„Nemarnir okkar hafa meðal annars unnið að öflun þekkingar á skynjurum, sem við erum ekki að bjóða upp á í núverandi skynjaraframboði okkar og við viljum skoða að þróa og selja til viðskiptavina okkar í framtíðinni. Þróunar- og framleiðsluferlar og notendaforrit hafa síðan verið uppfærð með hjálp þessara námsmanna,“ segir Sigmar Guðbjörnsson framkvæmdastjóri Star-Odda.

„Við höfum náð að virkja þá þekkingu betur, oft með því að ráða viðkomandi námsmann til sumarstarfa eða fastráðið hann að loknu námi. Að keyra verkefni gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna er, frá okkar bæjardyrum séð, kjörið tækifæri fyrir námsmenn til að koma sér á framfæri við fyrirtæki í nýsköpun.“

Vörurnar sem Star-Oddi framleiðir eru skynjarar sem græddir eru í dýr til að mæla hegðun og atferli þeirra.

„Það tekur nokkur ár að þróa, hanna og setja skynjara í vörurnar okkar. Þetta er því langhlaup sem byggist upp á umtalsverðum prófunum á vörunni bæði innanhúss og hjá notendum vörunnar. Eitt skýrasta dæmið um árangur af svona þróunarvinnu er hvernig okkur hefur tekist að hanna hjartaskynjara sem græða má í dýr. Námsmaðurinn sem vann að verkefninu á sínum tíma er Ásgeir Bjarnason og hlaut hann Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands árið 2010. Ásgeir er í dag heilbrigðisverkfræðingur og starfar sem sérfræðingur hjá Star-Odda,“ segir Sigmar, en Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkti verkefnið.

„Styrkurinn fór í að færa okkur grunnþekkingu á nemunum, síðan tekur við teymi sem vinnur vöruna. Þetta verðlaunaverkefni hefur haft þau áhrif að við erum með eina hjartsláttarskynjarann á markaðnum sem er án víra. Allir aðrir skynjarar á markaði fyrir dýr eru með útistandandi vírum. En það kostar meiri tíma í ígræðingu í dýrin, tíma sem er oft dýrmætur þar sem dýrin þola mörg hver ekki langar aðgerðir, til dæmis fiskar. Þennan skynjara er hægt að græða undir húð á dýrinu eða setja hann innvortis. Skynjarinn hefur verið notaður í fjöldann allan af dýrategundum af ýmsum stærðum bæði á láði og legi, allt frá elgum niður í litla svartþresti.“

Mikil aukning á eftirspurn

Sigmar segir að þekking á hegðun rafboða hjartans skipti miklu máli þegar kemur að rannsóknum á dýrum.

„Það er markmið okkar að auka þekkingu rannsakenda á tengingu hjartsláttar meðal annars við hegðun dýra. Síðan við komum með hjartsláttarskynjarann á markað hafa þeir verið framleiddir í þúsundum eintaka, og sjáum við fram á myndarlega aukningu á eftirspurn eftir þessum skynjurum á komandi árum bæði í rannsóknum á sjávar- og landdýrum,“ segir hann.

Auk fleiri þróunarverkefna er Star-Oddi að þróa súrefnismettunarskynjara en hann er ekki kominn í framleiðslu ennþá. Sigmar segir þróun hans ganga vel og ekki langt að bíða að hann fari í prófanir.

„Þegar hann er kominn á markað getum við boðið upp á skynjara sem nema flest þau lífsviðbrögð í dýrum sem eru mæld í mönnum, sem er eitthvað sem við erum ákaflega stolt af.“

Að lokum nefnir Sigmar að undantekningarlaust hafi verið góð samvinna milli Star-Odda og þeirra nemanda sem hafa unnið að NSN-verkefnum hjá þeim.

„Við munum áfram bjóða námsmönnum að vinna með okkur, en við höfum haft mest fimm námsmenn á sama tíma á mismunandi stigum í náminu, allt frá B.Sc.-, M.Sc.- og doktorsnema.“