Fyrirtækið Narfi ehf. var stofnað í Vestmannaeyjum 1994 og er aðaltilgangur félagsins rekstur fiskiskipa og fiskvinnslu og skyld starfsemi. Starfsmenn eru á bilinu 12 til 20 manns og fer fjöldi þeirra eftir árstíðum.

„Það er dýrmætt fyrir okkur í jafn litlu samfélagi og Vestmannaeyjum að einhverjir hafi áhuga á því að reka eigin fyrirtæki,“ segir Viðar Elíasson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

„Við höfum auðvitað metnað til að skapa okkur og öðrum vinnu; það nýtist nærsamfélaginu. En þá þurfum við að keppa á jafnræðisgrundvelli og það er erfiðara fyrir minni fyrirtæki. Til að svo megi vera má ekki íþyngja smærri fyrirtækjum með of flóknu regluverki. Það segir sig sjálft að stór fyrirtæki eiga auðveldara með að gera hagkvæmari samninga um aðföng og fleira vegna stærðar sinnar.“

Narfi rekur í dag eitt skip, Maggý VE, og fiskvinnsluna FVE.

„Við höfum verið að draga úr fiskvinnslunni vegna þess að minni fyrirtæki sem eru að vinna fisk standast ekki alþjóðlega samkeppni því að launakostnaður er orðinn hár og til að lifa þetta af þarf að keyra mikið magn af hráefni í gegnum vinnsluna. Samhliða því þurfa fyrirtæki að vera mjög tæknivædd og það kostar mikla peninga að tæknivæða sig. Við höfum bara ekki þær heimildir og eigum mjög erfitt með að ná í þennan fisk sem við þurfum til að geta staðist þessa samkeppni.“

Miklar afleiðingar

Narfi hefur átt fimm báta frá því fyrirtækið var stofnað árið 1994. Viðar talar um áhrif þess á fyrirtækið að humarveiðar eru bannaðar eins og er.

„Ástæðan fyrir því að við erum búin að eiga svona marga báta er að við vorum að sérhæfa okkur í veiðum og vinnslu í humri. Það var bara mjög erfitt að komast yfir humarkvóta nema kaupa skip og kvóta.

Þetta gekk ágætlega til að byrja með en hin síðari ár hefur humarkvótinn farið niður á við og í dag er það þannig að það er búið að stöðva humarveiðar næstu tvö árin, sem er auðvitað mikið áfall fyrir fyrirtækið. Á sama tíma og humarveiðar eru bannaðar eru engar rannsóknir stundaðar á humri, sem okkur finnst mjög sérstakt. Ætti ekki frekar að auka rannsóknir og reyna að komast að því hvað veldur því að humarstofninn hefur farið svona niður á við? Þetta hefur miklar afleiðingar fyrir okkur vegna þess að humarkvótinn sem við vorum með, og þær heimildir sem við vorum að veiða á hverju ári, voru um 25 prósent af heildarkvótanum,“ segir Viðar og heldur áfram:

„Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa ítrekið bent á að það þurfi að auka rannsóknir en það hefur ekki fengist fjármagn í það. Þetta er verðmætur stofn og mikilvægt að fá vitneskju um það hvað veldur því að stofninn hrynur. Þetta kemur mjög illa við mörg fyrirtæki og sérstaklega kannski minni fyrirtæki sem hafa úr minna að moða.“

Þetta viðtal birtist í sérblaði Samtaka atvinnulífsins sem fylgdi Fréttablaðinu fimmtudaginn 29. september 2022.