Það er dýrmætt fyrir þjóðina að eiga viðbragðsteymi eins og Rauða krossinn. Maður finnur það svo sterkt þegar fólk fer í gegnum hluti sem reyna verulega á. Það er eðlilegt að verða ráðalaus og í áfalli þegar alvarlegir hlutir koma upp í lífinu og þá er gott að hafa einhvern sem tekur stjórnina, hlustar, faðmar og viðurkennir hvernig fólki líður. Okkar viðkoma er oft fljótlega eftir að hamfarir eða slys hafa átt sér stað og þá er svo mikilvægt að fólk geti hallað sér upp að einhverjum, pústað um reynslu sína en umfram allt að það viti hvert það geti leitað í framhaldinu og að allar tilfinningar séu eðlilegar,“ segir Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og sjálfboðaliði í viðbragðsteymi Rauða krossins á Akureyri.

„Ég hafði reynslu af því að tala við fólk og vinna með því í ýmiss konar persónulegri uppbyggingu þegar til mín var leitað. Í upphafi var þetta hugsað sem áfallateymi sem vera átti til taks ef um náttúruhamfarir eða stórslys væri að ræða. Í fyrra var teyminu síðan breytt í viðbragðshóp og þá þurftum við að vera mun meira til taks. Við tók stórslysavetur og geysileg óveður svo maður var meira og minna á staðnum, í stað kannski tveggja skipta á vetri áður. Þetta er búið að vera ákaflega lærdómsríkt ferli þar sem maður eflist og vex við hverja raun og reynslu.“

Nærvera gerir kraftaverk

Kristín Björk hefur á liðnu ári tekið víða til hendinni fyrir norðan. Hún hefur starfað í viðbragðshóp Rauða krossins, tekið COVID-19 símtöl, starfað í sóttvarnahúsinu á Akureyri og var mjög öflug þegar óveðrið mikla skall á í vetur sem leið.

„Mér finnst gott að geta gefið af mér og verið til taks í aðstæðum eins og voru í óveðrinu á Dalvík, þar sem heilt byggðarlag var lengi án rafmagns og opnuð var fjöldahjálparstöð. Þar upplifðu sig allir litla og létu hverjum degi nægja sína þjáningu; maður stóð varnarlaus mitt í hamförunum. Íbúarnir komu til að fá mat, skjól og öryggi, og enginn vissi hvað ástandið myndi vara lengi. Þessi fjöldahjálparstöð var aðallega sett upp fyrir erlenda byggingaverkamenn sem bjuggu í vinnubúðum við höfnina en í veðrinu gekk sjórinn hreinlega yfir búðirnar. Margir þessara manna töluðu enga íslensku og takmarkaða ensku en nærvera og kaffi gera kraftaverk. Þá er ómetanlegt að eiga leiðbeiningar Rauða krossins á ýmsum tungumálum, eins og frönsku, pólsku og kínversku, sem hefur reynst dýrmætt í aðstæðum þar sem maður getur ekki tjáð sig almennilega við fólk.

Það hef ég lært með starfi mínu fyrir Rauða krossinn, að sálrænn stuðningur snýst mikið til um að vera til staðar, tala minna og leyfa fólki að tjá sig og gráta,“ segir Kristín Björk. Því fylgdi góð tilfinning að geta farið til Dalvíkur með lögreglunni og gera gagn.

„Það er nærandi að geta gefið til baka til samfélagsins, hvort sem það er í gegnum pólitík eða hjálparstarf, og ekki síst á svona stundum. Maður stækkar við það að vera til staðar en auðvitað erum við öll í þessu saman, hvort sem það er fárviðri eða heimsfaraldur, og ég heyri oft þegar ég hughreysti aðra að þá hughreysti ég sjálfa mig í leiðinni.“

Starfið gefur mikið

Kristín Björk starfar sem landvörður á sumrin og þar hefur líka komið sér vel að hafa reynslu af sálrænum stuðningi þar sem fólk lendir í alls kyns óvæntum háska á hálendinu og er ekki í aðstæðum sem það þekkir úr daglega lífinu.

„Starfið með viðbragðshópi RKÍ hefur gefið mér mikið. Að starfa í sóttvarnahúsinu var einkar fróðlegt því auðvitað eru allir að gera þetta í fyrsta skipti en ég upplifði allt til svo mikillar fyrirmyndar og fannst mikið öryggi í að sjá hvernig starfið fer fram þar. Hitt, að vinna með viðbragðsteyminu á ögurstundu, dýpkar mann, að upplifa samhuginn eins og í fárviðrinu á Dalvík. Slík samkennd lætur engan ósnortinn. Það er dýrmætt að sjá að til sé svo gott fólk.“