Halldór Steinsson er yfirmatreiðslumaður og hefur séð um eldhúsið í átta ár. Í matstofu Jónasar hefur alla tíð verið boðið upp á grænmetisfæði og veganrétti auk þess sem fiskur er tvo daga í viku. Lögð er áhersla á holla og góða rétti úr nærliggjandi umhverfi og Halldór segir að það sé bæði krefjandi og skemmtilegt að elda fjölbreytta rétti fyrir gesti á öllum aldri.

„Hér er gott að starfa,“ segir hann. „Ég starfaði áður á veitingahúsum í Reykjavík en mér hefur fundist mjög skemmtilegt að takast á við matargerðina hér og frábært að geta haft áhrif á hvaða grænmeti er ræktað fyrir okkur. Auk þess fæ ég flestar kryddjurtir héðan af svæðinu,“ segir hann. „Yfirleitt heyri ég bara þakklæti frá gestum. Sumir eru ekki vanir því að vera á grænmetisfæði og finnst það skrítið fyrst, en það venst og fólk fer ánægt héðan,“ segir hann. „Reyndar eru fiskidagarnir mjög vinsælir,“ segir hann.

„Á venjulegum tímum erum við með stórt salatborð, súpur, nýbakað brauð og fjölbreytta grænmetisrétti á borðum. Oft erum við að elda fyrir 200 manns í hádeginu, en margir koma í mat þótt þeir dvelji ekki á Heilsustofnun. Núna er staðurinn lokaður fyrir utanaðkomandi og sóttvarnareglur í hávegum hafðar,“ segir hann. „Það eru forréttindi fyrir matreiðslumann að fá að vinna í þessu umhverfi auk þess sem það er frábært að vera í Hveragerði,“ segir Halldór, en á Heilsustofnun er boðið upp á morgunverð, hádegismat, miðdagshressingu, kvöldmat og kvöldhressingu.