngum starfsaldri hjá fyrirtækinu og hafa byggt upp áralanga reynslu á sínu sviði sem hefur skilað sér í nýsköpun og lausnum fyrir stoðtækjanotendur um allan heim. Einnig fáum við inn unga verk- og tæknifræðinga snemma á sínum starfsferli sem veita okkur innblástur með sinni sýn. Þá er gaman að sjá kynjahlutfallið jafnast út eftir því sem árin líða.

Þegar svo ólíkir sérfræðingar sitja saman í hóp með sömu vöruna fyrir framan sig eru allir með gjörólíka sýn, sem er gífurlega mikilvægt til að tryggja að lokaútkoman henti breiðum hópi notenda og uppfylli allar þær kröfur sem settar eru á vörurnar okkar. Það spilar enda svo ótal margt inn í þróun á vöru og margt sem þarf að huga að. Það er mikilvægt að taka mannlega þáttinn í upphafi þróunarferlisins og skoða út frá mismunandi sjónarhornum.“

Árið 2015 kynnti Össur nýja tækni sem gerir fólki með gervifætur og -hendur kleift að stýra með hugarafli (e. mind-con­trolled pros­thetics).

Líf án takmarkana

Einkunnarorð Össurar eru enda „Life without Limitations“ eða Líf án takmarkana. „Í starfi okkar leitumst við ávallt eftir því að skapa vörur sem henta lífsstíl og þörfum einstaklingsins, þannig að hann þurfi ekki að sníða lífsstíl sinn í kringum vöruna. Þar kemur mannlegi þátturinn inn. Við viljum að fóturinn eða höndin geti verið hluti af viðkomandi notanda. Fótur eða hönd mega hvorki vera of þung né of létt, of stór eða of lítil, svörunin þarf að vera hröð og varan þarf að vera örugg. Þá er líka gífurlega mikilvægt að vörurnar þoli allt það hnjask og álag sem notendur vilja setja á þær. Fólk á ekki að þurfa að læðast um, skelfingu lostið um að skemma vöruna. Þess vegna erum við mjög gróf í prófunum til að tryggja það að notandinn hafi raunverulegt gagn af vörunni í hvaða aðstæðum sem er.“

Ferlið

Hugmyndir að nýrri eða endurbættri vöru koma úr öllum áttum, innan þróunardeildarinnar, frá markaðsfræðingum fyrirtækisins en einnig frá notendum sem Össur er í samskiptum við. Ferlið sem ein vara fer í gegnum er afar vel skilgreint innan fyrirtækisins og tekur allt frá tólf mánuðum upp í fimm ár. „Tímalengdin veltur mikið á því hvort um sé að ræða glænýja vöru, tækni og efni, eða vöru sem byggð er á eldri útgáfu.

Það er mjög mikilvægt að varan sem við erum að þróa muni hafa vægi innan sviðsins, þjóni notandanum og sinni þörfum hans. Þetta eru fyrst og fremst lækningatæki og við þurfum að geta sýnt fram á að þau virki sem slík og skili tilætluðum árangri. En við þurfum líka að geta framleitt vörurnar á hagkvæman máta. Í ofanálag þurfa vörurnar að uppfylla kröfur frá mismunandi tryggingakerfum á okkar fjölmörgu markaðssvæðum þannig að notendur hafi yfirhöfuð aðgang að þeim. Þá koma markaðsdeildirnar og hagfræðingarnir sterk inn í ferlið.“

Leiðandi um allan heim

„Össur byggir á íslensku hugviti í þróun og framleiðslu á öllum sínum vörum og nýtur góðs af því hve vel er hlúð að nýsköpunarstarfi á Íslandi. Það er áhugavert fyrir Íslendinga að átta sig á að stoðtækin eru hönnuð og þróuð frá upphafi hér heima en svo dúkka þau upp víðs vegar um heiminn, á hjúkrunarheimilum jafnt sem á verðlaunapöllum Ólympíuleikanna. Að sama skapi er töluvert af okkar framleiðslutækjum hannað og byggt innanhúss. Hugvitið og verkvitið sem verður til hér á Grjóthálsinum nýtist fólki um allan heim,“ segir Hildur að lokum.