Endurhæfing er teymisvinna sem er einstaklingsmiðuð og sérsniðin fyrir hvern sjúkling. Tekið er mið af getu hans og færni, sem og persónulegum þáttum eins og menntun, fjölskyldu, búsetu, kyni og vinnu, allt eftir því hvaða markmið er með vinnunni. Mikil áhersla er lögð á fræðslu og þátttöku sjúklings.

Meginmarkmið hjartaendurhæfingar er að aðstoða fólk sem fengið hefur hjartasjúkdóma við að ná sem bestri líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu og færni. Þar með talið að bæta líðan og lífsgæði.

Í samstarfi við sjúklinginn sjálfan vinnur þverfaglegt teymi lækna, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, hjúkrunarfræðinga, sálfræðings, næringarfræðings, félagsráðgjafa og sjúkraliða að því að ná þessu markmiði á hjartasviði Reykjalundar. Hjartaendurhæfing er einstaklingsmiðuð og er skipt í fjóra meginþætti, þjálfun, fræðslu, andlega og félagslega aðlögun og meðferð áhættuþátta til betra lífs og heilsu.