Á fyrirlestrinum sýni ég fram á raunverulegan árangur af hreyfingu fyrir nýrnasjúklinga og segi frá niðurstöðum rannsókna sem sýna að hreyfing hægir á nýrnabilun,“ segir Björn Þór.

Björn segir eitt einkenni nýrnabilunar vera mikla þreytu og slappleika, það sé því oft stór hjalli að yfirstíga fyrir fólk að byrja að hreyfa sig. „En fyrir þennan hóp er hreyfing mjög mikilvæg. Góðu fréttirnar eru þær að sá nýrnabilaði hefur sömu möguleika og aðrir til að þjálfa upp bæði þol og styrk, þrátt fyrir sín veikindi.“

Þegar einstaklingur hefur lengi verið í kyrrsetu út af sínum sjúkdómi er mikilvægt að ráðfæra sig við lækni og fara rólega af stað, að sögn Björns. „Það er ekki nauðsynlegt að fara í líkamsræktarstöð en það getur verið gott að byrja á stuttum göngum. Aðalmálið er að hreyfingin fái sinn tíma. Sumir skilgreina það sem hreyfingu að þrífa heima hjá sér eða brjóta saman þvott, en ég er ekki sammála því.“

Reglubundin hreyfing getur verið, göngur, hjólaferðir, dans eða jóga til dæmis. Hreyfingin getur haldið blóðþrýstingi í skefjum og spornað við vöðvaniðurbroti og beinþynningu sem eru afleiðingar nýrnabilunar.

„Hreyfing er einn aðalorsakavaldurinn í því að halda orkunni uppi,“ segir Björn. „Ég tala um þessi atriði á fyrirlestrinum, en mér hefur fundist þekking á mikilvægi hreyfingar fyrir nýrnabilaða vera af skornum skammti hér á landi. Þess vegna er nauðsynlegt að auka fræðslu sem sjúklingar geta leitað í.“

Markmið Nýrnafélagsins er að gæta hagsmuna þeirra sem veikjast af nýrnasjúkdómum og aðstandenda þeirra. Það er gert með því að halda uppi fræðslu til þeirra sem eru veikir og halda uppi fræðslu sem forvörn til að koma í veg fyrir nýrnasjúkdóma. Aðalorsök nýrnabilunar á Íslandi er of hár blóðþrýstingur og því er hreyfing mikilvæg sem forvörn nýrnasjúkdóma sem og annarra sjúkdóma.

Fyrirlesturinn verður að Há­túni 10, þriðjudaginn 5. nóvember, klukkan 17.00. Allir velkomnir og frítt fyrir félaga.Allir sem áhuga hafa á að leggja málstaðnum lið geta orðið félagar í Nýrnafélaginu og hægt er að skrá sig á heimasíðu félagsins nyra.is.