„Það eru viðbrigði að hætta í Ljósinu og fara út í lífið á ný. Fólki líður vel hjá okkur en þegar það er komið vel á veg með að byggja sig upp er gott að fá hvatningu og hjálp til að horfa út fyrir Ljósið.“

Þetta segir Guðný Katrín Einarsdóttir, iðjuþjálfi í Ljósinu, sem heldur utan um námskeiðið Tímamót – ný hlutverk, sem hefst í Ljósinu um miðjan október.

„Námskeiðið er hugsað fyrir fólk sem er að ljúka sinni endurhæfingu hjá Ljósinu og sér ekki fram á að snúa aftur á vinnumarkað eftir veikindin, annað hvort vegna langvarandi heilsufarsvanda sökum sjúkdómsins eða afleiðinga hans. Námskeiðið er líka fyrir þá sem eru að nálgast eftirlaunaaldur þegar þeir greinast með krabbamein og hætta þá aðeins fyrr að vinna en þeir ætluðu sér. Þetta er stór hópur sem er læknaður af krabbameini en er að hefja nýtt æviskeið,“ segir Guðný.

Námskeiðið var fyrst sett á laggirnar vorið 2021 og verður nú haldið í fjórða sinn.

„Ljósið hafði lengi boðið upp á námskeiðið Aftur til vinnu, en svo sáum við að stór hópur fer ekki til vinnu á ný. Tímamóta-námskeiðið er á svipuðu stigi í endurhæfingu, eða þegar fólk er komið vel á veg með að byggja sig upp, en nýtist nú breiðari hópi,“ útskýrir Guðný.

Hvatning og tækifæri

Mikill hugur er í fólki eftir námskeiðið Tímamót.

„Námskeiðið hentar vel þeim sem eru komnir á þann stað að horfa út fyrir Ljósið og fram á veginn, og svo sannarlega er ánægjulegt að heilsufarið sé svo gott að maður þurfi ekki lengur á Ljósinu að halda. Við settum námskeiðið af stað til að undirbúa fólk undir það og draga fram að hverju það vill stefna eftir endurhæfingu í Ljósinu. Við hjálpum því að finna styrkleika sína, hvað því þykir skemmtilegt, hvað það vill gera við tíma sinn og orku, og hverjir möguleikarnir eru úti í samfélaginu þegar ekki verður aftur snúið til vinnu, og til að fólk verði ekki óvirkt þegar það hættir hér heldur sé komið með áætlun um hvað það vilji gera,“ greinir Guðný frá.

„Okkar skjólstæðingar hafa verið duglegir að notfæra sér námskeiðið og ég veit að þeim þykir mjög gagnlegt að spjalla saman, heyra að það eru fleiri í sömu stöðu og þeir og fá hvatningu frá hinum. Það á við um mörg námskeið Ljóssins. Við reynum að tengja fólk saman og því þykir mjög áhugavert að fá innsýn í í ýmis úrræði í samfélaginu sem það vissi ekki um áður, eins og félagsmiðstöðvar, Vöruhús tækifæranna og U3A sem er háskóli þriðja æviskeiðsins og félagasamtök fólks 50 ára og eldri, sem hittist og er með fræðslu og viðburði,“ upplýsir Guðný.

„Það sem tekur við eftir Ljósið þarf að vera spennandi tilhugsunar og það er sannarlega margt spennandi sem bíður þeirra sem snúa ekki aftur til vinnu eftir veikindin. Á námskeiðinu förum við á stúfana og gerum hitt og þetta forvitnilegt, því það er auðveldara að heimsækja nýja staði í hóp en að skoða þá einn. Það opnar augu fólks fyrir því sem er í boði og það getur frekar hugsað sér að koma seinna og taka þátt í starfinu.“

Finna styrkleika sína

Hver er ég? er annað vinsælt námskeið hjá Ljósinu sem margir taka þegar þeir eru búnir með sína meðferð, til að átta sig á sinni stöðu og byggja sig upp á ný.

„Það er mikilvægt að styrkja sjálfsmyndina eftir veikindi og setja sér nýja stefnu. Það þarf að sætta sig við að maður verður ekki aftur sá sami og maður var áður þegar kemur að úthaldi, orku, minni og fleiri mögulegum afleiðingum veikindanna. Því þarf að endurstilla sig, finna út hvað skiptir mann mestu máli og hvað hentar manni fyrir innihaldsríkt líf eins og staðan er nú,“ segir Guðný.

Námskeiðið Tímamót fer fram einu sinni í viku, sex vikur í senn.

„Námskeiðið er uppbyggjandi og hvetjandi fyrir þá sem hafa gengið í gegnum erfið veikindi og meðferð; að staldra við og finna hverjir styrkleikar þeirra eru. Margir hafa farið út fyrir boxið á hvers kyns námskeiðum í Ljósinu og uppgötvað þar ný áhugamál og styrkleika sem þeir hafa svo unnið með áfram. Allt skiptir það máli því ég held að erfiðast við að hætta á vinnumarkaði sé félagslega tengingin við vinnufélagana, og að hafa rútínu og hlutverk,“ segir Guðný.

Ljósið er á Langholtsvegi 43. Sími 561 3770. Nánari upplýsingar um námskeið Ljóssins er að finna á ljosid.is