Skarphéðinn Óli, faðir hans, Rúnar Ólafsson og systir, Stefanía Anna Rúnarsdóttir, eru tilbúin í hlaupið. Rúnar ætlar í hálft maraþon en systkinin taka 10 km. Skarphéðinn segist hafa fengið hugmyndina þegar hann greindist með krabbamein og naut stuðnings frá Krafti sem er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur. Stefanía og Rúnar ætla að styðja Skarphéðinn um leið og þau leggja góðu málefni lið.

„Síðasta sumar greindist ég með krabbamein í brisi, þá 24 ára, og í október fór ég í aðgerð þar sem brisið var fjarlægt. Eftir það er ég með sykursýki, tegund 1. Í endurhæfingunni þurfti ég meðal annars að læra inn á líkama minn upp á nýtt, samspil blóðsykurs og insúlíngjafa. Snemma í bataferlinu setti ég mér það markmið að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu, bæði til þess að styrkja sjálfan mig og safna áheitum fyrir Kraft í leiðinni,“ segir Skarphéðinn og bætir við. „Ég kynntist starfsemi Krafts eftir að ég greindist. Mér þykir mikilvægt að til sé félag eins og Kraftur sem heldur utan um og aðstoðar ungt fólk sem greinist og aðstandendur þeirra. Það er erfitt að greinast með krabbamein og það getur verið erfitt að vita hvert maður á að leita. Starfsemi Krafts hefur verið mér mikil hvatning í bataferlinu. Ég hvet alla til að kynna sér starfsemi félagsins,“ segir hann.

Rúnar, faðir hans, segir það veita ró og von að vita um starfsemi Krafts. „Það hjálpar manni að vona að hlutirnir fari vel. Það er mikilvægt að til sé vettvangur þar sem ungt fólk sem er að takast á við erfiða hluti geti nýtt sér jafningjastuðning og deilt reynslu.“

Stefanía segir að krabbamein sé eitthvað sem snerti flesta á einhvern hátt á lífsleiðinni. „Það er aukið áfall að greinast með það ungur að árum. Kraftur sinnir því mikilvæga starfi að standa við bakið á þeim sem þurfa að ganga í gegnum þetta. Með því að hlaupa fyrir Kraft viljum við gefa tilbaka til málefnis sem skiptir okkur miklu máli,“ segir hún.

Skarphéðinn og Stefanía hafa æft sig frá því þau tóku ákvörðun að skrá sig í hlaupið í lok síðasta árs. Rúnar hefur hins vegar hjólað mikið undanfarin ár, stundað fjallgöngur og hlaupið af og til. „Eftir áramótin fór ég að æfa hlaup reglulega,“ segir hann.

„Undirbúningurinn minn er aðallega búinn að snúast um að læra á sykursýkina í takt við aukna hreyfingu, til þess að geta klárað 10 km. Ég og systir mín byrjuðum í vetur að drífa hvort annað í ræktina þar sem við notuðum hlaupabretti og hjól. Þegar COVID-faraldurinn stóð sem hæst færðum við okkur út í göngur og skokk,“ útskýrir Skarphéðinn. Stefanía sem er 28 ára hefur stundað göngur og útivist en ekki mikið hlaup. „Við Skarphéðinn hvöttum hvort annað af stað í skokkið,“ segir hún. Rúnar hefur æft með skokkhópnum Fram í Grafarholti fjórum sinnum í viku. „Á versta COVID-tímabilinu hljóp ég einn en við í hlaupahópnum deildum á lokaðri Facebook-síðu hlaupunum með hvert öðru sem var góður stuðningur. Um síðustu helgi hljóp ég í fyrsta sinn í skipulögðu víðavangshlaupi „Fjögurra skóga hlaupið“, 17,6 km til að undirbúa mig fyrir hálft maraþon,“ segir Rúnar en þau þrjú hafa nú safnað 120 þúsund krónum.

Þau segja að margir flottir hlauparar séu að safna fyrir Kraft og þau hvetja fólk til að styrkja félagið með áheitum. „Í fyrra safnaði Kraftur rétt tæplega 6 milljónum króna og það væri gaman að vera partur af því að bæta það í ár,“ segja þau. „Mér hefur þótt gott að vita af Krafti í gegnum bataferli mitt. Þar eru margir að ganga í gegnum svipað og ég og það er mikilvægt að heyra af upplifunum annarra. Maður stendur ekki einn,“ segir Skarphéðinn.

Hægt er að styrkja Skarphéðinn, Stefaníu og Rúnar á hlaupastyrkur.is