Hollvinasamtök Reykjalundar eru samtök fólks sem þykir vænt um Reykjalund og er tilbúið til að leggja sitt af mörkum til að efla starfsemina og styrkja frekari uppbyggingu hennar. Margir eiga þessari stofnun líf sitt að þakka, eða eiga vini og ættingja sem hafa fengið bót sinna meina eftir dvöl á Reykjalundi, “ segir Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður og formaður samtakanna.

Um fjögur hundruð manns eru í Hollvinasamtökunum. Engin skuldbinding fylgir því að vera félagi, önnur en sú að borga hóflegt árgjald sem nýtt er í þágu starfsemi Reykjalundar. Aðrir sem vilja leggja Reykjalundi lið geta haft samband við samtökin, sem sjá þá um að koma fjármunum rétta leið. „Samtökunum hafa borist miklar og góðar gjafir frá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum á undanförnum árum,“ segir Bryndís.

Hollvinasamtökin hafa staðið fyrir kaupum á ýmsum tækjum sem gagnast starfseminni vel en þau eru keypt í samráði við forstjóra, lækna og aðra sem til þekkja. „Á síðustu árum höfum við gefið hjartaómtæki og öndunarmæli, sem eru til þess gerð að auka enn frekar þjónustu við skjólstæðinga Reykjalundar. Hollvinasamtökin voru stofnuð í lok árs 2013 og hafa frá þeim tíma gefið Reykjalundi gjafir fyrir rúmlega 60 milljónir,“ segir Bryndís.

Hollvinasamtökin eru mikilvæg fyrir Reykjalund. „Fjármunir hins opinbera eru oft takmarkaðir og þá skipta svona samtök miklu máli. Það er ánægjulegt hversu margir vilja leggja Reykjalundi lið og það er greinilegt að fólki er annt um þessa stofnun.“

Hægt er að skrá sig sem hollvin á heimasíðu Reykjalundar reykjalundur.is