Hönnunarsafn Íslands er einstakt sinnar tegundar á Íslandi enda eina safnið sem safnar, skráir, rannsakar og miðlar íslenskri hönnun frá 1900 fram til dagsins í dag. Síðastliðin tvö ár hefur safnið skoðað sérstaklega þau tækifæri sem leynast í stafrænum rýmum safnsins og hvernig nýta megi þau safninu til framdráttar á líflegan og fræðandi hátt segir Sigríður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands. „Það hefur verið lögð sérstök áhersla á að líta á stafræn rými safnsins sem eðlilegt framhald af sýningarhúsnæðinu. Við lítum á þá gesti sem sækja þau heim jafn mikilvæga og þá gesti sem koma inn á sýningarnar í húsnæði safnsins við Garðatorg 1.“

Frá sýningunni Sund sem nú stendur yfir í Hönnunarsafni Íslands. MYND/VIGFÚS BIRGISSON

Þegar safnhúsið var lokað almenningi vegna COVID skapaðist svigrúm til að staldra við og rýna í stafræn rými safnsins. „Þá hófumst við handa við að skoða hvert rými fyrir sig. Hvað ætti heima í hverju rými, hvernig þau tengdust viðfangsefnum og starfsemi safnsins, hvaða tækifæri leyndust í þeim og hvernig safnið gæti virkjað þau. Að lokinni þessari vinnu fékk hvert rými ákveðnar áherslur og hverjum starfsmanni var úthlutað raunhæfu hlutverki. Rýmin sem um ræðir eru heimasíða, Facebook, Instagram og Google Maps.“

„Það hefur verið lögð sérstök áhersla á að líta á stafræn rými safnsins sem eðlilegt framhald af sýningarhúsnæðinu," segir Sigríðir Sigurjónsdóttir. MYND/ARNDÍS ÁRNADÓTTIR

Fagleg og metnaðarfull nálgun

Meðal verkefna sem safnið hefur unnið beint fyrir samfélagsmiðla nefnir Sigríður Jóladagatal á Facebook, sem birtist einnig sem sýning í glugga safnbúðar. „Á Instagram var unnin sýning í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands árið 2018 sem meðal annars er notuð í kennslu í hönnunarsögu við Tækniskólann. Þá var sent beint út á Facebook hægvarp á meðan samkomutakmarkanir voru í gildi.“

Sýningar Hönnunarsafnsins undanfarin tvö ár hafa líka vakið athygli fyrir faglega og metnaðarfulla nálgun á viðfangsefninu. „Innri sýningarsalur safnsins hefur meðal annars verið nýttur sem opið rými til rannsókna og hvetur þannig til samtals safnsins við rannsakendur á sviði hönnunar. Þá hefur safnið tekið í notkun 90 fm svæði sem kallast Smiðja og er ætlað undir safnfræðslu, smiðjur, námskeið og fleira. Í anddyri safnsins hafa undanfarin misseri verið reknar vinnustofur þar sem hinir ýmsu hönnuður hafa dvalið 3 mánuði í senn og hefur það gefið möguleika á samtali milli gesta safnsins og hönnuðanna. Fyrirkomulagið lífgar upp á safnaumhverfið og gefur innsýn í aðferðafræði og störf hönnuða.“

Sjá nánar á honnunarsafn.is.